29.07.1912
Efri deild: 11. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

39. mál, aðflutningsbann á áfengi

Guðjón Guðlaugsson flm.):

Jeg býst við, að hjer sannist málshátturinn sá; „sínum augum lítur hver á silfrið“. Veit jeg marga, sem hafa sömu skoðun og jeg í þessu máli, og aftur marga, sem hafa andstæða skoðun. Yfirleitt eru skoðanir manna í máli þessu mjög fjarstæðar.

Hjer er um það að ræða, að bera það undir atkvæði þjóðarinnar, hvort hún vilji bann eða ekki, en ekki það að nema bannið úr gildi. Fyrst á að spyrja þjóðina að því. —Þegar hafa komið fram háværar raddir um það, að bannlögin skuli úr gildi numin. T. d. hefur þess verið óskað á tveim þingmálafundum í mínu kjördæmi, en vikið við í almenna atkvæðagreiðslu, og því er mjer skylt að bera það fram hjer. — Allmargir eru á þeirri skoðun, eða hafa þá trú, að skoðanir manna alment á þessu máli hafi talsvert breyzt síðan í september 1908. Skoðun sú er að ýmsu leyti á rökum bygð vegna þess að menn eru farnir að sjá, að lög þessi sjeu ekki happadrjúg. Menn vita það, að atkvæðagreiðslan 1908 var framkvæmd í alt of miklu flaustri. Fyrir málinu var agiterað með landssjóðsstyrk aðeins á aðra hliðina, aðeins fyrir því, að lögin yrðu samþykkt. Enginn styrkur kom frá hinni hliðinni. Enginn skrifaði pjesa eða ritgjörð á móti banninu og enginn ritstjóri var til, er tók við slíkum skrifum. Málið var á prjónunum við hliðina á miklum „agitationum“ og æsingum í öðrum efnum; og hefur það þegar sýnt sig, hve .staðgóðar þær hafa orðið.

Jeg ætla ekki að dyljast þess, eða halda því fram, að þetta sje leikaraleg tilraun, sem bygð sje á því, að við teljum atkvæðagreiðsluna falla að miklu leyti, sem áður. Hve mikill meiri hluti verði með því, að nema lögin úr gildi, um það þori jeg ekkert að segja, eða hvort hann verði nægilegur til þess, að þau verði numin úr gildi. — En eitt er víst, að margir eru þeir, sem hafa sömu trú, að skoðanirnar hafi breyzt. Það eru t. d. bannvinir allir. Þeir eru á móti atkvæðagreiðslunni; en það getur ekki stafað af öðru en því, að þeir sjeu á sama máli. En það tel jeg skýra gjaldþrota yfirlýsingu þeirra. Vantrú þeirra á þjóðarviljanum. —

En mætti maður telja það víst, sem jeg tel þó ekki víst, að atkvæðagreiðsla fari þannig, þá kemur fram sú spurning, hvort rjett væri að afnema bannlögin, þótt þjóðarviljinn væri annar.

Um þetta hygg jeg að sjeu skiftar skoðanir. En jeg játa, að rjett sje að nota sjer þjóðarviljann, ef hann kemur skýlaust fram.

En það er af því, að jeg álít svo margt varhugavert við bannlögin, að þau draga svo margan dilkinn á eftir sjer. Í fyrsta lagi eru þau orsök í stórkostlegri tekjurýrð landssjóðs, og þar við bætist, eins og nú er að verða augljóst, að mjög gengur það illa og virðist jafnvel ókleift, að fylla upp í skarðið. En þetta vandaverk þarf þó að leysa af hendi.

Af því stafar það, að komið hafa fram ýms frumvörp á þessu þingi, eins og t. d. frv. um að leggja skatta á helztu afurðir landbúnaðarins, svo sem kjöt, ull, skinn o. fl., og það er þó sannarlegt neyðarúrræði, sem ekki ætti að framkvæmast.

5 eða 6 eru þessi frumv. orðin að tölunni til, en þau virðast öll vera neyðarúrræði — að undanteknu þó frumv. um lotteríið, þar sem þessi tekjugrein er tekin af mönnum, sem gjalda hana af frjálsum vilja — hin öll kúga fátæka menn til að gjalda af því, sem þeir hafa barizt fyrir árum saman, og það einungis af þeirri ástæðu, að áfengistekjugreinin er úr sögunni, og þar með þá jafnframt mennirnir, sem frá upphafi hafa goldið hana af frjálsum vilja.

Þar næst vil jeg minnast á helztu axarsköftin, sem komið hafa fram í sambandi við bannlögin, og þá einkum á allra stærsta axarskaftið, en það er frestunin á framkvæmd bannlaganna, sem samþ. var á þinginu 1909, (1912—1915).

Það var mjög skaðlegt, að fresta framkvæmd laganna um 3 ár, því með því var, að því er mjer virðist, stofnaður einskonar Svartiskóli fyrir einstaka landshluta og landið í heild sinni, í fyrsta lagi til að kenna mönnum að drekka meira (ofdrykkjukensla), í öðru lagi, til að koma mönnum í skilning um það, hvernig hægt væri að brjóta lögin (undirbúningskensla í lagabrotum).

Það, að þessum vínstraumum var veitt inn í landið á síðastliðnu ári, hefur orsakað það, að drykkjuskapur er orðinn meiri en áður, því það er vara, sem mörgum reynist erfitt að geyma.

Þessi þriggja ára frestun var því mjög óheppileg og til mikils skaða ekki einungis í því tilliti, að þar með var sumum mönnum eins og gefinn þessi tími til að ofurselja sig Bakkusi, heldur og í því tilliti, að með því var sú fulla reynsla af bannlögunum tafin um 3 ár.

Ennfremur hefur frestunin á fullri framkvæmd bannlaganna valdið öðru tjóni og því tilfinnanlegu, sem er: að þar með voru miklir peningar settir fastir í landinu og þeim kipt þannig út af peningamarkaðinum. Jeg hef frjett, að um 360 þús. kr. sje þegar búið að borga í toll, og 400 þús. kr. sjeu enn í tollgeymslu. Sjest á því, að mikla peninga hefur þurft að leggja fram fyrir vínin sjálf, ílát undir þau, flutningskostnað, pakkhúsleigu í 3 ár o. fl.

Og peningarnir eru einmitt að líkindum teknir úr bönkum, til að setja í vínföngin, sem geymd eru, og er ekki hægt, að verja fje á lakara hátt. Jeg veit það að vísu, að ekki hafa allir vínkaupendur farið í bankana sem lántakendur, en þeir hafa þá farið í sparisjóðsbækur sínar. Líka hafa víða einstakir menn stofnað fjelög ( til að panta vín til geymslu til næstu ára.

Það getur verið heiðarlegt. En hefðu menn nú þannig verið að birgja sig upp og ekki getað náð í birgðirnar hjeðan úr Reykjavík, en orðið að birgja sig upp með öðru móti, þá hefði það gjört afar mikinn skaða á báðar hliðar.

Það er annað, að geyma vínföng, en t. d. timbur eða matvæli, svo sem ýmsar korntegundir. Því þetta er hægt að geyma. En þegar einstakir menn hafa birgðir af víni, verður freistingin meiri og hættara við, að þeir neyti þess fremur; þá heldur, en ef þeir þyrftu að hafa meira fyrir að afla sjer þess.

Þetta hlýtur að valda meiri eyðslu í vínföngum yfirleitt, en sumum mönnum er það hreint og beint peningaþjófur og gáfurán.

Þá skal jeg geta þess atriðis, að fyrirsjáanlegt er, að lögin verða og eru brotin og beygð.

Mjer finst, já jeg er viss um, að menn hjer á þingi og annarstaðar eru mjög misjafnlega fróðir í þessum efnum. Sumir vita mikið, aðrir minna um það, að menn eru þegar farnir að brjóta lögin, sumir af því, að þeim þykir gott, að afla sjer fastra viðskiftavina, þegar bannið er komið á.

Áreiðanlegt er það, að lögin eru nú þegar brotin hjer í höfuðstaðnum og líka út um landið. Jeg vil ekki, en gæti þó fært sannanir fyrir því. Og enn meira eru lögin brotin af hálfu útlendinga.

Þá skal jeg minnast á það, að lögin ala upp þrjózku og virðingarleysi hjá landsmönnum sjálfum fyrir lögunum og eigi síður hjá útlendingum, sem fyrirlíta þau og gjöra gys að okkur fyrir að hafa búið til slík lög, er meðal annars fæla útlendinga burt úr landinu.

Að lögin ala upp ólöghlýðni, geta allir skilið. Og þegar nú hjer við bætist, að þessum lögum er þvingað upp á menn, þá er með því dregin fram þrjózkan.

Við vitum, hve drykkjumanninum hefur gengið það illa, að halda bindindið. Og er honum þá ekki betra að ganga sjálfviljugur í bindindi, en að láta þvinga sig til þess. Og sje því svo varið, að ýmsir bindindisfjelagsmeðlimir hafa drukkið engu að síður, þá má geta nærri, hvað verða muni, þegar kúgunarlögin koma til sögunnar. Menn ættu að geta skilið það, hvernig með þau verður farið.

Þá kemur það atriðið, sem oft hefur áður verið tekið fram, að bannlögin eru óeðlilegt og óhæfilegt haft á frelsi einstaklingsins.

Það er óeðlilegt, að löggjafarvaldið taki með valdi af mönnum þann mat eða drykk, er þeir vilja neyta.

Tilgangurinn með því að vilja taka voðann burtu, á að vera góður, sem sje að fyrirbyggja það, að menn nái í áfengið. En það sýnir sig svo, þegar á á að herða, að það er ómögulegt, að fyrirbyggja voðann að öllu leyti, og þannig litlar líkur til, að lögin nái tilgangi sínum.

Jeg veit þess dæmi, að menn hafa druknað í læknum hjer í Reykjavík, getur verið meðfram af völdum áfengis en það kemur ekki málinu við í þessu sambandi — nú er verið að byrgja hann, svo .að ómögulegt er að slíkt komi fyrir framvegis. En með þessu er þó ekki komið í veg fyrir allar druknanir, ekki einu sinni hjer í bæ, því hættan er víðar en við lækinn, svo sem t. d. á bryggjunum, og getur þá komið annað til greina, en áhrif Bakkusar, svo sem það, að mönnum getur orðið fótaskortur á bryggjunum, annað hvort óviljandi eða viljandi. Það gæti t. d. komið fyrir að eins af völdum ástargyðjunnar og einnig ýmsum öðrum raunum lífsins. Þó að hin frjálsa og löglega vínlind sje birgð, þá er ekki þar með sannað, að hinar ófrjálsu og ólöglegu uppsprettur verði stíflaðar til fulls.

Enn er eitt atriðið, sem sje það, að bannlögin verða líkkista allra bindindishreyfinga. Því þegar þau eru gengin í fult gildi, hafa bindindismennirnir ekkert að gera, en jeg sje eftir allri góðri viðleitni bindindismanna.

Hvað ættu þessir menn þá að hafa fyrir stafni í fjelagsaugnamiði? Þeir geta ekkert annað gert, en verið njósnarar, sem nasa niður í hverja kirnu og kopp og þefa framan úr hverjum manni. En það verð jeg að segja, að jeg álít, að margir þeirra sjeu of góðir menn til þess að verða slíkir snuðrarar.

Og þá skal jeg að síðustu minnast á seinasta atriðið, sem jeg vildi taka fram, sem sje á það, að bannlögin draga inn í landið ýmsa aðra óhófsdrykki, óþarfa og óholla, óáreiðanlega að styrkleik og óráðvanda við pyngjur manna.

Vjer Íslendingar erum svo óhófssamir og gjarnir á nautnir og því er hætt við því, að bannvinirnir drægju inn í landið ýmsa aðra óþarfa og óholla drykki, sem yrðu þá bæði peningaþjófar og heilsuþjófar. Og sumir eru ekki vöruvandir í þessu efni, þegar ílöngunin rekur eftir og erfitt er til fanga.

Mjer hefur verið sögð sú saga t. d., að nokkrir menn í fjelagi hafi lagt undir sig 2 kauptún í talsverðri fjarlægð hvort frá öðru. Keypt upp alla saft í öðru, en hárvatn í hinu, og lagað af drykk, og sagt er, að mennirnir hafi orðið viðunanlega fullir af þessu góðgæti; en afleiðingarnar sár höfuðverkur og iðraþrautir, sem aftur leiddi af sjer vinnuleysi og sult.

Sagan mun vera sönn, og er góð bending um það, að menn vilja ekki deyja ráðalausir undir þessum kringumstæðum, og svífast einkis þegar svo býður við að horfa.

Ennfremur hefur mjer verið sagt frá því, að hjer sje komið öl, sem ekki þurfi nema hálfsmánaðartíma til þess að komast yfir styrkleikamarkið, sem lögin tiltaka, þó það nái því ekki, þegar það er flutt inn.

Jeg skal svo ekki tala mikið meira að sinni, en leyfi mjer að eins, til skýrara yfirlits, að taka upp aðalatriðin, sem jeg vil biðja menn um að athuga.

1. Að bannlögin rýra stórkostlega tekjur landssjóðs, og að ókleift virðist að fylla í skarðið.

2. Að með frestuninni á afnámi nautnar áfengis er kend ofdrykkja, undirbúningskensla veitt í lögbrotum og peningar settir fastir og þeim þannig kipt út af peningamarkaðinum.

3. Að fyrirsjáanlegt er, að lögin verða og eru brotin og beygð.

4. Að þau ala upp þrjózku hjá landsmönnum og útlendingum og gera oss hlægilega í augum alls þorra þeirra, samfara því að fæla þá burt úr og frá landinu.

5. Að þau eru óeðlilegt haft á frelsi einstaklingsins.

6. Þau verða líkkista allra bindindishreyfinga og

7. að þau draga inn í landið ýmsa aðra óhófsdrykki, óþarfa, óholla, óáreiðanlega að styrkleik og óráðvanda við pyngjur manna.

Þá ætla jeg að minnast á þær mótbárur, sem jeg hef heyrt gegn nýrri atkvæðagreiðslu um bannlögin, og sem jeg skoða þess verðar að teknar sjeu til athugunar, en þær eru þessar:

1. að rjettara sje, að afnema bannlögin umsvifalaust.

2. að betra sje að fresta framkvæmd þeirra að öllu leyti í nokkur ár.

3. að rjettara sje, að lofa lögunum að sýna sig betur áður en þeim sje hreyft og

4. að ef þjóðin greiddi nú atkvæði móti bannlögunum, þá væri það offljótur aftursnúningur, sem yrði henni til vanvirðu.

Helzta mótbáran, er kom fram í kjördæmi mínu gegn nýrri atkvæðagreiðslu um bannlögin, var sú, að hið eina rjetta væri, að nema bannlögin strax úr gildi,en jeg miðlaði þar málum, því jeg áleit hið í eina rjetta, að nema bannlögin úr gildi á sama hátt og þau voru löggilt, með þjóðaratkvæði. Vín er svo mikið í landinu nú, að ósköp þýðingarlítið er að nema bannlögin úr gildi strax, drykkjuskapurinn yrði við það hvorki meiri nje minni; svo mikið hefur verið flutt inn, og því rjettara, að hafa það í tillöguformi, því þó það taki. lengri tíma, þá er sem sagt ekki árangur sjáanlegur af afnáminu í svipinn, auk þess sem atkvæðagreiðsla er kurteisari aðferð gagnvart bannvinum, en að fella lögin úr gildi í hasti, úr því þessi aðferð var viðhöfð til þess að koma þeim á.

Þá er frestun á allri framkvæmd laganna; það væri hreint og beint heimskulegt nú, eins og það var rjettlátt og eðlilegt á síðasta þingi, og þjóðin heldur upp á þann mann, er bar hana fram 1911. Að fresta lögunum nú, er nóg vín er til, en að lögleiða svo bannlögin, er vínþrot væru í landinu, sjá allir að er vitleysa. Jeg þori að fullyrða, að þetta er vitleysa, og dettur mjer þó als ekki í hug, að jeg hafi rjett fyrir mjer í öllum atriðum, og að mótstöðumenn mínir hafi alt af rangt fyrir sjer, en vona líka til hins, að þeir sýni mjer fullkomna sanngirni í móti.

Þriðja ástæðan, er jeg hef heyrt gegn þingsályktunartillögunni, er sú, að ofstutt reynsla sje komin fyrir því, hvernig bannlögin verka, segja það bæði bannmenn og andbanningar margir, og hafa þeir mikið til síns máls, því ekki er hægt að sanna brotin á bannlögunum; þó jeg hins vegar viti, að þau sjeu mjög brotin og geti sannað það, þá vil jeg ekki gera það. Ef mönnum væri það eins ljóst, og vera ætti, hversu reynslan er háskaleg í þessu efni; þá mundu tvær grímur renna á marga um það, hvort eigi væri sjálfsagt, að nema úr gildi bannlögin tafarlaust, því þó þjóðin hafi stigið í eldinn, þá á hún ekki altaf að standa í honum. Bannlagareynslan er dýrkeypt peningalega, siðferðislega og í öllu tilliti, og þó hún hafi margt til síns ágætis, þá hefur þjóðin ekki ráð á þessari dýrkeyptu reynslu. Jeg veit, að við andbanningar verðum þeim mun betur staddir hvað allar röksemdir snertir, sem reynslan verður lengri; við getum þá mikið betur sannað mál vort, og mulið þá, sem á móti oss eru, en á það ber ekki að líta, heldur hitt, hvað þjóðinni er fyrir beztu. Það á að ráða hjer sem annarstaðar.

Fjórða ástæðan á móti þingsályktuninni, er jeg get talið, er það, að þetta væri offljótur aftursnúningur hjá þjóðinni, og hann væri þjóðinni til minkunar.

Mundu þeir þingmenn og utanþingsmenn, er hangið hafa í mjer fyrirfarna daga, til þess að reyna að hafa áhrif á mig, og biðja mig að taka tillöguna aftur, hafa talið mig mann að minni, ef jeg hefði látið að orðum þeirra? Jeg hygg ekki. Það er ætíð kristileg og siðferðisleg skylda, að breyta rangri skoðun. Það er því hvorki til falls nje stórminkunar fyrir þjóðina, þó hún breyti til í þessu efni, heldur bein skylda hennar, er hún sjer glappaskot sitt, og að hnoss það, er átti að nást með bannlögunum, næst ekki. Þessi mótbára hefur því engin áhrif á mig.

En í sambandi við þriðju mótbáruna, ofstuttan reynslutíma, vil jeg taka það fram, að jeg legg ekkert kapp á málið, og hef ekki mælt með því við neinn eða kannað skoðun þeirra svo, að jeg viti, hvernig málið fer hjer í háttv. deild í dag; jeg vil að eins minna á, að „ekki veldur sá er varar“. Það teldi jeg þó bezt og hagkvæmast fyrir þjóðina, að nema bannlögin hið fyrsta úr gildi. Jeg hef í þessu efni að eins unnið mitt hlutverk, án þess að reyna að hafa áhrif á aðra — annað ekki.

Jeg vona, að háttv. mótstöðumenn mínir taki það, er jeg hef sagt til athugunar, með kristilegri hógværð og umburðarlyndi, og er þeir gæta þess, að jeg hef aldrei blandað saman við umræðurnar neinum persónum, og heldur aldrei skammað bannvini, því jeg veit þeim gengur gott eitt til, en eru skammsýnir, þá vona jeg, að þeir geti talað líka hita- og æsingalaust.

Mál þetta er svo þýðingarmikið, að það er þess vert, að það væri sett í nefnd, þó jeg ekki telji þess beinlínis þurfa. Að setja nýja nefnd í málið vil jeg ekki, tel því þann veg rjettari, sem sje að vísa því til nefndar þeirrar, er hefur til meðferðar frv. til laga um árgjald af verzlun og viðskiftum við útlönd (þskj. 55). Vegur þessi er rjettari, vegna þess að mál þetta er einskonar skattamál.

Jeg vil þessvegna leggja til, að er þeir háttv. þingm. hafa talað, er þegar er orðið mál — jeg meina að tala — verði málinu vísað til fyrgreindrar nefndar og þessari einu umr. frestað.