21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Áður en eg fer að tala um einstök atriði þessa frv., þá skal eg taka það fram, að eg var í flokki þeirra manna, sem ekki vildu leyfa umræður í gær. Bar tvent til þess, fyrst og fremst það, að nefndarálitinu var ekki útbýtt fyr en í gær, enda er það eitt hið lengsta nefndarálit, sem samið hefir verið á þessu þingi og málið jafnframt eitthvert hið þýðingarmesta og stærsta, sem hér hefir komið fram nú. Eg vissi því að þingmenn höfðu alls eigi haft tækifæri til að lesa nefndarálitið. Hin ástæðan til þess að eg var andvígur því að málið væri á dagskrá í gær, var sú, að eg hafði símað til Hamborgar kl. 1 í fyrradag, og var ekki búinn að fá svar á fundinum í gær, fékk það fyrst í dag kl. um 5 e. h., eftir 28 stundir, og eftir að eg var búinn að síma á ný um mikilsverðar upplýsingar í málinu.

Eg bið háttv. forseta að afsaka þótt ekki verði 2. umr. blær á orðum mínum, enda liggja engar brt. fyrir. Nefndarálitið er á þgskj. 315; leggja þar 6 af nefndarmönnunum með því að fella frumv., en nefndinni er það að kenna, að sá 7. nefndarmanna gat ekki skrifað undir nefndarálitið, til hans varð sem sé ekki náð, þegar nefndarálitið var látíð í prentsmiðjuna, og er hann beðinn afsökunar á því.

Að svo mæltu skal eg snúa mér að frv.

Meiri hluti nefndarinnar álítur að ekki beri samþykkja þetta frv., fyrst og fremst af því, að yfirleitt voru nefndarmenn ekki hlyntir einokun, sízt á nauðsynjavöru. Í annan stað telur nefndin nú nægilega séð fyrir tekjum í landssjóð, þar sem nýlega hefir verið afgreitt frá þinginu lotterífrv. og frv. til laga um síldartoll geri eg ráð fyrir að verði samþykt. Nefndin hefir athugað frv. rækilega og er andvíg því, eins og eg tók fram, og hefir því ekki viljað eyða dýrum tíma þingsins í að ræða frv. jafnvel í báðum deildum. Frv. er náskylt frv. um kolaeinokun, sem mestar umræður urðu um í vor. Þetta frv. hefir staðið í skugga fyrir kolafrv., svo að það hefir lítíð verið rætt opinberlega, en er þó sannarlega vert þess að gefa þjóðinni kost á að kynna sér það, og engi skaði skeður þótt það biði. Eg hefi orðið var við á síðustu dögum úlfaþyt út af því, að D. D. P. A. hafi sett upp verðið á steinolíu um 5 kr. tunnuna, er jafnvel eigi að hækka enn um 7 kr. Þetta er mér sagt að sé grikkur, því að slík hækkun sé ekki gerð á steinolíu í útlöndum, heldur sé þetta gert til að pína oss Íslendinga. Ef svo væri, kynnu að renna á menn tvær grímur, ef trygging væri fyrir að þetta frv. gæti verndað oss frá slíkri hækkun. En nú er það öðru nær, en að það verndi oss. Ef verðið hækkaði svona mikið annarstaðar, þá mundum vér engan hemil geta á því haft. Blaðið, sem fer með þessa kenning, hefir því rangt fyrir sér. En nú hefi eg heyrt, hvernið standi á þessari hækkun. Ameríska félagið hugsar sér til hreyfings út af því, hve mjög notkun dísilmótora fer í vöxt, og vill nú kúga sér til handa einkaleyfi félags þess á meginlandinu, sem hefir dísilmótoraeinkaréttinn. Þetta er mér sagt af kunnugum manni, en líklegt er, að ekki muni sú hækkun standa lengi, því annaðhvort félagið verður þó að láta undan innan skamms.

Eg drap á, að samþykt þessa frumv. yrði ekki til verndar því, að verð steinolíunnar hækki ekki, þótt vér ættum við það að búa. Má í því efni benda á 4. gr. frv., sem greinir nákvæmlega frá því, hvernig miða skuli hækkun og lækkun við kauphallarverð í Hamborg. Eg hefi upplýsingar um, hve mikið kauphallarverðið var 2. jan. 1912, sem sé Mk. 6,50 hver 50 kíló. Nú er verðið samkv. símskeyti frá Hamborg frá Mk. 8,85—9,15. Það mundi eftir reglum 4. gr. frv. og ástæðunum í nefndárálitinu svara til þess verðs, sem hér segir:

Kauphallarverðið í Hamborg var

20. ágúst fyrir 150 kíló lægst … Mk. 25,65

En 1. Janúar 1912 lægst …....... — 19,15

Mismunur Mk. 6,15

Grundvöllur fyrir útsöluverðinu í kaupstöðum er eftir frv. í heilum tunnum 12 aur líter,

eða tunnan …………………… kr. 24,00

þar við bætist þá verðhœkkunin

Mk. 6,15 (0,89 au.) ………….. — 5,48

kr. 29,48

Ætti þá steinolían að kosta nú samkv. frumvarpinu um kr. 29,50, og er munurinn þá ekki svo mikill, er miðað er við það verð, sem olían er seld fyrir.

Eina ráðið, til þess að bjarga landinu frá því að lenda í klóm steinolíufélagsins er, að skapa keppinaut gegn því, t. d. ef þingið, stjórnin og bankarnir neyttu allra ráða til þess að gera samkepnina nógu sterka, og eigi lægi annað við borð en að danska félagið misti réttinn til að verzla hér, ef það beitti óeðlilegri samkepni.

Svo eg víki að sjálfu frv. sem liggur fyrir, þá skal eg taka fram, að ef innleiða ætti einkasölu, þá væri ekki fulltryggilega um hnútana búið, nema frv. væri breytt frá rótum. Eg er mótfallinn allri einokun, bæði ríkiseinokun — að ríkið sjálft taki verzlun í sína hönd, og því, að ríkið selji réttinn til verzlunar með eina eða aðra vörutegund á leigu. Landið okkar er svo lítið og fáment að það þolir ekki þau einveldisáhrif er af einokun mundu leiða.

Eg skal ekki að svo stöddu fara að rekja einstöku atriði frumvarpsins, en skal gera það síðar ef ástæða verður til. Eg ætla fyrst að sjá hvort deildin muni vilja samþykkja þetta frumvarp, sem nú liggur fyrir. Og það er víst að þingtíminn endist ekki ef laga á frumvarpið svo, að það geti fullnægt kröfum jafnvel þeirra manna sem hlyntir eru einokun.