31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

13. mál, hagfræðisskýrslur um tóbaksinnflutning

Framsögum. (Guðlaugur Guðmundsson):

Eg finn ekki ástæðu til, að halda langa ræðu um þetta mál. Eins og sjá má af nefndarálitinu telur nefndin ekki von um neinn árangur af frv. og getur því ekki lagt til að frv. gangi fram.

Að svo komnu máli er ekki útlit fyrir að þing eða stjórn leggi út í tóbaksiðnað eða tóbakseinkarétt, meðan fjárhagur landssjóðs er svo erfiður, auk þess sem það er talið tvísýnt að það borgi sig, og ekki víst að það verði drýgra en tollarnir.

Hvað því viðvíkur að safna skýrslum um þetta mál, verð eg að álita, að það sé ekki tímabært. Er eg hræddur um, að þær skýrslur verði orðnar of gamlar þegar á þeim þarf að halda. Eg finn ástæðu til að taka það fram, að milliþinganefndin hefir gert sér far um að upplýsa málið sem bezt, og útvega sem ábyggilegastar skýrslur. Það sést á athugasemdum nefndarinnar, að hún hefir ekki verið samdóma um, hversu haganlegt þetta einkaleyfi væri, en hún hefir talið sér skylt að halda í þá átt sem þingið 1911 benti á, því að það var það sem sló fastri hugmyndinni um einkaleyflð en ekki milliþinganefndin.