22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

4. mál, breyting á alþingistíma

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg tek til máls aðallega vegna ummæla hv. 1. þm. Rang. (E. J.) um embættismannastétt landsins. Hann bar á hana óhæfilegar sakir, að hún kæmi fram á þingi með eigingirni og reyndi að pota sér og sínum hagsmunum fram. Eg verð að átelja þessi orð. Eg hefi setið á flestum þingum síðan 1893, og er því kunnugri framkomu embættismanna á þingi heldur en háttv. þingm., og eg get fullyrt það, að þetta verður eigi með nokkrum rétti borið embættismannastétt landsins á brýn. Að minsta kosti gefur þetta frv. eigi tilefni til slíkra ummæla. Embættismenn áttu engan þátt í þvi, að það kom fram. Fyrverandi stjórn lagði málið fyrir síðasta þing, að vísu nokkuð öðruvísi, en frv. nú er, og varð það þá auðljóst, að hún áleit, að það væri almenn ósk, að lögunum frá 1905 yrði breytt. Hún lagði til, að þing kæmi saman 15. maí, en sú tillaga fékk litinn byr í þinginu. Eg hygg að flestir hafi þá verið meðmæltir 1. júlí sem samkomudegi þingsins, en vegna þess, hve óhönduglega var með málið farið á þinginu, þá ónýttist það, án þess að vilji meirihluta þingsins gæti komið fram. Eg þóttist hafa stuðning í því, sem kom fram þá, er eg lagði fram þetta frv. Sömuleiðis hefi eg átt tal við menn víðsvegar um alt land og hefi eg heyrt á þeim og séð af því, sem skrifað hefir verið í blöð, að það er almennur vilji, að þing sé aftur flutt fram á sumar. Það er líka ofurskiljanlegt, því að öllum þorra manna er sumarið heppilegasti þingtíminn. Þá er auðveldast að komast til og frá Reykjavík; það er hentugasti vinnutíminn fyrir þingmenn og kostnaðarminsti þingtíminn fyrir landið. Eg er eigi mótfallinn 17. júní sem samkomudegi þingsins, en álít það litlu skifta, hvort þingið byrjar þeim 10—14 dögum fyr eða eigi. Aftur á móti er eg algjörlega mótfallinn 1. nóv., því að eg býst eigi við, að þingmenn muni fúsir á, að vera hér um jólaleytið; flestir vilja þá vera heima. En eins og nú er komið, geta menn eigi vænst þess, að þingi verði lokið svo tímanlega, að þingmenn nái heim fyrir jól, ef það á að hefjast 1. nóvbr. Mér virðist ótiltækilegt að hafa þingið snemma um vor eða haust og er þá ekki um annað að tala en vetur eða sumar, og eg hefi fært rök áð því að sumarið er hentugra. Einnig er nokkuð upp úr því leggjandi, að síðan alþingi var stofnað 930, hefir það ávalt komið saman um þetta leyti, um mánaðarmótin júní—júlí. Áður sátu á þingi nálega eingöngu bændur, því að þar sem sýslumenn sátu á þingi, þá var rétt að skoða þá sem vora stærstu bændur. Sama er að segja um biskupana, er einnig áttu þingsetu. Skyldu nú þessir menn ekki hafa breytt þingsamkomudegi, ef þeim hefði þótt það nauðsynlegt vegna bændastéttarinnar? Mér sýnist sagan sýna glögglega, hvað er hentugast í þessu máli. Árið 1905 var fyrst gerð breyting í þessu efni, þingtíminn færður til vetrarins, en hún hefir ekki reynst vel, og er því sjálfsagt að víkja frá henni aftur, og færa málið í gamla horfið.