24.08.1912
Efri deild: 34. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

108. mál, ávarp til konungs

Jens Pálsson (flutnm):

Það er sjálfsagt, að það er hrein og bein kurteisisskylda alþingis, að svara allrahæstum boðskap, er hans hátign konungur vor sendi til alþingis.

Hans hátign konungurinn hefur snert hug vorn og viðkvæma strengi, þar sem hann mintist föður síns, hins lofsæla konungs Friðriks VIII., er ástsælastur hefur orðið á þessu landi allra vorra konunga, og sem vjer allir bárum djúpa og einlæga þegnlega lotningu fyrir, jafnframt því, sem vjer unnum honum af alhug.

En jafnframt þessu andar boðskapur hans hátignar konungsins til vor svo hlýjum konungshug, að það er fyrirhugað ráð hans, að bera hinn sama hlýja velvildarhug til vor, sem hinn lofsæli konungur faðir hans.

Ávarpið tel jeg vel og heppilega samið og í góðum anda, svo ekkert sje við það að athuga.

En auk þess, sem jeg hef tekið fram, þá mælir það með því, að samþ. ávarp þetta, að nú hefur mikill meiri hluti þingsins samþ. að taka sambandsmálið til meðferðar, og falið hæztv. ráðherra, að bera málið fram, og er því sjálfsagt að óska þess, að hans hátign konungurinn vilji hjálpa oss til þess, að þær tilraunir vorar fái góðar undirtektir hjá stjórnmálamönnum Danmerkur, og einkum þar sem við vitum, að orð hans eru mjög mikils metin og hafa mikil og víðtæk áhrif. Og við megum vænta als hins bezta, þar sem sýnt er af boðskap hans hátignar, að hann ber mjög hlýjan velvildarhug til lands og þjóðar, ber til vor velvildarfullan landsföðurlegan konungshuga.