09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Bjarni Jónsson:

Hv. þm. S.-Þing. (P. J.) vék nokkrum orðum að okkur þremenningunum, sérstaklega að mér. (Pétur Jónsson: Er þm. Dal. framsögumaður minni hl. ?) (Forseti: Hann hefir að eins einu sinni tekið til máls). Þm. dreymir. Hann hefir víst aldrei verið í nefnd, þar sem hann hefir þorað að vera í minnihluta, og verður því svo minnistætt að eg þorði, að hann heldur að eg sé það æ síðan. — Hann þakkaði stjórninni mikið fyrir að hafa komið fram með þetta frv., en hvort fyrverandi stjórn eða núverandi átti þakkirnar, fekk enginn að vita. Hann hefði helzt átt að þakka sjálfum sér, því frv. mun að miklu leyti vera undan hans rifjum runnið. Það má vera leiðinlegt að fylgja þeirri stefnu, sem hann fylgir í síma- og vegamálum og fá ekki betri árangur, en þetta frumv. sýnir.

Hann hélt því fram að þeir staðir ættu að ganga fyrir, þar sem þörfin væri mest og sími kæmi að mestum notum. Það er nú gott og blessað, og ekki skal eg hafa á móti því, en það þarf þá að liggja undir dóm einhverra manna, hvar þörfin er mest. Ef þm. væri spurður hver ætti að dæma um það, efast eg ekki um að hann mundi benda á sjálfan sig. En fleiri hafa nasasjón af því, sem gera þarf hér á landi heldur en hann. Hvað sérstaklega viðvíkur brt. minni, sem hann lagist þungt á móti, þá held eg að hann hafi bygt þar á fremur lítilli þekkingu. Talsímalína frá Búðardal að Tjaldanesi mundi óefað verða stórt framfara- og gróðaspor fyrir nærliggjandi sveitir. Þar að auki mundi það koma vel heima við grundvallarreglu hans, að láta kaupstaðina sitja í fyrirrúmi, því að nú þegar er vottur til kauptúns í Salthólmavík.

Eg vildi nú að kauptúnunum og sveitunum væri gert nokkuð jafnt undir höfði í þessu efni, og verður hann að fyrirgefa mér, þótt eg fylgi þessari jafnréttisstefnu.

Engum gæti dottið í hug að segja að línan frá Hofi í Vopnafirði út í Vopnafjarðarkaupstað sé nauðsynlegri heldur en þessi lína, sem eg fer fram á. (Pétur Jónsson: Hlutaðeigendur greiddu 40% af kostnaðinum). Og ekki er heldur línan frá Grund í Borgarnes svo mjög nauðsynleg. Eða þá línan frá Kalastaðakoti á Akranes, ekki er hún þarfari. En hann getur svarað því, að þessar línur hafi verið lagðar áður. Ekki veit eg heldur hvaðan honum kemur sú vizka í að línan milli Eskifjarðar og Norðfjarðar sé svo merkileg. Sú lína getur ekki jafnast á við nokkra línu í þessum flokki.

Eg skal ekki telja fleiri línur til samanburðar. Eg vona að hinn hv. þm. S.-Þing. (P. J.) sjái að þessi lína, sem eg fer fram á, er fult eins nauðsynleg eins og þær, sem eg nú hefi nefnt, og ímynda mér að hann fallist á að leggja hana nú þegar.

Eg hefi hér fyrir mér kort af Íslandi, þar sem öll suðurströndin er merkt með rauðum punktastrikum. Hvernig á eg að skilja þetta ? Á eg að bíða eftir síma í Búðardal, þangað til búið er að leggja símalínur austur alla ströndina? Eg skil ekki hvers vegna menn eru að metast um þetta, úr því að hvort sem er þarf að taka lán. Því ekki að taka dálítið stærra lán, til þess að hægt sé að verða við óskum og þörfum fleiri manna? (Ráðherra: Það þarf að borga lánið.) Þingmenn ættu þó ekki að vera hræddir um lánstraust landsins, þegar þeir eru nýbúnir að samþykkja lög, sem eg hefi líst nokkuð hér í deildinni. Það sýnist vera aðal ásæðan, að menn vilja ekki koma neinum ruglingi á frv. En eg held að það sakaði ekki, þótt því væri eitthvað breytt, annað eins rugl og þetta frv. er.

Hv. frmsm. (J. M.) sagði, ef mér er rétt frá sagt, að sveitirnar væru ekki of góðar til að leggja eitthvað til símanna því þær fengju svo mikinn styrk af landssjóði. Eg skal geta þess, að á seinasta þingi var veittur 1.500 kr. styrkur til skóla á Ísafirði og 1.200 kr. styrkur til skóla á Seyðisfirði, en samskonar skóli í sveit fekk engan styrk. Eg segi þetta til að benda á eitt dæmi um jöfnuðinn, sem sveitunum er sýndur á borð við kauptúnin.

Einn þm. sagði að aukalínurnar lifðu á aðallínunum og þess vegna ættu þær að borga eitthvað. Eg held það væri réttara að snúa setningunni við. Það er rétt, sem hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að því meira sem símakerfið stækkar, því betur mun það bera sig yfirleitt.

Það er merkilegt að þm. S.-Þing. (P. J.) skyldi leggja á móti br.till. 2. þm. Rang. (E. P.), eins rétt og sanngjörn eins og hún er. Það sem hann aðallega lagði áherzlu á var, að Vestmannaeyjastöðin yrði dýrari fyrir bragðið. En stöðin í Vestmannaeyjum er eins lengi opin eins og stöðin í Reykjavík. Eg ætla nú að hringja út í Vestmannaeyjar rétt fyrir kl. 9, þegar fundur er úti.

Það sem hæstv. ráðherra (H. H.) svaraði til fárra orða, sem þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, kom mér óvart. Ekki það, að hann nefndi samninginn við „Stóra Norræna“, heldur það, að hann talaði um einhverja samninga við Breta, sem eg hefi aldrei heyrt nefnda. Það væri nógu gaman að vita um þá samninga, hvort þeir hefta rétt okkar til að senda loftskeyti vestur um haf.