19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

89. mál, styrkur til búnaðarfélaga

Stefán Stefánsson:

Jeg kannast við það, að það er full sanngirni, er mælir með því, að taka tillit til þess, við útreikning jarðabótadagsverka, hversu erfitt er, að vinna að jarðabótum á Vestfjörðum, en þingsályktunartillaga sú, er hjer liggur fyrir, bætir eigi úr þeim ójöfnuði, sem þeir verða fyrir með því að leggja eins dagsverk þar vestra eins og annarsstaðar. Ójöfnuðurinn færist að eins til, færist yfir á þá, sem eins er ástatt hjá með jarðabætur, og ættu að fá sömu ívilnun. Jeg sje þess vegna ekki, að með þessu sje nokkuð bætt úr skák, þegar litið er á landið í heild sinni, og verð að taka undir með háttv. 6. kgk. þm., að það er miklu nær, að vísa málinu til stjórnarinnar, sem mundi fá það Búnaðarfjelagi Íslands til athugunar. Tillögur um málið gætu þá legið fyrir næsta alþingi.

Annars álít jeg, að Búnaðarfjelag Íslands geti tekið tillit til ræktunarerfiðleikanna við útbýtingu verðlauna úr Ræktunarsjóði, og með því gæti nokkur jöfnuður á komizt.

Annars er það álitamál, hvort það er rjett, að varið sje árlega miklu fje af landssjóði til þess að styrkja menn og hvetja til þess að rækta ilt land með ærnum kostnaði á útkjálkum landsins, þar sem vitanlegt er, að landið á tugi fermílna af ágætu og auðyrktu landi. Það virðist óneitanlega liggja nær, að leggja meiri rækt við það land, sem borgar sig fljótt og vel. Hver hygginn bóndi ræktar fyrst góða landið sitt, túnin og móana næst því, en lætur stórgrýtisholtin og urðirnar eiga sig. Eins ætti landið eða landsstjórnin að fara að.

Það er als ekki sjálfsagt fyrir bændur að binda sig við það, að sljetta grýtt og lítt ræktanleg tún í kring um bæina, eins og víða er á Vestfjörðum, ef betri blettir eru og hentugri til ræktunar annarsstaðar í landareigninni. (Sigurður Stefánsson: Háttv. þm. veit ekkert, hvernig hjer hagar til.) Ef þm. vill, að jeg nefni einhverja staði til dæmis vestur þar, þar sem nóg land er og vel hæft til ræktunar, skal jeg gera það. T. d. innantil við Ísafjarðardjúp er mikið gróðurlendi; og sömuleiðis í Barðastrandar- og Strandasýslu og það engu minna en víða annarsstaðar gerist á landinu (Sigurður Stefánsson: Strandasýsla er utan við svæðið). Aðeins er það Bæjarhreppur í Strandasýslu, sem ekki er með talinn. En til dæmis í Steingrímsfirði og Kollafirði er alt gróið og grasi vafið, og svo er víðar. Jeg tel það ógjörning, að taka þannig Vestfirði undan, eins og hjer er gert, og ákveða þangað hærri styrk, en sleppa t. d. Austfjörðum, stórum svæðum í Þingeyjarsýslu, Gullbringusýslu o. fl., þar sem víða er eins ástatt og mjög örðugt er að sljetta. Af þessum ástæðum, sem jeg hef hjer tekið fram, get jeg ekki greitt atkvæði með þessari þingsályktunartillögu.