22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

4. mál, breyting á alþingistíma

Pétur Jónsson:

Það hefir verið skírskotað til orða minna sem bónda við 1. umræðu um þetta mál. Og eg verð að lýsa yfir því nú eins og þá, að eftir atvikum álít eg heppilegast að færa þingtímann til 1. júlí. Ekki af því, að eg geti ekki skilið, að bændur mæli frekar með 1. nóv., heldur af hinu, að eg get litið á fleiri kringumstæður en okkar einna. En eins og eg áður tók fram, álít eg heppilegastan tíma bændum annaðhvort miðsumarið eða miðhluta vetrar. Vetrartíminn, einkum nóv.br. til febr., er þeim ef til vill heppilegri. Og sumartíminn er dýrari, það er satt, en úr því má bæta með því að hækka daglaun þingmanna svo að skaðlaust sé. Haust og vor er eftir minni reynslu sá tími, sem bændum er ómetanlegur til bústarfa og umsjónar, eins og eg tók fram við 1. umr. Ef nú velja skal á milli miðsumars og miðhluta vetrar, þá verður að taka tillit til fleiri en bænda, og því get eg hallast að miðsumartímanum, að sá tími útilokar alls ekki bændur frá þingsetu, en vetrartíminn útilokar sumar stéttir algerlega, þar á meðal kennarastéttina, sem ekki er heppilegt að útiloka að öllu leyti. En — sé þingið sumartímann, er það, eins og eg bent bent á, nauðsynlegt að það standi ekki yfir lengur en 8—9 vikur, enda á sá þingtími vel að hrökkva, ef málin eru sæmilega undir þingið búin. En það eiga þau og þurfa að vera hvort sem er. Það verður að leggja niður þann sið, að menn sitji á þingi við að smíða lög hópum saman. Lagasmíðin á að fara fram mest utan þings, en þingið að dæma um og samþykkja lögin.

En það verð eg að taka undir með hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að eg álít það enga ástæðu til færslu þingtímans til 1. júlí, að þing hefir um margar aldir verið haldið á þeim tíma. Þess ber að gæta, að áður var þingið örstutt, og því var sumartíminn heppilegastur. Eins og þá stóð a. m. k., gátu ferðir ekki á öðrum tíma borgað sig til svo skammrar þingsetu. Það mun hafa verið ein af aðalástæðunum til að flytja þingtímann til vetrarins, að menn hafa haldið, að þingið mundi þá geta gengið með meiri ró og næði að störfum sínum. En við höfum nú haft tvö vetrarþing og reynslan orðið þveröfug við það, sem menn bjuggust við. Og það meðal annars hefir snúið hug mínum þannig, að eg óska helzt eftir, að þingtíminn sé aftur fluttur í samt lag. Vildi eg því leggja til, að stj.frv. yrði samþykt óbreytt.