02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg sagði ekki að orðin „eftir atvikum“ væri hortittur, en að engin bending væri um hvað þau ættu að þýða. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Ak. (G. G), að brt. hans fari ekki lengra en frv. En hitt er rétt, að það tekur út yfir miklu meira. Dæmi hans um að áfengisnautn geti samkv. frumv. átt sér stað í prívatherbergjum forstöðumanns, var ekki heppilegt, því það er heldur ekki bannað eftir brt. hans. Ef hann væri formaður í slíku félagi, gæti hann vel tekið félaga inn til sín og veitt honum áfengi þar. En það sem tilgangurinn var með frumv., var að hnekkja því, að hægt væri að setja upp reglulegan veitingastað og reka þar veitingar undir félags nafni, en til þess þarf föst herbergi. Það er því ekki rétt að halda því fram að brt. fari ekki lengra en frv. Þær fara miklu, miklu lengra. En hitt má vera satt, að hægra verði að framfylgja lögunum ef frv. verður breytt þannig.

Vegna þess að fundið hefir verið að málinu á frv., að það væri ekki nægilega glögt, skal eg geta þess, að eg bar það undir íslenzkukennarann við mentaskólann og bað hann segja mér hvort kann findi nokkuð að því, og sagði hann að eg mætti hafa eftir sér, að hann gæti ekkert að því fundið. Það má vera að einhverjum finnist það stirt, en sennilega er sá galli á fleiri frv. en þessu. — Eg man ekki annað sem eg þyrfti að taka fram. Okkur ber ekki mikið í milli, en flutnm. br.till. hafa bara verið mikið hugaðri en eg, farið talsvert lengra og leggja fullmikið á vald lögreglustjóra.