18.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

12. mál, viðauki við tollalög fyrir Ísland

Ráðherrann (Kr. J.):

Saga þessa frv. er hin sama og hinna tveggja; það stafar einnig frá nefndinni, sem síðasta þing skipaði til þess að athuga fjárhagsástandið, og tillögur hennar í því eru þær, að lagður verði tollur á allar aðfluttar vefnaðarvörur og tilbúin föt o. fl. Ætlast nefndin til að á þessu gæti landssjóður grætt alt að því 120 þús. kr. á ári. Frv. er hér eins og það kom frá nefndinni, og nánari ástæður fyrir því, eins og hinum, er að finna í hinu ítarlega nefndaráliti, sem útbýtt hefir verið og vænti eg þess, að það verði látið ganga til nefndar, eins og þau.