21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Benedikt Sveinsson:

Eg ætla að eins að segja örfá orð út af því sem sagt hefi verið hér í deildinni um að rangt væri að bera saman gömlu einokunina og þessa, sem nú er í ráði að demba á þjóðina. Einkum því sem hv. 2. þm. Rang. (E. P.) sagði að einokuninni hafi verið dembt á af útlendu valdi, en nú væri það ríkið, sem kæmi henni á. En ef að er gáð, þá er það líkt, því hvortveggja einokunin kemst á af hvötum stjórnar landsins. Af því að gamla einokunin reyndist illa, er sagt að hún hafi verið sett í illum tilgangi, en það er als ekki rétt. Það var gert í sama tilgangi og nú, að koma verzluninni í betra horf, og auka tekjur stjórnarinnar. Annað mál er það að menn kynnu að geta séð um að einokun þessi yrði ekki út af eins skaðleg, en aftur á móti er vafasamt að hún geti losað sig úr þeim böndum, sem hún bindur sig með þessu frv, svo fljótt sem ákjósanlegt kynni að vera. — Líti menn á alla þá starfsmenn sem stjórnin á að ráða, þá þarf ekki mikið að efa það að þessir menn gætu orðið góðir agitatorar fyrir stjórnina og mundi þá komast á töluvert veðsjárverð „klikka“.

Eg nenni ekki að vera að eltast við einstök atriði, en æði þótti mér það undarlegt er hv. þm. S-Þing. (P. J.) vildi nema burt 4. gr. en það er einmitt bezta grein frv. Ef þingið gæti á nokkurn hátt farið að setja einokun á landsmenn, má ekki minna vera en 4. gr. fái að standa. Annars furðar mig stórlega á því að slík tillaga sem þessi skuli vera komin fram. — 11. gr. ákveður að leyfishafi setji 25.000 kr. tryggingu fyrir því að samningurinn verði haldinn. En það er auðvitað, að þar sem um jafn stórkostlegan atvinnurekstur er að ræða, er þessi upphæð einskis virði sem trygging. Féð þyrfti að vera margfalt meira ef að nokkru gagni ætti að koma. — Eg tek það fram, að eg felli mig við þá rökstuddu dagskrá sem fram er komin. En ef nauðsynlega þarf að taka í strenginn á móti því einokunarfélagi sem nú er, þá ættu menn að samþykkja frumv. sem prentað er á þgskj. 349. Því er borið við að tími vinnist ekki til að koma því fram, með því að svo langt sé liðið á þingtímann. Enn menn skulu gæta að því að þetta stjórnarfrv. sem nú liggur fyrir, er ekki komið lengra en til 2. umræðu. Ómögulegt væri því að koma því í gegnum þingið nema með stórkostlegum afbrigðum frá þingsköpunum, eða með því að framlengja þingtímann. Enda hefir nú flogið fyrir að stjórnin hafi útvegað sér heimild til framlengingar einmitt til þess, að koma þessu frv. í gegn.