27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Lárus H. Bjarnason:

Þó eg sé ókunnugur þessum marg um getnu klúbbum, þá er þó sú saga sögð af þeim, og er líklega sönn, að full ástæða er til að reyna að hnekkja þeim. En hinsvegar tel eg það vafasamt hvort eina úrræðið til þess séu aukin lög. Eg hygg að langt mætti komast með þeim lögum sem nú höfum vér. Eg tel víst að lögin frá 11. nóv. 1899 og aðflutningsbannslögin frá 30. júlí 1909 mundi reynast einhlýt til að hnekkja þessum ósóma ef þeim væri öfluglega beitt og röggsamt eftirlit væri haft með því að þeim væri hlýtt. Nú en hinsvegar skaðar það ekki þó nýjum lögum sé bætt við. En þá er tvens að gæta. Annars vegar ber að gæta hófs að ekki sé gengið of nærri persónulegu frelsi einstaklinganna, og hins vegar er þess að gæta að svo sé um hnútana bundið að von sé um að því verði hnekt er flutningsm. (J. M.) vill hnekkja. Eg efast um, að í þessu frv. sé það tillit tekið til þessara tveggja atriða sem skyldi. Eg held ekki að ákvæði 1. gr. nægi til að koma í veg fyrir áfengissölu í klúbbum. Hún bannar að vísu veitingar í föstum félagsherbergjum. En hvað eru föst félagsherbergi? Eingöngu þau herbergi, sem félagið sjálft hefli á leigu, en önnur ekki. Einkaherbergi húsráðanda, gestastofa veitanda etc. geta ekki talist til þeirra, og þar gæti þá áfengisveiting farið fram. Sömuleiðis girðir 1. gr. ekki fyrir það að einhver einstakur félagi leigi herbergi nálægt hinum föstu félagsherbergjum og veitingar séu hafðar þar. Þá er annað ákvæði 1. gr. um að engin áfengisnautn megi fram fara í föstum félagsherbergjum, og er þar sami annmarki á, að hún getur farið fram annarsstaðar undir nafni félagsins. En auk þess er það of hart aðgöngu, að félagi í klúbb, sem á vin sjálfur heima hjá. sér, og vill neyta hálfrar flösku af öli í herberjum klúbbsins, skuli þurfa leyfi lögreglustjóra til þess, og hann má einu sinni ekki sækja sjálfur um þetta leyfi, heldur verður hann að láta stjórn félagsins gera það fyrir sig!

Um viðurlögin við brotum gegn ákvæðum 1. gr. er það að segja, að þau gæta ekki hófs. Það er alt of mikið að maður geti sætt 3 mánaða einföldu fangelsi fyrir að taka úr eigin vasa glas sem hann á sjálfur og súpa af því! Þessi viðurlög eru heldur ekki í samræmi við þau viðurlög sem sett eru við brotum á aðflutningsbannslögunum frá 1909. Þar er ákveðið að óheimil veiting áfengis skuli varða sektum að upphæð 50—100 kr., en 100—1000 kr. ef brot er ítrekað. Sömuleiðis vantar hér inn í það ákvæði sem er í bannlögunum, að birgðir megi gera upptækar, ef brotið er. Þá virðist mér heimild sú sem lögreglustjóra er gefin til að banna samkomur félaga eigi vel samrýmanleg við 55. gr. stjórnarskrárinnar. Eftir henni má að eins banna félög „um sinn“. Eigi að banna félagið til fulls, þá þarf að höfða mál gegn því. En þar sem um svona lystifélög er að ræða, fellur það saman að banna samkomur þess og banna það yfir höfuð, þá finst mér það einnig of ósanngjarnt að gera veitandann einan refsiverðan. Úr því nautn er brot samkvæmt fyrstu gr., þá ætti líka að leggja viðurlög á neytandann. Loks skil eg ekki hvað átt er við með því að um ábyrgð fyrir brot gegn lögum þessum skuli fara eftir „venjulegum reglum“. Þetta var um veiting og nautn innan félagsskapar.

2. gr. er um áfengisnautn utan félagsskapar. Mér virðist hún fara nokkuð langt. Hingað til hafa menn oft komið saman í Iðnó, Bárunni etc. við brúðkaup, til að fagna góðum gestum svo sem Matthíasi Jochumssyni etc. etc. og fengið að neyta þar víns. Nú á það að vera bannað. Mér þykir gengið helzt til nærri mönnum með því. Sömuleiðis mundi leiða af þessari grein að maður sem á birgðir heima, og má flytja þær úr húsi sínu til loka ársins 1914, gæti ekki tekið upp vasapelann sinn t. d. á Kolviðarhól og drukkið af honum. Það væri tvímælalaust brot. Auk þess er bannið fortakslaust. Það má jafnvel ekki með leyfi lögreglustjóra neyta víns í Iðnó eða taka upp pelann sinn á Kolviðarhól, því hann hefir ekki heimild til að veita slíkt leyfi.

Mér þykir líka, fyrir annað eins brot og þetta, lágmark sektar, 50 kr., of hátt. Mér finst ekki geta komið til mála að leggja sekt á veitanda fyrir það, að einhver sýpur á eigin pela í herbergjum hans. Hins vegar ætti að refsa neytanda fyrir það, úr því að nautnin er bönnuð.

Auk þess vil eg benda á að orðalag frv. er ekki nærri eins vandað og vænta mátti af hv. flutningsm. (J. M.) Eg skal leyfa mér að nefna t. d. í 1. gr. „sín í milli“ um félag. í 2. gr. „öðrum slíkum“ í niðurlagi greinarinnar, og i 3. gr. „ráðendur“.

Þetta eru þá helztu agnúarnir, sem eg get fundið í fljótu bragði, og væri æskilegt, að nefndin vildi á einhvern hátt bæta úr þeim. Eg legg ekki áherzlu á, hvernig það er gert, en álit heppilegast að nefndin tæki frv. til nýrrar yfirvegunar.