18.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

14. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Lárus H. Bjarnason:

Eg vil styðja tillögu hæstv. ráðherra (Kr. J.) um það, að nefnd verði skipuð í þetta mál. í fyrsta lagi vegna þess, að hér er verið að ræða um áframhald á stefnu í tollöggjöfinni, sem að vísu hefir verið fylgt hingað til, sem sé að leggja toll á innlendan iðnað en nokkur vafi getur leikið á um, hvort fylgja eigi framvegis. Ennfremur gæti komið til mála önnur verðhæð á tollinum en áður er í frv. Og loks er allsendis ómögulegt að sjá af skjölum þeim, sem fyrir hendi eru, hve mikill tekjuauki yrði að þessum lögum. Stjórnarráðið vitnar í frv., sem ekki hefir verið lagt fyrir þingið, frv. um einkasölu á kolum. í athgr. stjórnarinnar er við fyrirliggjandi frv., er ekkert málinu til upplýsingar, athgr. einar 2 línur. Og í áliti fjármálanefndar eytt 7 línum til athgr. við frumvarpið Þetta eru allar upplýsingarnar, sem hv; þm. hafa. Eg verð því að álíta það mjög misráðið, ef frv. verður hleypt í gegnum þingið, án þess að nefnd athugi það frekara. Að dráttur verði á máli nú þarf ekki að óttast. Nefndin ætti að geta lokið fljótt störfum sínum. Eg veit dæmi til þess, að stærra máli en þessu hefir verið lokið í nefnd á skömmum tíma — mig minnir á einum stundarfjórðungi. En er eitt ráð til þess að girða fyrir óheppilegar afleiðingar af drætti, og það er að láta lögin öðlast gildi fyrir sig fram. Það er raunar ekki heppileg aðferð, en hún hefir þó verið tekin upp áður, í tolllögunum frá 1911. Sem sagt sé eg enga ástæðu til að svo óundirbúið mál sé látið fara nefndarlaust gegnum þingið.