09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Eg er því eiginlega samþykkur, að það ætti ekki að þurfa að taka þetta atriði sérstaklega fram í frumvarpinu. En það skaðar ekkert, og eftir atvikum er æskilegt að brt. verði samþ. fyrir glöggleika sakir. Það er átt við samningana við Stóra-Norræna og Bretland. Það er í samningum þessum, að ekki verði reistar í Danaveldi þráðlausar langskeytastöðvar, án þess að brezka stjórnin viti. Þessir samningar voru samþ. fyrir Íslands hönd, af þáverandi ráðherra. — Vér yrðum auðvitað að taka tillit til þessara samninga þó það ekki væri beint tekið fram í lögum þessum, en sé það beint nefnt, þarf engum að blandast hugur um það fyrirfram, að vér séum samninganna minnugir, og gæti það þannig ef til vill sparað óþarfa fyrirspumir og bréfaskriftir.