22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

4. mál, breyting á alþingistíma

Tryggvi Bjarnason:

Mig furðar stórlega á því, hvern stuðning þetta frv. virðist hafa hér í deildinni, ekki veigameiri ástæður en enn hafa komið fram því til stuðnings. Af rökum til stuðnings þykja mér veigamest þau, að ekki sé viðunandi rúm fyrir þing og háskóla í senn. Þó þykir mér líklegt, að pláz væri nægilegt.

Á það var minst við 1. umr., að húsið sé svo hljóðbært, að kensla truflist við. Lítil reynsla hygg eg að sé um þetta, og ólíklegt þykir mér, að húsið sé svo gjört, að hljóð berist til muna. Og þótt svo væri, mætti vafalaust ráða bót þar á. Enn hefir það verið talið frumv. til stuðnings, að ferðalög væri ódýrari á sumrum; hafa fleiri en einn háttv. þm. á það vikið. En munurinn á ferðakostnaði mun reynast sáralítill, hvort sem um er að ræða ferðalag á sumar-, haustferða vetrartíma. Í flestum tilfellum geta þingmenn farið sjóleið, hvort heldur þing byrjar 1. nóv.br. eða 15. febr., úr öllum kjördæmum landsins; það kann að koma fyrir svo sem einu sinni eða tvisvar á 30—40 árum, að ferðalag tálmist á sjó um þenna tíma árs, í febrúar, og þá ekki nema á litlu svæði. Það væri þá einkum þingm. úr Strandasýslu og Húnavatnssýslu, sem ekki kæmust sjóleiðis.

Skipagöngur eru nú orðnar svo greiðar milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, að þingm. af Vesturlandi mundu komast hindrunarlaust. Einnig úr Skagafirði og alla leiða austur og suður um land mundu þingm. komast sjóleiðis. Þingm. Strandamanna yrði þá að taka skip á Ísafirði, en þingm. Húnv. yrðu að fara landleiðina til Borgarness, eða taka skip á Sauðárkrók. Eg skal ekki neita, að ferðakostnaður sé nokkru meiri, en ekki nema litlu einu.

Viðvíkjandi br.till. hv. þm. Sfjk. (V. G.), skal eg taka það fram, að á hana get eg enn síður fallist, en frv. það sem fyrir liggur. Sá hv. þm. sagði að 17. júní væri vorverkum lokið, en það er ekki rétt.

Eg álit, að sumarþing eða vorþing yrði til þess að bægja bændum frá þingsetu, einkanlega á vorin; þingseta á þeim tíma er þeim peningalegur skaði, ef ekki yrðu hækkaðir dagpeningar þeirra, en hækkun dagpeninga mundi síður en ekki leiða til sparnaðar, og væri þá líka lítið gerandi úr þeim meðmælum með frv., sem fram hafa komið frá hv. þm. um það, að sparnað mundi leiða af sumarþingum. Engin veruleg reynsla er komin fyrir því, að óhentugt sé að hafa þing á vetrum, og engan háska álít eg að prófa, hvort þing og háskóli geti ekki farið saman í sama húsi.

Eg tel frv. ótímabært og sé ekki annað betra en að halda áfram þinghaldi á þeim tíma, sem nú er ákveðinn að lögum, en þar næst tel eg nóvbr. og desbr. bezt fallinn til þinghalds.