09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Benedikt Sveinsson:

Eg er á sama máli og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) um það, að þær línur eigi að ganga á undan öðrum línum, sem leggja á þangað sem þörfin er mest. En eg er ekki á sama máli um það, að landsjóður eigi eingöngu að kosta þessar línur sem mest þörf er á, en hinar séu kostaðar af héruðunum að meira eða minna leyti. Því að það er hreinasta ranglæti, að það fari saman, að hinar síðarnefndu línur verði bæði látnar bíða lengst og síðan þurfi héruðin, sem útundan hafa orðið, að borga þær úr sínum vasa. Símakerfinu hefir verið líkt við vegakerfið, en það er alveg rangt. Reykvíkingar hafa til dæmis ekkert gagn af vegaspottum lengst norður á Hornströndum eða í öðrum fjarlægum héruðum landsins, en aftur geta þeir haft gagn af hverri einustu aukalínu sem er í sambandi við landsímann, hvar sem er á landinu og símað með þeim. Eg hygg því mjög sanngjarnt, að landið kosti alla síma. Menn hafa líka líkt símakerfinu við viðkomustaði skipa og plágu þá er því fylgi, að menn séu ávalt að biðja um nýja og nýja viðkomustaði; sem satt er, að það getur orðið mörgum skaði að viðkomustaðir skipa séu geypi margir, þótt það kunni að vera hagnaður einstökum mönnum. En þessi samlíking er líka gersamlega röng, því að enginn tapar þó á því, að hann eða aðrir komist í ný símasambönd og geti þá náð í samband við sem flestar stöðvar og er þessu því ekki rétt saman að jafna. Það er bersýnilegt, að það er því betra fyrir landið í heild sinni og hvern einstakan símanotanda hvar sem er, sem símarnir eru fleiri; og sem sagt mér finst ranglátt að láta fátækustu héruðin verða þyngst úti. Menn verða að játa það, að síminn er jafnt fyrir alla. Símakerfi landsins er þeim mun meira virði á sérhverjum stað, því fleiri bygðir og héruð sem síminn kemst í, alveg á sama hátt, sem hverjum símanotanda hér í Reykjavík eru meiri þægindi að bæjarsímanum þegar hann er kominn í 300 hús, heldur en hverjum símanotanda var, meðan síminn var aðeins í 25 húsum.

Hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) sagði, að aukalínumar væri eins og ómagar, sem héngi á höfuðlínunni og að landssjóður ætti ekki að kosta aðrar línur en þær, sem gæti borið sig. Þessu verð eg hvorutveggju að mótmæla. Í fyrsta lagi er alveg óséð, hversu höfuðlínan borgaði sig, ef hún væri ekki notuð af aukalínunum, svo að það mætti víst engu síður með sanni segja, að hún lifði af þeim. Yrði að minsta kosti örðugt að gera þar upp á milli. Í annan stað vil eg benda á, að eg býst við, að mönnum þætti fara að skerðast um póstgöngur hér á landi, ef lagðir væri niður allir aukapóstar, sem ekki væri talið að hefði svo mikið að flytja af bréfum og öðrum sendingum, að frímerkin borguðu kostnaðinn. En eftir þessari kenning háttv. þm. o. fl. manna hér, þá ætti að demba kostnaðinum af aukapóstum á sýslufélög og hreppsfélög, að minsta kosti í strjálbygðari héruðum. Mundi það þykja sanngjarnt eða réttmætt? Nú fara aukapóstar út á hvern útskaga og inn í hvern afdal, að kalla má, og dettur engum annað í hug, en landið kosti þær ferðir. En nú verður símasamböndum bezt líkt við póstsambönd; því fleiri póststöðvar og því fleiri símastöðvar, því fullkomnara alt sambandið í heild og haghvæmara öllum. Þess vegna réttlátast að landssjóður kosti hvorttveggja að öllu leyti. Eg býst reyndar ekki við, að sú réttlætiskrafa verði viðurkend í þetta sinn, en hún getur orðið viðurkend seinna.

Eg vil lauslega minnast á heimild landsstjórnarinnar til að láta reisa loftskeytastöð í Reykjavík. Hún er mikið betur orðuð nú, en hún var í stjórnarfrumvarpinu, og hefir brt. mín þá að nokkru verið tekin til greina, en mér finst það undarleg viðbót, sem er á þgskj. 150 og er frá nefndinni, hún er svona: „og í samræmi við gildandi samninga“. Það er svo sem auðvitað að hér yrði ekki sett upp loftskeytastöð í bága við gildandi samninga. Þessi viðbót nefndarinnar er því alveg gagnslaus hortittur.