19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

89. mál, styrkur til búnaðarfélaga

Jósef Björnsson:

Jeg skal viðurkenna það, að háttv. andmælendur tillögunnar hafa töluvert til síns máls, er þeir segja, að það mundi valda ruglingi frá því, sem nú er, ef farið yrði að gera slíka breytingu frá hinum almennu reglum, sem nú gilda, en þótt þær dyr yrðu opnaðar, sem til rjettlátra breytinga leiða, þá er jeg ekki mjög hræddur við það, og lít öðruvísi á það en andmælendur.

Jeg lít svo á, að reglur þær, sem nú gilda í þessu efni, sjeu ekki rjettlátar, og geti ekki verið það meðan það gildir, að jafnmikið sje lagt í dagsverk, hvort heldur ilt eða gott sje að vinna jarðabótina, og jeg verð að vera þeirrar skoðunar, að það eigi að ráða meira, hvað rjettlátt er, heldur en þessi ruglingur, sem andmælendur tala um.

Nú er alstaðar um alt land lagt jafnmikið í dagsverkið, en það er vitanlega fullkomlega ranglátt, eins og allir, er talað hafa, hafa viðurkent. Það er algerlega rangt, þegar tveir menn græða út jafnstórt land af túni, og annar hefur tekið grýtta jörð, en hinn hefur tekið grjótlausa móa, að telja þá hafa unnið jafna dagsverkatölu. Þetta nær engri átt, og þetta verður þeim mun athugaverðara, sem hestaaflið verður meira notað, en mannsaflið minna notað. Hestaflið er margfalt ódýrara, og með því má vinna móana, en grýttu jörðina er ekki hægt að vinna nema með mannsafli. Jeg þykist hafa fulla reynslu fyrir mjer í því, að það sje jafnvel enn meiri en helmingsmunur á því, hvað kostnað snertir, að rækta grýtta eða ógrýtta jörð. Og það er hiklaust rjett hjá háttv. flm., að Vestfirðir munu yfirleitt vera svo grýttir, að ekki sje hægt að nota hestafl til muna, nema ef til vill í örfáum sveitum, og eru þeir því ver farnir en önnur hjeruð landsins.

Jeg játa, að það muni vera rjett, sem háttv. 6. kgk. þm. sagði, að Austfirðir muni í þessu efni standa eins að vígi, sumar sveitir þar að minsta kosti, því að í fjörðunum sjálfum er sama jarðmyndun og á Vestfjörðum (Björn Þorláksson: Jeg átti að eins við firðina) og. þess vegna hafa bændur í fjörðunum við sömu örðugleika að stríða og þeir þar vestra.

Jeg er þess vegna ekki hræddur við að opna þá leið, að leggja minna í dagsverkið á einum stað en öðrum. Í allflestum sveitum landsins er misjafnlega dýrt að vinna jarðabætur, eins og háttv. 1. þm. Húnv. tók fram, og jeg verð að álíta, að það sje mikið rjettara, að leggja mismikið en rjettlátlega í dagsverkin, en að telja alt jafnt eins og nú er gert. Það er líka mikið hægara en verið hefur að framkvæma þetta. Nú orðið fara fáir hæfir menn víða um sveitirnar til að mæla og skoða jarðabæturnar, og tel jeg ekkert ; því til fyrirstöðu, að fela þeim líka að meta ; þær til dagsverka. Jeg tel, að með því fengist mikið meira rjettlæti en nú er, og þótt þeim skjáltaðist stundum, þá yrði það ekki svo mikið, að ekki fengist samt meiri sannur jöfnuður, og með þessu fengist þar að auki sannari og betri skýrsla um jarðabætur þær, er unnar hafa verið á jörðunum, en eftir núgildandi reglum.

Af því að jeg er ekki jafn hræddur eins og aðrir háttvirtir þingdm. við ruglinginn, er kæmi, þá get jeg greitt atkvæði með þessari tillögu, og að munurinn sje, það má öllum vera bersýnilegt, hversu geypimikill munur er á því, að rækta stórgrýttu holtin hjer kring um Reykjavík eða seigar mýrar, í samanburði við milda móa, og að ekki sje rjett, að leggja jafnt í dagsverkin, þar sem hægt er að nota plóginn við móana, og á hinum stöðunumr sem ómögulegt er að nota hann og öll vinnan er seinunnin.

Jeg er samdóma háttv. 1. þm. Húnv. um, að þar sem eins er ástatt og á Vestfjörðum, að strax og komið er niður úr grassverðinum er komið niður í stórgrýti, þar eigi ekki að gera varnarskurði, heldur nota aðrar girðingar; þó getur það verið rjett, að setja varnarskurði til að veita nauðsynlegu vatni frá ræktuðu landi. Skal jeg svo ekki að sinni fara fleiri orðum um málið.