19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

89. mál, styrkur til búnaðarfélaga

Sigurður Stefánsson (flm.) :

Jeg hef gerzt flm. að þessari þingsályktun samkvæmt einróma samþyktri tillögu á síðasta aðalfundi Búnaðarsambands Vesturlands. Það er talsvert örðugt viðfangs, þykist jeg vita, fyrir marga háttv. þingdm., sem brestur kunnugleika Vestanlands, að greiða atkvæði um þetta mál. En jeg vona þó, að skýrsla mín gefi nokkrar upplýsingar í þessu efni.

Það vita allir, þótt ekki hafi beina þekkingu á Vestfjörðum, að þeir eru sá kjálki, sem óþjálastan og hrjóstrugastan jarðveg hefur; svo að miklu örðugra er þar fyrir um alt, sem að jarðyrkju lýtur, en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu.

Mjer er óhætt að fullyrða, að á Suður- og Norðurlandi muni mega sljetta dagsláttuna fyrir 100—120 krónur. En á Vesturlandi mun hún óvíða kosta mikið undir 200—220 krónum. Og það er hrein undantekning, ef hestum verður þar viðkomið. Og stórgrýti er þar svo mikið, að víða verða menn að láta stóreflis björg sitja eftir í sljettunum, sem ekki hafa getað orðið burt flutt, nema með ærnum kostnaði. Jeg hef sjálfur sjeð slík stórgrýtisbjörg í mörgum túnasljettum, auk þess er jarðvegurinn svo seigur, að hann getur ekki orðið myldinn, fyr en eftir mjög langan tíma, jafnvel fleiri ár.

Jeg skal játa, að sumstaðar á Norður- og Austurlandi getur verið um svipaða örðugleika að ræða, en þó held jeg, að samanburðurinn mundi sýna, að það sem er undantekning eystra og nyðra, sje föst regla Vestanlands.

Um engjabætur Vestanlands er ekki að ræða, og þeir menn, er auka vilja grasræktina, verða því eðlilega að leggja stund á, að reyna að auka töðufallið sem mest. Það er þeirra lífsspursmál.

Af þessum örðugleikum, sem jeg hef bent á, leiðir það, að svo fáir menn Vestanlands hafa getað orðið aðnjótandi verðlauna úr Ræktunarsjóðnum, því styrkveitingin er miðuð við dagsverkafjölda; en þau hljóta að verða fá, þar sem jafn ilt er aðstöðu.

Því hef jeg nú farið fram á, að lagt verði þriðjungi minna í dagsverk hvert af túnasljettum og varnarskurðum á svæðinu fyrir vestan Gilsfjörð, en annarsstaðar á landinu, og með þessu álít jeg alla sanngirni mæla. En til samkomulags gekk jeg inn á, að lækka þetta að eins um fjórðung. Jeg vona, að till. fái góðan byr, og að öllum skiljist það ranglæti, sem í því felst, að hafa þennan kjálka útundan lengur.