21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Það verður aldrei ofsögum sagt, um þann mikla skaða sem einokunin hefir gert hér á landi, og því er von að menn séu hræddir og þeim skjóti skelk í bringu, þegar talað er um, að nú eigi að mynda hér einokun. Aftur á móti hafa ýmsir góðir menn og greindir séð það, að nota má einokun í þarfir þjóðarinnar — henni til hags — og veita landssjóði tekjur og láta menn fá vöruna sem einokuð er, við betra verði.

Einu sinni var mikið um það talað að eina verzlunarfyrirkomulagið sem viðunandi væri, væri frjáls verzlun, en nú hafa menn séð það, að einmitt með frjálsri verzlun er hægt fyrir auðuga kaupmenn eða verzlunarfélög að mynda einokun, og skal eg þar til nefna „trust“ eða hringana svonefndu, sem öll Ameríka, þessi volduga þjóð, skelfur nú fyrir. Við þessum hringum („trusts“) hefir ekki fundist annað ráð vænna en ríkiseinokun og skiftist þá hagurinn af verzluninni milli ríkisins og kaupendanna; en með frv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlast til að ágóðanum verði skift í þrent, nefnilega fyrsti hlutinn í landssjóð, annar hluti til handa þjóðinni, en þriðji hlutinn til þess manns eða félags sem tekið hefir að sér einkasöluna. Þetta er ekkert neyðarúrræði. Þegar ríkis einokun er komin á, þá er auðvitað að bæta þarf við í þessu tilefni mörgum starfsmönnum í þjónustu þess og hafa margir látið það í ljósi að þeir óttuðust að stjórnin mundi með skipun þessara „funktionera“ afla sér stjórnmálafylgis, svo að auðsætt er að mikið traust þarf að hafa á þeirri stjórn sem þetta er falið. Og í fullu trausti þess að stjórnin muni hlutdrægislaust ráða þessa starfmenn greiði eg frv. þessu atkv.

Dagskráin á þgskj. 349, held eg að geti ekki komið að neinu gagni og greiði henni því ekki atkvæði.