09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Skúli Thoroddsen:

Af því eg er riðinn við brt. við þetta frv., vil eg leyfa mér að fara um það nokkrum orðum.

Yfir höfuð er eg frv. þessu hlyntur, enda vakti eg máls á því, þegar á þinginu 1907, að rétt væri að semja lög um flokkun símanna, til þess að fá gleggra yfirlit yfir þá, í líkingu við það, sem gert er í vegalögunum. Enn fremur vakti eg þá og máls á því, að heppilegra væri, að taka lán til þess að leggja símana um landið, en að taka féð af árlegum tekjum landssjóðs. Eg benti og á það, bæði þá, og oft síðan, bæði á þingi, og í blaði mínu, hve illa mér félli misréttið, sem beitt hefir verið, að því er til símalagninganna kemur, þar sem sum héruð, þ. e. þau, sem aðallandlínan milli Seyðisfjarðar, Reykjavíkur, Akureyrar og Ísafjarðar liggur um, hafa fengið símann sér alveg að kostnaðarlausu, en öðrum gert að skyldu, að leggja fram ákveðinn hluta af kostnaðinum. Þetta er ranglátt, og það því fremur, sem þau héruð, sem afskektari eru og fámennari, ættu þó sízt að gjalda þess. — Skyldan þess vegna einmitt enn ríkari, að láta þau þá þess síður verða öðrum harðara úti, — ætti þvert á móti fremur að vera vílnað í, en hinum, sem fjölmennari eru og betur í sveit komin.

Stefna þingsins, að gera það, sem er þveröfugt við það, sem siðferðislega rétt og skylt er, hefir þá og vakið óánægju víða um land, og þótt einstöku héruð hafi viljað vinna það til, að bjóða fram nokkurt fé, gegn landssjóðsframlaginu til símalagningarinnar, af því að þeim var það bráðnauðsynlegt vegna atvinnuveganna, einkum fiskveiðanna, að geta fengið símann sem fyrst, þá má ekkert á slíku byggja, enda hafa þinginu nú að þessu sinni borist umsóknir um eftirgjöf slíkra fjárframlaga, bæði úr Vestur-Ísafjarðar og Barðarstandarsýslu.

Hv. framsögumaður (J. M.) sagði út af br.till. minni, sem fer í þá átt, að ætlast ei til tillags frá héruðunum, að ef unna ætti öllum jafnréttis, þá yrði og að endurgreiða úr landssjóði alt það fé, sem héruðin hafa þegar lagt fram að sínum hluta til símanna. Það tel eg sjálfsagt, því að finni maður, að einhver hefir verið beittur ójöfnuði, þá á að bæta honum hann, enda býst eg og við því, að þinginu muni berast öðru hvoru umsóknir um slíkar endurgreiðslur. Eina slíka ræddum vér hér í deildinni nýskeð.

Hitt atriðið, sem hann vék að, hve símarnir borgi sig vel, var gamla sagan, sem oft hefir heyrst, og hefi eg í því skyni bent á það áður, að menn gleyma því þá, að reikna vextina af stofnkostnaðinum, og að telja það, sem borgað er „norræna ritsímafélaginu mikla“, svo að skýrslurnar verða þá í meira lagi villandi. — Mönnum er talin trú um, að símalagningar sé stórgróðafyrirtæki, og hefir það þau áhrif, að landsmenn verða miklu heimtufrekari, en ella, og getur því leitt til ills, og hefir óefað gert það. — Eins og háttv. framsm. (J. M.) veit, þá er föst regla hvers manns, er fé leggur í hitt eða þetta fyrirtækið, að telja og til útgjaldanna árlega vexti af því fé, sem hann hefir varið til þess í öndverðu, og fáist þeir ekki, auk annars kostnaðar, þá telur hann fyrirtækið ekki hafa borgað sig.

Að öðru leyti skal eg geta þess, að brt. á þgskj. 182 snertir og kjördæmi mitt, að því leyti, sem þar er gert ráð fyrir því, að bætt verði við síma til Snæfjalla, er væntanlega lægi þá um Æðey, að Snæfjöllum og þaðan að Höfða, Grunnavík, en síðan að Hesteyri og að Stað í Aðalvík. — Frá Hesteyri yrði þá og að leggja síma að Höfn á Hornströndum. Hér ræðir um afskektar og fámennar sveitir, en þær ættu ekki að gjalda þess, enda getur það oft haft mikla þýðingu, að því er atvinnu- vegina snertir, fiskveiðarnar, síldargöngur o. fl., að hafa símasamband við norðurhreppana í Norður-Ísafjarðarsýlu. Svo vilja menn og þar, eins og annarstaðar, fá fregnir af því, sem gerist í heiminum, og þurfa þess þá og því fremur, sem þeir eru ver settir að ýmsu öðra leyti. Eg vona því, að þingið hafi ekki á móti því, að samþ. br.till. mína, og það því síður, sem hér er ekki verið að heimta að síminn verði lagður nú þegar, heldur að eins þegar landssjóður sér sér það fært, eða talið verður rétt að taka lán í því skyni. — En vitaskuld er þó hér um það að ræða, sem eigi má við una, að lengi verði dregið að framkvæma.

Eg vil sérstaklega taka það fram, hvað Höfn á Hornströndum snertir, að þótt þar sé fáment, mundi þó sími þangað ekki að eins hafa þýðingu fyrir bæina, sem þar eru í grend, eða fyrir Norður-Ísafjarðarsýslu, heldur og fyrir fleiri, því að Höfn er staður, sem fjöldi íslenzkra og útlendra skipa kemur til á ári hverju, þar sem hvergi er eins hæg innsigling inn á trygga höfn, er að fiskveiðunum er verið út undan Horni, eða þar í grendinni. Það mundi því koma sér vel, bæði fyrir Sunnlendinga og Norðlendinga, Norðmenn, Færeyinga o. fl., ef síminn lægi að Höfn. Þá er það og ekki þýðingarlaust, að vita, hvenær hafís kemur að Horni, eða er á reki út undan norðvestur-kjálkanum. Mætti og nefna fleira, er mælir með því, að sími sé lagður til Hafnar á Hornströndum, en að sinni finn eg ekki ástæðu til, að fara um það fleiri orðum.