27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg hafði ekki ætlað að blanda mér í deilur hinna hv. þm. um þetta mál, en úr því sem komið er, verð eg þó að tala fáein orð. Eg trúi því, sem hv. frsm. (J. M.) segir, að 1. gr. frumv. eigi rót sína að rekja til klúbbanna, sem svo eru kallaðir, hér í bæ, og taldir eru að hafa um hönd áfengisveitingar á miður löglegan hátt. En eins og gr. liggur fyrir, þá finst mér hún með orðunum: „Ekkert félag manna“ ganga lengra, taka yfir meira en tilgangurinn er, leggja nýtt bann á ýmislegt fleira en „klúbbana“, og þess vegna „seilst um hurð til loku“. Það væri heppilegra, ef háttv. framsm. vildi bera sig saman við aðra um br.-till. við þetta til næstu umræðu og orða þessa grein skýrar. Það dugir ekki, að láta landið alt gjalda þess, þótt núgildandi lög séu svo úr garði gerð, að í skjóli þeirra geti hér í Reykjavík þrifist eitthvað það, sem er skaðlegt, og jafnframt er á takmörkunum milli þess að vera löglegt og ólöglegt. Annars legg eg fyrir mitt leyti mesta áherzluna á 2. gr. Væri hún betur orðuð og henni haldið innan réttra takmarka, ætti hún, að geta haft mikla þýðingu í mínu kjördæmi. Ef húsráðendur á kaffihúsum og öðrum slíkum veitingastöðum væru skyldaðir til þess, að viðlagðri hegningu, að gera það sem í þeirra valdi stæði til þess að koma veg fyrir áfengisnautn á slíkum stöðum, eins og t. d. kaupmenn í sölubúðum, þá væri það stór réttarbót. Inn á slíka staði þar nyrðra koma oft á sumrin fjöldi útlendinga, og hafa með sér í vösunum svo sem eina eða tvær; rommflöskur, sem þeir hafa keypt sér áður; þeir biðja svo um eina eða tvær flöskur af sódavatni eða öli og sitja svo yfir þessu klukkutímunum saman og, koma út blindfullir. Þetta væri gott að yrði fyrirbygt, og það ætti að gerast með því, að skylda húseigendurna til þess að koma í veg fyrir það; sumir þeirra gera það reyndar nú, en sumir ekki, og það ef til vill af því, að þeir vilja nota þennan sið útlendinga til blóra, til þess að geta rekið ólöglega áfengissölu.

Eg vildi nú skjóta því að hv. flm., hvort hann vilji ekki fá málið tekið út af dagskrá nú, og verði svo gerðar br.till. við 1. og 2. gr. Úr hinu geri eg miklu minna, að frv. gangi nærri stj.skr. og að hegningin fyrir brot á því sé ekki rétt mæld. Þótt eg reyndar, leggi mikið upp úr því, að hegningarramminn sé hafður sem víðastur. Afbrotamenn eru margskonar og ólíkir mjög og komast fáir undir sama hugtak, þótt brotin séu talin hin sömu. Þess vegna er nauðsynlegt að lögreglustjórinn hafi nóg svigrúm til þess að taka tillit til þess, sem sérkennilegt er hjá hverjum og einum, annars verður hann oft bundinn við að gjöra það sem hann álitur rangt.