02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Guðlaugur Guðmundsson:

Úr því að nefndin er ekki mótfallin br.till. þeim, sem eg hefi flutt fram, þá þarf eg ekki að mæla fyrir þeim mörg orð. Það hlýtur öllum að vera ljóst, hver nauðsyn er til þess, að ákvæði um efni slíkt sem hér er um að ræða, séu skýr og auðveld í framkvæmd. Eg hygg og að engum, sem les br.till. mínar, geti dulist, að þær gera frv. ljósara og skýrara.

Háttv. framsögum. (J. M.) sagði, að br.till. gengju lengra en frv. Um það skal eg ekki dæma, en mér finnast brt. miða að því sama sem frv.

Samkv. 1. gr. frv. mega félagsmenn hafa áfengi um hönd alstaðar nema í hinum föstu félagsherbergjum, og geta í því haft það í borðstofu, svefnherbergi í forstöðumanns eða því um líkt, því eg geri ráð fyrir að hann hafi áfasta íbúð við félagsherbergin. Þetta. getur orðið bending um, hvernig fara megi í kringum ákvæði frv. og gerir þau næsta þýðingarlítil. Hér er br.till. skýrari.

Það má vera að brt. okkar við 2. gr. fari lengra en frv., en það var með vilja gert. Það vakti fyrir okkur, að banna með sem skýrustum orðum að áfengi sé haft um hönd á veitingastöðum sem hafa ekki veitingaleyfi, og ástæðan til þess er sú, að það mun ekki fátítt eins og eg áður hefi vikið að, að i menn kaupi sér vín í búðum og fari með það inn á veitingahús eða kaffihús og drekki það þar. En í blóra við það getur veitingamaður selt áfengi án þess hægt sé að sanna hann að sök. Háttv. framsögum, (J. M.) hneykslaðist á orðunum „eftir atvikum“ í brt. okkar við 3. gr. Það má vera, að þessi orð séu í lagatexta líkt og hortittur í vísu, en þau hafa samt sína þýðingu, því að það getur verið undir atvikum komið, hvort neytendur eru sekir eða sýknir. Orðin þýða bara: „ef neytendur bera ábyrgð á broti“. Um niðurlagið á 3. brt. skal eg benda á að þar stendur má; það er því ekki skylda lögreglustjóra að banna félögum samkomur, og er ráð fyrir gert að það verði eigi gert við fyrsta brot. Enda mundi það ekki gert nema um veruleg brot sé að ræða. Það er ekkert á móti því að gefa lögreglustjóra þetta vald. Hann mun í flestum tilfellum fara eftir almennings álitinu í þessum efnum.

Brt. við 4. og 5. gr. eru smávægilegar. — Eg get endað á því sem eg tók fram áðan, að eigi að setja ítarlegri reglur um þetta mál, en eru í lögunum frá 1899, þá er rétt að taka sporið til fulls og setja ákvæði sem annarsvegar er auðvelt að framkvæma, en hins vegar koma í veg fyrir þá misbrúkun sem menn vilja hnekkja.