19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

9. mál, landssjóður kaupi einkasímann til Vestmannaeyja

Jón Magnússon:

Eg skil ekki að hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) skuli ekki vera orðinn þreyttur á að vera altaf öfugur við alla skynsemi í símamálinu. Eg get lýst því yfir fyrir hönd hluthafa að þeir mundu þakka fyrir ef þeir fengju að símanum; svo mikil fjarstæða er það að þeir óski að losna við hann. Þeir hefðu meira að segja sent mig með bænaskrá til þingsins um það, ef eg hefði ekki skýrt þeim frá því að eg gæti ekki sett mig í móti kaupunum ef ósk í þá átt í kæmi fram á þinginu, af því áliti það hyggilegt af landssjóði að kaupa símann. Hluthafar eru ekkert hræddir við bilunarhættu, og eru þess fullvissir að síminn muni gefa góðan arð.

Mér var sagt — eg var ekki sjálfur inni — að hv. þm. hafi talað um styrk er Vestmanneyingar hafi fengið til símalagningarinnar. Því fer fjarri að þeir hafi fengið nokkurn styrk eða nokkur hlunnindi. Þvert á móti var alt sem landið gerði og lagði til, fært nákvæmlega til reiknings, og var landsímastjórinn enda fullharður.

Eg get tekið undir með háttv. 2. þm. í S. Múl. (J. Ó.) að það væri ekki laust við óbilgirni, að taka símannn af Vestmanneyingum strax á fyrsta ári, eftir að þeir hafa haft alla fyrirhöfn við að koma honum upp, og það sem fram úr öllu hófi keyrir, að ætla að taka af þeim líka mest allan ágóðann þetta fyrsta ár!