18.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Ráðherrann (Kr. J.):

Eins og kunnugt er komst síðasta alþingi að þeirri niðurstöðu, að auka þyrfti tekjur landssjóðs að miklum mun í næstu framtíð. Því var þá skipuð 5 manna nefnd til þess, að gera athuganir og tillögur um það, hvernig það mætti verða, og nefndi þingið sjálft 4 menn í nefndina, en stjórnarráðið einn. Hún hefir nú starfað mikinn hluta ársins sem leið, og auk þess nokkurn hluta þessa árs, og það eru tillögur hennar, sem hér liggja fyrir í frv. þeim, sem hér er útbýtt í dag. Úr því að nefndin var þann veg tilkomin, sem hún var, hefi eg talið mér skylt að leggja tillögur hennar fyrir þingið, svo að háttv. þm. geti séð og dæmt um verk hennar. Vænti eg þess, að frumvörp hennar verði lögð fyrir nefnd til athugunar. Engum vafa er það bundið, að mikið þarf að auka tekjur landssjóðs, og hvað þetta frumv. snertir sérstaklega, er eg samdóma nefndinni um það, að ekki sé svo mjög varhugavert að leita þar fyrir sér, sem steinolían er, einmitt vegna þess, að nú má svo heita, að einokun sé á henni hvort sem er. Nú mun vera flutt hingað til landsins um 30 þús. föt af henni á ári, og af þeim fáum vér um 25 þús., eða 6/6 hluta hjá einstöku félagi. Það væri því ef til vill ekki svo fjarri, að landsstjórnin tæki sjálf að sér steinolíuverzlunina og leigði hana einhverju félagi, og ef það yrði gert, væntir nefndin 80 þús. kr. tekjuauka af því á ári.