22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

4. mál, breyting á alþingistíma

Lárus H. Bjarnason:

Það ,er mikið rétt hjá hv. mótstöðumönnum þessa frv., að margir héldu því fram á þinginu 1911, þegar deilt var um stofnun Háskóla Íslands, að notkun alþingis á húsinu væri því ekki til fyrirstöðu, að háskólinn gæti um leið notið neðri herbergjanna. Fjárlaganefnd efri deildar 1911 gekk um alt húsið og skoðaði það þá og komst að þeirri niðurstöðu að alþingi og háskóli gætu notað húsið samtímis, enda vissum vér þá ekki, hvernig stjórnarráðið mundi ráðstafa neðri herbergjunum. En nú er það komið á daginn, að stjórnarráðið hefir gert alt aðrar ráðstafanir en vér bjuggumst við og það jafnvel ofan í tillögur háskólaráðsins. Vér ætluðumst til þess, að háskólinn fengi alt húsrúmið niðri, en alþingi fengi, auk fyrsta lofts, herbergin, sem forngripasafnið var áður geymt í, til nefndar- eða flokksfundahalds. En ráðstafanir stjórnarinnar hafa nú orðið þær, að 3 af herbergjunum niðri hafa verið fengin dyraverði til íbúðar og forngripasafnsherbergin hafa verið tekin til notkunar og á alþingi þá ekki eftir auk deildarsalanna, nema fá og léleg herbergi. Líka skal eg geta þess, að forstöðunefnd læknadeildarinnar hefir aftekið með öllu að flytja hana í alþingishúsið, jafnvel þótt vér hefðum fengið öll herbergi dyravarðar til umráða. Læknadeildin verður því fyrst um sinn að haldast við í gamla kumbaldanum uppi í Þingholtsstræti. En að því hlýtur þó að reka, að hún verði flutt í háskólabygginguna — bæði vegna þess, að það er lögulegra og mundi einnig spara landssjóði þær 1000 kr., sem borga verður nú í húsaleigu þarna uppfrá.

En jafnvel þótt, húsrúmsins vegna, væri hægt að samrýma þessar tvær stofnanir samtímis, þá er eg í engum vafa um það, að alþingishald á sama tíma og háskólinn starfar, mundi valda mikilli truflun við námið. Því er nú svo farið — hvort sem það er heppilegt eða ekki — að allmargir stúdentar fylgjast með í pólitík og hafa áhuga á landsmálum og eg er hræddur um, að þeir kysu stundum heldur að bregða sér upp á loftið og hlýða á ræður þingmanna, heldur en að hlusta á okkur kennarana, þótt skemtilegir séum. En auk þessa, þá er svo hljóðbært hér í húsinu, að eg er þess fullviss, að það eitt út af fyrir sig muni valda talsverðri truflun. Margir af nemendum háskólans hafa líka atvinnu við þingskriftir og það er ekki láandi fátækum stúdentum, þótt þeir noti sér það, þar sem styrkurinn, sem þeim er veittur, er ekki hærri en hann er.

En þeir sem endilega vilja halda þeim þingtíma, sem nú er, ættu að hugsa til afleiðingarinnar af því. Afleiðingin af því yrði óhjákvæmilega sú, að byggja yrði stórt hús yfir háskólann. Það væri auðvitað mjög æskilegt, en eg býst við, einsog fjármálum vorum nú er farið, að hver gætinn þingmaður mundi hugsa sig tvisvar um, áður en hann greiddi atkvæði sitt með því að leggja út í þann kostnað fyr landssjóð.

Þá er það vafalaust, að vetrarþing eru töluvert dýrari en sumarþing, þótt eg ef til vill hafi áætlað það nokkuð hátt, að kostnaðarmunurinn mundi nema 15 þús. kr. Áreiðanlegt er, að það hleypur á mörgum þúsundum. Gaseyðslan yrði mikið meiri og upphitun nokkru dýrari, því að hitatækjunum hefir verið svo klaufalega komið fyrir, að ómögulegt er að hita svo eina bygð hússins, að hinar hitni ekki að nokkru leyti um leið. Ferðakostnaður þingmanna mundi sömuleiðis nema miklu meira á vetrum en sumrum.

Það var rétt athugað hjá hv. þm. Sfjk. (V. G.), að heppilegt væri að háskólinn endaði nokkru fyr en nú er, t. d. um miðjan Júní og byrjaði þá í miðjum september. Það hefir reynst svo, að þegar fer að hlýna í veðrinu og dagarnir að lengjast, verða nemendur að vonum stopulli við námið. En br.till. hv. þm. rekur sig á háskólalögin, sem hafa lögfest háskólaráðið frá 1. okt. til 30. júní. Vitaskuld má breyta háskólalögunum í þessu efni og ætti jafnvel að gera það, hvað sem þingtímanum líður. Annars hygg eg að 17. júní sé bændum ekki mjög heppilegur,að minsta kosti ekki bændum,sem sækja hingað landveg, langt að; þeir yrðu að leggja af stað frá heimilum sínum áður en voryrkju væri lokið.

Viðvíkjandi till. hv. 1. þm. Rang. (E. J.) um að færa þingtímann til 1. nóv., þá skal eg benda honum á, að hvert fjárhagstímabil byrjar 1. janúar og væri því hætt við að fjárlögin yrðu ekki afgreidd og staðfest fyrir þann tíma. Auk þess yrðu þeir, sem landveg þyrftu að sækja þingið að legga svo snemma af stað frá heimilum sínum, að haustönnum væri ekki lokið, því að í októbermánuði stendur sláturtíðin og fjársala víðast yfir. Þá yrði það og ekki lítill kostnaður fyrir landsjóð að gjalda öllum þingmönnum dagpeninga í jólaleyfinu, því að eg býst við, að flestir vildu hafa eitthvað jólaleyfi, og yrði það þá sennilega frá Þorláksmessu fram undir þrettánda. Einnig býst eg við að flestir þingmenn, sem búsettir væru utan Reykjavíkur, kynnu því illa að geta ekki verið á heimilum sínum á jólunum. Eg verð því af ofangreindum ástæðum að verða móti báðum þeim br.till. við frv., sem komið hafa fram.

Eg ætla ekki að fjölyrða út af hnútum hv. þm. Rang. (E. J.) í garð embættismannanna, ætla ekki að segja alt það, sem hann í raun og veru verðskuldar, vegna þess að hann er góður kunningi minn, enda „dauður“. Vil að eins minna hann á, að það er hvorki rétt né skynsamt að meta menn eftir stéttum, enda ætti bændum að vera kærara að heyra lof um sig af annara munni en stéttarbræðra sinna. Það er mikið rétt, að til eru margir góðir menn í bændastétt landsins, en eg vona líka að hv. þm. neiti því ekki, að til séu menn, sem í engu standi þeim að baki, í öðrum stéttum landsins. Yfirleitt er ekki rétt að vera að tala um sérstakar stéttir manna. Ísland er ekki stéttaland. Margir af svokölluðum embættismönnum eru jafnframt bændur, t. d. flestir prestar, margir læknar og nokkrir sýslumenn. Og hvað er frændalið flestra íslenzkra embættismanna annað en bændur. Allur fjöldi embættismanna eru bændasynir — og þessir menn, sem altaf eru með hnútukast í garð embættismanna, eru þá um leið að skamma sitt eigið frændlið, eru að gera í sitt eigið hreiður.

Eg verð því, eins og eg þegar hefi tekið fram, að greiða atkv. með stjfrv. óbreyttu.