27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Framsögumaður (JónMagnússon):

Eg verð að segja það, að eg sé ekki ástæðu til þess, að taka þetta mál út af dagskrá, því að það má láta líða hæfilega langan tíma milli 2. og 3. umr. og þá er nógur tími til þess fyrir nefndina, að taka til athugunar væntanlega br.till. Um orðin „Ekkert félag“ o. s. frv., er það marg sagt, að þau ná að sjálfsögðu lengra en þau í raun og veru eiga að gera í framkvæmdinni, en það hefir líka verið tekið fram, að þau hafa verið látin ná það í því trausti, að það gerði ekkert til vegna takmörkunarinnar, sem felst í niðurlagsorðum greinarinnar um leyfi lögreglustjóra. Ef einhver hv. þm. vildi benda á annað orðalag, sem jafnframt væri svo, að ekki væri hægðarleikur að komast í kringum það, því að þann kost hefir þetta orðalag, að í kringum það verður ekki farið. (Lárus H. Bjarnason: Svo!). Nei, eg þykist þekkja svo vel til hér um slóðir. Ef sem sagt t. d. einhver lögfræðingur deildarinnar vildi gera þetta, þá yrði það auðvitað þakksamlega þegið, en eg hefi ekki orðið þess var hingað til, að aðrir háttv. þm. hafi fundið neitt slíkt orðalag. Það er satt, að þetta frv. er aðallega gert fyrir þennan bæ, en sjálfsagt er að taka til greina allar breytingar er að gagni mættu verða, hvort heldur hér eða annarsstaðar. Eg hygg að vísu að bæjarstjórnin hér hafi óskað þess, að þetta mál fengi sem fljótastan framgang, en þó vil eg ekki sækja það fast, að því sé flýtt svo til 3. umr., að ekki gefist kostur á að koma með brt., og mun nefndin taka þeim með þökkum, ef góðar eru, en hins vegar ekki staðlausum aðfinningum.