20.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Flutningsmaður (Jón Magnússson):

Frumv. þetta er aðallega fram komið vegna klúbba þeirra, svo kallaðra, er hér risu upp 1910—1911 og kunnir eru orðnir. Þessir klúbbar voru hér stofnaðir tveir, aðallega eða jafnvel eingöngu í þeim tilgangi, að reglulaust að kalla, mætti veita áfengi, undir yfirskyni félagsskapar og í skjóli hans. Raunar var annar þeirra stofnaður í þeim tilgangi, að stofna og víkka umgengnislíf. Áttu þar að vera kúlukosningar, ef þess var óskað. Aðkomumenn máttu ekki takast inn nema einn með hverjum gesti. Félagagjald skyldi og vera 2 kr.; en aldrei var þessu fylgt. T. d, máttu allir skipverjar á Islandsfalk koma inn án gjalds. Auk þess reyndist svo, að aðkomumenn voru teknir fleiri inn í senn en reglurnar heimiluðu. Gefur það að skilja, að slíkt fyrirkomulag gat ekki helgað tilgang félagsins, enda fór svo, að klúbburinn var sektaður. Hinn klúbburinn var með meiri reglu, var sniðinn eftir útlendu fyrirkomulagi öllu fremur en hinn. En þó fór svo, að kœrt var yfir báðum og báðir dæmdir í sekt. Eftir að dómar féllu var breytt lögunum í báðum félögunum, og er mælt, að reglunum muni að mestu fylgt alveg í öðrum klúbbanna og nokkurn veginn í hinum.

Því hefir oft verið hreyft við mig, að tilgangur félaga þessara væri ekki eiginlega annar en sá, að veita áfengi, án þess að gjalda fyrirskrifað gjald, og væru því ekki samkvæmt lögum. Nú er það, að ekki er nein heimild til að loka þessum stofnunum, þótt sekta mætti, og væri því full ástæða til að finna ráð til að stemma stigu við þessu.

Eg skal ekki um það segja, hvort með frumv. þessu hefir tekist að finna heppileg ráð við þessu. Það kom til tals við hæstv. ráðherra, að eg flytti inn tillögu um þetta efni á þingið, en síðar skildist mér hæstv. ráðherra ekki hafa á móti því, að málið kæmi fram í þessu formi.

Eg býst við, að frumv. þetta snerti einkum Reykjavík, gæti að vísu komið við sum gistihús hér austur með vegum. Hér í Reykjavík liggur fullur grunur á því, að áfengi sé veitt í sumum kaffihúsum, og sama er sagt um sum gistihús fyrir austan heiðar. örðugt er að komast fyrir hvað menn selja, ef ekki er beint tiltekið. Tilgangur frumv. er að fyrirbyggja þetta. Annars býst eg við, að mönnum þyki rangt að meina félögum yfirleitt, hvers konar sem eru, að hafa áfengi um hönd. En eg þykistist vita, að ákvæði frumv. um leyfisheimild lögreglustjóra mundi ekki vera því til fyrirstöðu.

Eg hefl ekki ástæðu til að tala frekara um þetta mál. Eg vænti að því verði vel tekið, þar sem til þess liggja óskir margra bæjarbúa hér, og að það gangi greiðlega fram. Hins vegar býst eg við að henta þyki, að sett verði nefnd í málið til þess að athuga þau ákvæði frv., er þykja kunna að lúta að persónufrelsi manna, og vil eg því leyfa mér að stinga upp á 3 manna nefnd.