18.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

14. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Guðlaugur Guðmundsson:

Þetta mál virðist ekki svo margbrotið, að nefnd þurfi að fjalla um það, og eg vil leyfa mér að benda á það, að hér getur verið nokkuð í húfi, ef málið dregst lengi hér í þinginu. Mér er sem sé kunnugt um það, að nú svo að segja næstu daga mun verða flutt út úr landinu ekki svo lítið af síldarolíu. Hér er um nýja atvinnugrein að ræða, og markmið hennar er að koma síldinni og afurðum hennar í peninga á annan veg, en áður hefir verið gert. Á þessu var fyrst byrjað í fyrra sumar, og síðan hefir verið flutt út allmikið af síldarolíu eða síldarlýsi, sem við köllum það oftast, og fram að þessu hefir útflutningsgjaldið af því verið talið hið sama og af algengu lýsi, sem sé 30 aurar á tunnuna. Enginn efi er á því, að útflutningur á þessum afurðum mun fara mjög í vöxt á þessu ári, því að síðan í fyrra vor hafa risið upp þrjár stórar verksmiðjur og tvær minni, til þess að bræða síldarolíu og búa til fóðurmjöl ekkert málinu til upplýsingar, og áburðarefni. Eg má fullyrða, að til þess að stofna þessar verksmiðjur allar, muni hafa gengið um 800 þús. kr., og má af því sjá, að hér er um allstórskorinn atvinnuveg að ræða. Gjöra má ráð fyrir því, að þær versmiðjurnar, sem reistar voru í vor, muni ekki geta tekið til starfa fyr en eftir nokkra daga, en ein er þegar byrjuð, og ef mikill dráttur verður á málinu hér, þá verður búið að flytja út töluvert af þessum afurðum áður en hin væntanlegu lög ganga í gildi. Engin heimild er til þess áður, að taka nokkurt útflutningsgjald af fóðurmjöli því, er hér er um að ræða, og var þó nokkuð af því flutt héðan út í fyrra sumar. Um verð á því er mér ekki fyllilega kunnugt, en þó hygg eg að það fari ekki fjarri því, að vera 16 aurar pr. kíló. Um áburðarefnin skal eg geta þess, að eg vissi til þess í fyrra að af þeim voru sendir tveir stórir farmar til Suður-Ameríku. Þau skip afgreiddi eg sjálfur, og tek eg þetta fram til upplýsingar. Sem sagt tel eg að nefnd sé ónauðsynleg og gæti valdið drætti á málinu, sem ef til vill bakaði landinu skaða.