02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Framsögum.(Lárus H. Bjarnason):

Út af því sem hæstv. ráðherra sagði, að maður þyrfti að hafa meiri tekjur eftir að hafa verið ráðh., þá er það undir því komið, hvort hann álítur sig fínni eftir en áður. Eg verð að álíta að maður sé ekki finni, eða þurfi að halda uppi nokkurri risnu eftir að hafa verið ráðh., og svo mun víðar vera á litið. Það þarf ekki annað en benda til Noregs og minna á Lövland. Ekki þóttist hann fínni en það, eftir að hann hafði verið ráðh, að hann tók að sér Toldskriver-embætti, og þykir það ekki neitt sérlega fín staða.

En ef einhver maður hefir staðið sig svo vel í stöðu sinni sem ráðherra og unnið landinu svo mikið gagn að hann sé sérstakrar viðurkenningar verður, þá getur þingið veitt honum nokkurskonar gratiale eins og þegar það veitti Jóni Sigurðssyni 3.200 kr. heiðurslaun, 1.875 að mig minnir.

Skilningur hæstv. ráðh. (H. H.) á 2. málsgr. 1. gr. er gersamlega rangur, svo sem sýnt hefir verið, enda vona eg að hann verði nefndinni sammála við nánari athugun og hjálpi til að fleyta frv. til 3. umr.