09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Pétur Jónsson:

Eg ætla mér ekki að fara að yrðast við hv. þm. Dal. (B. J.), því eg tók ekki eftir því, að hann færði nokkur rök fyrir máli sínu.

Mér hefir aldrei dottið í hug að til mín yrði skírskotað um hvað réttast væri í þessu máli. Til þess brestur mig kunnugleik. En eg efast ekki um að óhætt sé að fara að ráðum símastjórans, sem ferðast hefir um alt landið, og er allra manna kunnugastur og hefir bezt vit á hvaða símar bera sig og hvar þörfin er mest. Þar sem landsstjórnin hefir þennan mann fyrir ráðunaut sinn í þessum efnum, hygg eg að vel megi hlíta aðgerðum hennar og treysta henni til að ráða sem bezt fram úr þessum símamálum. — Þó mikið vanti á að eg hafi fullkomna þekkingu í þessu efni, efast eg ekki um að eg er bæði sanngjarnari og betur að mér um símamál heldur en háttv. þm. Dal. (Bjarni Jónsson: Það er nú rangt.)

Viðvíkjandi því sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, skal eg geta þess, að ef framlag héraða til símalagningar væri afnumið og greitt til baka það sem héröðin hafa hingað til lagt fram, sem nú nemur um 120 þús. kr. með því sem nú er gerð áætlun um til 2. fl. síma, — þá yrði það ekki til annars en þess að auka misréttið gagnvart þeim héruðum, sem eftir eiga að fá síma. Þau yrðu þá að bíða, því ekki er hægt að taka ótakmarkað fé til láns til nýrra og nýrra símalagninga, en eg er viss um að héruðunum er miklu bagalegra að bíða lengi eftir síma, heldur en að leggja fram sinn skerf af kostnaðinum við lagninguna. Og það hefir sýnt sig hingað til að héruðin hafa heldur kosið að leggja til fé heldur en að bíða. Eg álít þessu máli bezt borgið með því að landssjóður, héruðin og einstakir menn legðust á eitt og styddu hver annan í að koma því áleiðis. Það er auðvitað sanngjarnt að hvert hérað og hver sveit fái svo fljótt síma sem hægt er og þörf er fyrir, en þau verða þá eitthvað á sig að leggja til þess.

En ef ætti að afnema héraðatillögin og borga til baka þeim héruðum, sem þegar hafa fengið síma, þá yrði það, eins og eg sagði áðan ekki til annars en að auka ranglætið við þau héruð, sem bíða og fyrst um sinn verða að biða eftir símalagningu.