22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

4. mál, breyting á alþingistíma

Eggert Pálsson:

Þótt frv , það sem hér liggur fyrir, sé ekki stórt, að fyrirferðinni til, hafa þó um það orðið talsverðar umræður, og er það eðlilegt þegar þess er gætt, að það hefir allyfirgripsmikla þýðingu. En þó að nú frv. hafi þannig töluverða þýðingu, þá verð eg þó að játa, að eg er ekki ákveðinn í því, hverri stefnu eg get helzt fylgt í málinu. Eg kannast við það, að ef eg mætti kjósa, þá vildi eg helzt, með tilliti til eigin hagsmuna og annara, sem líkt stendur á fyrir, að þingið væri haldið á vetrum eins og nú er lögskipað. Hins vegar kannast eg við það, að atvik eru nú breytt frá því, sem áður var þegar sá þingtími sem nú gildir var lögskipaður, þar sem háskóli er nú kominn á laggirnar og hefir aðalstöð sína hér í þinghúsinu. Mér dylst það ekki, að örðugt mundi veita að hafa kenslu hér um samkomutíma þingsins, og sé þá jafnframt, að örðugt mundi verða að standa á móti þeim kröfum, er eðlilega mundu koma fram um það, að komið væri upp sérstöku húsi yfir háskólann. Til þess virðist mér mikið tillit takandi, sérstaklega þegar litið er til þess, hversu fjárhag landsjóðs er komið. -Slíkt hús mundi sjálfsagt ekki kosta lítið fé, því að gera má ráð fyrir því, að ekki verði um neinn ómyndarkofa að ræða, heldur hús er kosta mundi 100—200 þús. kr. Af þessari ástæðu get eg því ekki fallist á, að heppilegt sé að gera þá breytingu á samkomutíma þingsins, að það byrji 1. nóv., því að sá tími mundi koma jafnt í bága við háskólahaldið sem hinn lögboðni tími sem nú er, 15. febr. Þar við bætist ennfremur, að þingið yrði með þeim hætti aðgerðarlaust um hátíðirnar, jól og nýjár. Mundi slíkt auka kostnað þinghaldsins að óþörfu, auk þess sem þingmenn mundu helzt, hverrar stéttar sem eru, kjósa að vera heima hjá sér um hátíðirnar. Af þessu tel eg frágangssök að hallast að þeirri tillögu að heyja þingið frá 1. nóvbr.

Ef því farið væri að breyta til um þingtímann á annað borð, þá liggur það, að mér virðist, í augum uppi að samkomutími þingsins yrði að flytjast til sumarsins, svo að háskólahald og þinghald þurfi ekki á neinn hátt að rekast á, og sama húsið verði notað til hvorstveggja um svo að segja ófyrirsjáanlega langan tíma. En yrði sú breyting gerð, að flytja þinghaldið fram á sumarið, þá feldi eg mig bezt við það, að samkomudagur þingsins yrði 17. júní, en ekki 1. júlí. Eins og h. h. þm. Sfjk. (V. G.) ,tók fram, hefir sá dagur mikla þýðingu í sögulegu tilliti, þar sem bæði í fornöld var sá dagur til þess valinn og í annan stað er sá dagur fæðingardagur Jóns Sigurðssonar. Það hefir verið haft á móti þessum tíma, að ófært væri þá og jafnvel ómögulegt að ferðast vegna vorharðinda og grasleysis. Eg kannast við, að þetta hefir við nokkur rök að .styðjast ef um landferðir er að ræða. En þingmenn fæstir eru svo bundnir við landferðir, að þeir geti ekki á annan hátt komist til þings. Þingmenn vestan, norðan og austan gætu jafnan, sem mest, farið á skipum og þannig verið lausir við alla hindrun, eða því sem næst, af völdum vorharðinda og grasleysis. Að vísu veit eg, að hafísinn getur hamlað skipagöngum hér við land, en hans er ekki fremur von á þessum tíma en öðrum; hann getur vitanlega hamlað skipagöngum nálega á hverjum tíma árs sem er, og þess vegna engan veginn víst, að horfinn sé um mánaðamótin júní og júlí, ef hann á annað borð er til fyrirstöðu um miðjan júní, eins og dæmin svo þráfaldlega hafa sýnt. Svo að frá því sjónarmiði er engin ástæða til að halda frekar fram 1. júlí en 17. júní.

Eg skal svo ekki orðlengja um þetta mál. En út af ummælum þeirra hv. þm., sem talað hafa um það, hver tími væri bændum hentastur til þingsetu, skal eg geta þess, að þingseta frá 15. febr. og áfram, er að mínu áliti lang bagaminsti tíminn fyrir bændur. Eg hygg, að flestir sveitamenn sé á einu máli um það, að sumartíminn sé sá lang dýrmætasti tími ársins fyrir þá sem um er að ræða, og á hina hliðina er það vitanlegt, að sumarið er skemtilegasti tími ársins til sveita og afarmikill kross fyrir hvern og einn að verja þeim tíma hér, en halda svo upp í sveitina þegar deyfð og drungi vetrarins færist þar yfir. Þótt eg þannig frá mínu eigin sjónarmiði eða hagsmunum kysi helzt vetrartímann til þinghalds, svo sem nú er lögákveðið, og álíti þann tíma einnig heppilegastan fyrir sveitabændur til að sitja á þingi, þá vegur á hinn bóginn sú ástæðan, að nauðsyn verður á nýju húsi til handa háskólanum, svo mikið, að þegar til kastanna kemur og eg met allar ástæður með og móti, þá finst mér sem þær muni vega nokkurn veginn salt, svo að eg treysti mér vart til að greiða atkvæði um málið. Og þess vegna mun láta málið afskiftalaust með atkvæði mínu, nema eg verði til annars neyddur.