22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

4. mál, breyting á alþingistíma

Guðlaugur Guðmundsson:

Það er skemtilegt verk, eða hitt þó heldur, að eiga að moka þennan flór eftir hv. 1. þm. Árn. (S. S.). (Sigurður Sigurðsson: Er þm. ekki vanur að moka flór?) Eg hefi oft orðið að fást við óþrifleg mál og saurugar orðaslettur, svo sem nú ræðu þm. — Það kalla eg að „moka flór“. Það er altaf óhyggilegt að kasta fram stóryrðum og órökstuddum aðdróttunum á jafn lausu lofti og hér er gert, sérstaklega af hálfu 1. þm. Rang. (E. J.) Hann dróttaði því að embættismönnum, að þeir hafi sýnt eigingirni og hlutdrægni á þingi, en áleit öðru máli væn að gegna um bændur. — 1. þm. Árn. (S. S.) hermdi þessi orð rangt.

Eg hefi nú setið á 10 þingum og hefi aldrei orðið þess var, að embættismenn hafi gert sig seka í eigingirni, sízt fremur en þeir bændur, er átt hafa sæti á sömu þingum. (Sigurður Sigurðsson: Bezt að tala hér fæst um). Það er það sjálfsagt fyrir 1. þm. Árn. (S. S.), því hér í þessu máli kemur fram hið fornmælta, að frakkast svara menn öðrum um eigin syndir. Eg vil segja hér frá litlu atviki, sem fyrir mig kom fyrir nokkrum árum. Eg var farþegi á gufuskipi hér með ströndum fram. Þar var meðal annars flesk á borðum. Maður nokkur hérlendur meðal farþeganna, sem ekki þekti flesk, en át það þó með beztu lyst, talaði, meðan hann var að borða það, mikið um hvílíkur ósómi það væri, að eta flesk, og fór um það mörgum hörðum orðum. Það væru voðaleg svín, sem gætu fengið af sér að eta svín, sagði hann. Líkt fer þessum tveim þingm., sem bregða öðrum um eigingirni, en viðurkenna þó, að þeir sjálfir andmæli stjórnarfrv. vegna eigin hagsmuna, og taka ekki tillit til þess, að vetrarþing baka landssjóði aukin útgjöld um 10— 15 þús. kr. (Sigurður Sigurðsson: Það á að hækka þingpeningana). Engin till. liggur fyrir í þá átt, og engin ástæða er til að hækka þingkaup, þó að þing sé háð að sumarlagi.

Gagnvart ungum þm. vil eg taka það fram, að þeim er betra að vera við því búnir að geta sýnt, að þeir hafi lagt eitthvað í sölurnar fyrir föðurlandið, áður en þeir fara að bregða öðrum sem lengur hafaíi bardaganum staðið, um eigingirni. Slíkt atferli kámar þá sjálfa mest, sletturnar falla á þá, en ekki hina, sem þeir beina þeim til.

Meðan eg gegni því embætti, sem eg nú hefi á hendi, er enginn tími mér óhentari til þingsetu heldur en en einmitt þessi tími, þegar síldveiðin stendur yfir fyrir Norðurlandi. En samt mun eg óhikað greiða stj.frv, atkv., af því að sumartíminn er heppilegastur tími fyrir landið í heild sinni.

Bændur verða að sætta sig við að fá menn í sinn stað til að gegna störfum fyrir sig heima fyrir meðan á þingi stendur. Það verða embættismenn að gera og er bændum engin vorkunn á því. Til þess er þeim líka goldið kaup. Eg vona, að um þingmensku sé ekki sótt í gróðaskyni, eins og sumir virðast þó nú orðið vera farnir að ímynda sér. Sá skoðunarháttur lýsir því, að af þeirra hálfu er svo hugsa, er hér barizt fyrir eigin hagsmuna sakir gegn því er landinu í heild er hollast.

Sú reynsla, sem fengin er af vetrarþingunum, er heldur ekki svo glæsileg, að ástæða sé til að halda þeim áfram. Það má óhætt segja, að þessi tvö seinustu þing hafa verið afkastaminstu þing síðan 1875. Þingið 1909 var að vísu vel undirbúið, en árangurinn af störfum þess langtum minni en við mátti búast. Þingið 1911 var miður undirbúið, enda stendur það langt fyrir neðan öll önnur þing, sem háð hafa verið hér á landi.

Eg hefi oft verið að hugsa um, hvað valdi því að þessi tvö síðustu þing hafa orðið svo afkastalítil. Virðist mér nokkru um valda rifrildið um ráðherrastöðuna, sem mjög hefir sundrað kröftunum og dregið úr starfi þingsins. En það er, að eg held, myrkrið eða skammdegið, sem mestu veldur, því menn eru vanalega dugminni til framkvæmda í myrkri heldur en þegar bjart er. (Sigurður Sigurðsson: Þm. er skáld). Skáld! Væri mér borið slíkt á brýn af hálfu hins hv. þm. annarsstaðar en hér í þingsalnum, skyldi eg þegar höfða mál gegn honum fyrir illmælið.

Myrkrið eykur einnig úlfúð og ósamlyndi og spillir þannig samvinnu þingsins. Menn eru margir svo gerðir hér í þessu landi, að þeir eru geðstirðari og úfnari í skapi í skammdeginu heldur en þegar sólin skín, og hræddur er eg um, að þessi myrkraþing blessist aldrei hér á landi; hætt við að störf þeirra verði hálfgerð „myrkraverk“, svo sem raun ber vitni um, hvað þessi tvö vetrarþing snertir. Eg get því með engu móti hallast að þeim breytingartillögum, sem hér liggja fyrir.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en vona að háttv. þingdeild samþykki stjórnarfrv. eins og það liggur fyrir.