19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

4. mál, breyting á alþingistíma

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Mér stendur fyrir mitt leyti öldungis á sama, hvort þing er haldið á sumri eða vetri, enda er eg nú kominn á þann aldur, að eg býst ekki við að sitja á svo mörgum þingum héðan af. En það er ekki rétt hjá háttv. 1. .þm. Árn. (S. S.), að þetta frv. hafi fallið á síðasta þingi við lítinn orðstír. Eg vil miklu fremur segja að það hafi fallið við góðan orðstír. Það féll af því, að fram komu þrjár tillögur um þingtímann, og gátu þingm. ekki orðið ásáttir um hverja þeirra ætti að velja, en flestallir vildu einmitt fá einhvera annan tíma, en þann sem nú er lögboðinn.

Ein ástæða fyrir þessu frv., sem líka hefir komið fram hjá háttv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) í blaðagrein, er sú, að vetrarþingin eru dýrari, ferðakostnaðurinn meiri. Og svo er þess að gæta, að enn hafa ekki verið haldin nema tvö vetrarþing, og þótt þau ár hafi ekki verið ísár, þá vita menn, að hér er stundum hafís við land, og getur þá farið svo, að ferðalög til þings, og einkanlega frá þingi, verði lítt kleif. Enn er það eitt, að á þessum vetrarþingum hafa verið hrein vandræði að fá sæmilega þingskrifara. Það muna víst fleiri en eg, að bæði 1911, og þó einkum 1909 voru teknir til þess menn, sem alls ekki gátu skrifað. Það gerir víst ekkert til, þótt mint sé t. d. á Jóhannes „makalausa“ — Stefánsson trúi eg hann væri. Það er sagt, að nóg sé húsrúmið nú, síðan söfnin voru flutt burtu, en í staðinn fyrir forngripasafnið er nú komið bókasafn alþingis, sem áður var geymt á hæsta-loftinu, en þar á því lofti er nú alt fult af hitaleiðslupípum. Og þótt menn yrðu áður að basla við að halda nefnda- og flokkafundi hér og hvar út um allan bæ, þá er það sannarlegt neyðarúrræði; hér í húsinu hafa menn bókasafn þingsins við hendina, þar á meðal innlend og útlend lagasöfn, stjórnartíðindi og þingtíðindi. Hér er aðgangur að öllum slíkum hjálparmeðölum, og því hentast að halda alla þá fundi í þessu húsi. Það er verið að tala um að bændum séu sumarþingin svo óbærileg. Eg man þó svo langt, að á síðasta þingi þóttu sumum bændum vetrarþingin ekki betri. Það er, fyrir bændur, eins og aðra, ekki minni vandi að gæta fengins fjár, en að afla þess. Og eitt er víst og það er það, að nær því um þúsund ár hafa bændur þessa lands setið á þingi um sumartímann. Loks sagði hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að sumartíminn væri ótækur fyrir sjómenn. Þeir eru nú víst flestir á sjónum bæði sumar og vetur, en miklu meira þó á veturna. Það er þó ekki nema lítill hluti af þessu landi, þar sem nokkur bátaútgerð er um sumartímann. Varla þarf að búast við mörgum hér á þing af þeim, sem sjálfir sækja sjóinn að staðaldri, miklu fremur útgerðarmönnum, og þeim væri sumarið ólíku hentugra. Þeir ættu langerfiðast með að sækja þing á vetrum, meðan aflabrögðin standa sem hæst. Enn er það, að menn vinna minna á vetrarþingum. Það hefir á stundum reynst erfitt þá, ef eigi ógerningur, að ná mönnum saman á nefndafundi síðdegis, af því að þeir hafa þurft að vera við sjónleika, heimboð eða aðrar kvölskemtanir. Menn mega brosa að þessu, en satt er það nú samt, og sá, sem eg sé brosa breiðast, hefir manna oftast látið sig vanta á nefndarfundi. Eg vil enn benda á hafísinn; hann getur altaf gjört skurk, og eins á það, að almenningi er mikið til sama um það, hvenær alþingi er háð, ef það einugis er háð á þeim tíma, sem þingmönnunum sjálfum er hentast, en hitt er mönnum ekki sama um, hvort það kostar landið 15 þúsundum meira eða minna.