27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg hygg, að nefndin muni ekki finna ástæðu til að taka frv. aftur til íhugunar, en ef háttv. deild vill það, þá verður svo að vera.

Eg gleymdi áðan að tala um „föst félagsherbergi“. Eg er ekki hræddur um að það atriði geti orðið misskilið. Félög hafa myndast og tekið á leigu herbergi og haft þar vínveitingar alveg eins og á opinberum veitingastöðum. Það getur ekki verið hætt við að félagsmenn reyni að fara í kringum þetta atriði.

Eg skal aftur taka það fram, að eg er alveg forviða á því, að háttv. þm. talar um hvað einfalt fangelsi sé voðalega hörð hegning. Ef háseti hleypur burt úr skipsvist, þá er minsta hegning, sem við því liggur, einfalt fangelsi. En eg verð að álíta það miklu meira brot, að spilla unglingum með því að leyfa setur við víndrykkju daga og nætur, helga daga jafnt og rúmhelga. Þegar háttv. þm. talar um lífsstraff fyrir brot á þessum lögum, þá sýnir það, að hann gætir ekki hófs í aðfinslum sinum.

Eg sagði áðan, að eg áliti ekki leyfilegt eftir aðflutningsbannslögunum, að ferðast með pela upp á vasann Lögin segja það beint og undantekningarlaust, minsta kosti get eg ekki skilið 9. gr. á annan hátt.

Eg get ekki álitið það neitt efamál, að frv. nái tilgangi sinum. Að minsta kosta er eg sannfærður um, að með frv. er náð aðaltilgangi mínum: að koma í veg fyrir klúbbana. Með því er algerlega fyrir þá gert.

Það er satt, að stjórnarskráin heimilar löglegan félagsskap manna, en hún stendur ekki í vegi fyrir því, að hindraður sé félagsskapur, sem kominn er saman til að brjóta lögin. Eg held að það sé ekki rétt hjá háttv. þm., að frv. komi í bág við stjórnarskrána; eg hygg það bara tilfundið til að finna að. (L. H. Bjarnason: Og sei-sei, nei). Það er auðvitað, að félag, sem á móti lögum hefir að staðaldri um hönd vínveitingar í herbergjum sínum, er ekki samankomið í löglegum tilgangi.

Annars hirði eg ekki að deila mikið um þetta. Þeir, sem vilja að þetta frv. gangi fram, greiða því atkv. til 3. umr.