22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

4. mál, breyting á alþingistíma

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg stend upp til þess að gera fáeinar sundurlausar athugasemdir um sumt, það er fram hefir komið í umræðunum um þetta mál.

Einn háttv. þm. hélt því fram, að vetrarferðir mundu tæplega hindrast nema svo sem einu sinni eða svo á 30 —40 árum. Eg hugsa, að flestir hér muni það, að á árunum 1880—1890 teptust skipagöngur oftar en einu sinni víða um land um langa tíma að vetrinum til, hafísa vegna. Hitt er satt, að slíkt mundi ekki henda á haustum.

Sama háttv. þm. þótti ótrúlegt, að húsið væri svo hljóðbært, að ilt væri að halda uppi kenslu hér niðri á sama tíma sem þing er háð. Því verður að eins svarað á einn veg: H. h. þm. þarf ekki annað en ganga niður í kenslustofurnar og hluta til hverju fram vindur nú. Reynslan er ólygnust.

H. h. þm. Sfjk. (V. G.) leggur til, að byrja þing 17. júní. En hann hefir ekki gætt þess, að oft hefir mest kveðið að hafísnum á vorin, fram í júní og jafnvel fram að Jónsmessu. Á vorum svona snemma eru og landferðir einatt mjög örðugar og geta menn átt á hættu að skemma eða missa hesta sína í þeim ferðum. Það hefir jafnvel komið fyrir þingmenn á ferðum til alþingis, þó að byrjað hafi ekki fyr en 1. júlí.

Sá annmarki er á því að halda þing á haustum, að kostnaður við þinghaldið mundi mjög aukast við jólaleyfið, því að sjálfsagt mundi verða hlé á þingstörfum um þann tíma. Þar við bætist, að ekki mundi nokkur von um að ljúka við fjárlögin fyr en eftir nýár, og eru þá engin fjárlög fyrir hendi til að fara eftir á þeim tíma eftir nýjárið, sem fer í að afgreiða þau. Enn er ótalinn sá aukakostnaður, sem leiða mundi af því, að nauðsyn mundi vera að síma öll fjárlögin in extenso til staðfestingar.

H. h. 1. þm. Rang. (E. J.) sagði, að bændum mundi fækka á þingi, ef þing væri haldið á sumrum. Nú veit h. h. þm., að þing hefir jafnan verið haldið á sumrum alt til 1909, og hefir þó engin rödd heyrzt í þessa átt fyr. H. h. þm. vill ef til vill halda því fram, að fleiri bændur hafi setið á þingi 1909 og 1911, þau þingin, sem ein hafa verið vetrarþing hér á landi frá því að alþingi var í öndverðu stofnsett. Ef hann heldur því fram, segir reynslan nei. Hér hefir það sýnt sig, að bændur hafa einmitt verið færri á þingi á vetrum en á sumrum. Ástæða h. h. þm. er því ekki til bóta skoðun þeirri, er hann heldur fram, heldur ástæða á móti.

Eg vildi óska, að þeir háttv. þm. sem br.till. hafa komið fram með við frv., vildu taka þær aftur, því að margar tillögur geta leitt til þess, að felt verði yfir höfuð að flytja þingtímann.