19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

89. mál, styrkur til búnaðarfélaga

Þórarinn Jónsson:

Jeg er sammála flm. um það, að það er erfitt, að vinna að jarðabótum á Vestfjörðum, og get jeg borið um það af nokkurri reynslu, því jeg hef unnið að jarðabótum þar. En þó að það sje erfitt, verður ekki þar með sagt, að nokkurt rjettlæti fáist milli hjeraða landsins með því, að lækka ílagningu í dagsverkið þar um 1/4, því víðar á landinu hagar svipað til, og er að minni hyggju engu betra á stórum svæðum. Og þó að jafnvel rjettlæti fengist milli hjeraðanna yfirleitt, þá er þess utan svo mikill munur á að vinna jarðabætur í sömu sveitinni, að enginn samjöfnuður er. Þetta hlýtur því alt af að verða.

Hjer kemur líka miklu fleira til greina en jarðvegurinn. Tími sá, sem jarðabæturnar verða unnar á, er mjög mismunandi, hvað lengd og dýrleika snertir. T. d. er lengur hægt að vinna að jarðabótum á Suðurlandi en Norðurlandi, og jafnframt verður einnig ódýrara.

Þar sem tillagan talar um varnarskurði og túnasljettur, þá virðist mjer, að varnarskurðir geti ekki komið til mála, þar sem svo hagar til, að jarðvegurinn er grýttur og lítt vinnandi, því þar mundu girðingar hagkvæmari og sjálfsagðar. Það eru því ekki nema túnasljettur, sem hjer ræðir um, og jeg veit það, í mörgum stöðum eru þær erfiðari en víða annarsstaðar.

Jeg vil því leggja það til, að tillagan verði feld, með því að þessi leið, ef hún yrði opnuð, mundi valda mesta ruglingi, og ekkert bæta samræmið.

En hins vegar er sjálfsagt, að Búnaðarfjelag landsins taki tillit til þess, hvernig er að vinna að jarðabótum víðsvegar á landinu með verðlaunaveitingum og yfir höfuð í öllum greinum, sem kostur er á.