24.08.1912
Efri deild: 36. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

112. mál, einkasala á steinolíu

Jens Pálsson:

Tíminn er orðinn mjög knappur, svo jeg skal fara fljótt yfir sögu.

Aðaltilefnið til steinolíumálsins á þinginu er það, að steinolía hefur nýskeð verið hækkuð í verði um 5 kr. fatið. Þessi hækkun kemur alt í einu og mönnum á óvart ofan á nálega 5 kr. hækkun, sem orðið hefur smátt og smátt á þessari vörutegund síðan steinolíufjelagið D. D. P. A. tók að selja hana hjer á landi.

Eins og kunnugt er, var fyrir 4 árum síðan alment verð á góðri steinolíu 24 kr. pr. fat (Royal Daylight). En einn angi af Standard olíufjelaginu teigði sig hingað frá Danmörku fyrir 4 árum síðan og tók að semja við kaupmenn, og síðan hefur steinolía farið stórum hækkandi, svo að verðið var síðastliðið ár orðið 25—29 kr. fatið, og miklu hærra í smærri kaupum. Menn hjeldu þá, að við það mundi sitja.

En svo hefur nú alt í einu orðið 5 kr. hækkun á hverju olíufati; fullyrt er, að fjelagið hafi samið við alla kaupmenn hringinn í kring um landið og bundið þá við sig, áður en það greiddi þjóðinni þetta óþyrmilega hnefahögg í andlitið.

Þetta fjelag flytur alt að 30,000 föt af olíu hingað til landsins árlega, og er því með þessu lagður c. 150.000 kr ársskattur á landsmenn. En tilfinnanlegast er þó það, að svo og svo mikið af þessari vöru er notað til atvinnureksturs, þar sem mótorbátarnir eru; en mótorbátar eru nú víða um land teknir upp í stað hinna opnu róðrarbáta til fiskiveiða. Er með þessu stofnað til þess kostnaðarauka og tjóns fyrir mótorbátaútgerðina, sem verða hlýtur henni til hnekkis og teflir henni í tvísýnu. — Auðsætt er hvílíkur voði þetta er fyrir mótorbátaaflann yfirleitt, t. d, fyrir hinar fjölmennu, blómlegu og aflasælu bygðir við Ísafjarðardjúp og yfirleitt á Vestfjörðum, og svo fyrir útveg Vestmannaeyinga, er breytt hafa á fáum árum með ærnum kostnaði öllum sínum opnu skipum í mótorbáta.

Ef maður hugsaði sjer nú. að Alþingi hefði fundið upp á 5 kr. álagi á steinolíufatið, t. d. lagt á hvert olíufat 5 kr. aðflutningstoll, þá hefði þjóðin rjettilega getað ályktað, að fulltrúar hennar hefðu ekki verið með fullu viti — vitfirringaráðstöfun hefði slík lagasetning verið álitin, og það með rjettu. En þá spyr jeg: er ekki gild ástæða til að kunna því illa, er útlent stórgróðafjelag vegur að sjávarútvegi vorum svo óþyrmilega, án þess að birta oss nokkrar knýandi ástæður fyrir slíku tilræði, — er ekki fylsta ástæða fyrir löggjafarþingið að gera sitt til þess, að sjávaratvinna fjölmennra hjeraða í landinu þurfi ekki ófyrirsjáanlega lengi að eiga tilveru sína undir ágirndardutlungum alræmds stórgróðafjelags?

Mál þetta hefur verið ítarlega rætt í Nd., og þarf jeg ekki að taka upp þær margföldu ástæður, er færðar hafa verið fyrir því, að eitthvað þurfi að gjöra. En með því að tíminn er þrotinn, og í því skyni að eitthvað verði sem fyrst aðgert af hálfu stjórnar og þings, komum við með tillöguna.

Við fundum sárt til þess, er þetta skall yfir okkur í lok þingtímans, að okkur vantaði öll skjöl og skilríki til að átta okkur á málinu. Við sættum oss þó við það, að á næsta þingi verði nægilegar skýrslur fyrir höndum, svo að þingmenn geti fræðzt um aðalatriði þessa máls og fengið vissu fyrir, að landið vildi koma þessari einokun á aðrar hendur.

Jeg fyrir mitt leyti verð að játa, að um það eitt sannfærðist jeg við að lesa rækilega skýrslur milliþinganefndarinnar, að það væri áreiðanlega arðvænlegt, og eftir nægan undirbúning hættulaust fyrir landið, að taka að sjer einkasölu á steinolíu, og jeg mundi því hiklaust greiða því atkvæði mitt, enda þótt tilkostnaðurinn yrði talsverður í byrjuninni. Því þessi vara er tiltölulega svo ódýr á aðalútflutningsstöðvunum í Norður-Ameríku (New-York), en svo rándýr hjer á landi tiltölulega við það, að það getur ekki verið vafasamt að tilvinnandi sje fyrir landið, og meira en það, að útvega vöruna hingað. og selja hana hjer. Af því getur landssjóður annarsvegar og hjerlendir kaupendur hinsvegar, haft stórfeldan hagnað ef skynsamlega (rationelt) er að öllu farið, bæði um innkaup, flutning, geymslu, og útsölu.

Við treystum því fyllilega, að stjórnin taki mál þetta til rækilegrar meðferðar, og að stjórnarráðið sjái, hversu mikið er hjer í húfi, og að hjer þarf því brýnna aðgerða við. Og í sjálfu sjer er hjer ekki um annað að ræða, en að flytja verzlunina á hagfeldari stað, en hún er nú.

Jeg treysti því, að þingsályktunartillaga þessi fái góðar undirtektir í hinni háttv. deild og nái samþykki hennar.