19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

9. mál, landssjóður kaupi einkasímann til Vestmannaeyja

Björn Kristjánsson:

Það voru aðallega tvær viðbárur, sem eg bar fram. Önnur sú, að fjárhagur landsins væri vart svo góður nú að það gæti lagt út í þessi kaup — 45 þús. kr. er talsvert fé. Hitt var að eg álít réttara að það privatfélag er stofnað hefir símann, reki hann þangað til reynsla er fengin fyrir því hversu mikil bilunarhættan er. Eg skil ekki að orð mín hafi getað gefið hv. þm. Vestm. (J. M.) tilefni til að segja að eg sé jafnan „öfugur við alla skynsemi“. Eg vil þvert á móti fara að sem hygginn bóndi í þessu; kaupa ekki símann fyr en reynt er hvort hann getur haldið og borið sig ef slys skyldi að höndum bera. Mér finst rétt að landið biði fyrst um sinn þessi 10 ár og athugi þá hvort tiltækilegt sé að kaupa símann. Þetta mundi hver hygginn maður hugsa eins og hér stendur á, og er það því óréttmætt að skoða þessa stefnu mína „öfuga við alla skynsemi“.