02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Bjarni Jónsson:

Það er mælt að þetta frv. sé ilt vegna þess, að ef það nái fram að ganga megi ekki veita ráðherrum hærri eftirlaun framvegis, en þar eru til tekin, þótt þeir væru þess maklegir. Þetta er ástæðulaust, því að þingið gæti gert slíka undantekningu, hvenær sem það vildi, eins fyrir því, þótt þótt það hafi samþykt þessi lög. Aðrar mótbárur gegn þessu frv., sem vit er í, eru allar um formatriði, eins og t. d. sú, sem líka kom fram 1909, að þetta væri of nærgöngult stjórnarskránni. Eg skal nú ekki blanda mér í deilur lögfræðinganna um það efni, en verð þó að vera á þeirri skoðun, að rétt sé að minka ráðherraeftirlaunin nú — því að það er þó að minsta kosti leyfilegt, — þangað til unt verður að afnema þau, alveg, því að það álít eg rétt. Og það sem þó ekki var brot á stj.skr. 1909, það getur ekki heldur verið það nú, því að hún hefir ekki breyzt síðan.

Svo skal eg drepa lítið eitt á þær aðfinslurnar, sem ekkert vit er í, og komið hafa frá hv. þm. Sfjk. (V. G.) Hann vill nú skera þetta frv. niður af því að annars staðar vilji menn setja alla á eftirlaun. Það viljum við reyndar líka hérna, en hitt viljum við ekki, að nokkur sérstakur flokkur manna sé betur settur að þessu leyti, en allir aðrir. Réttlætistilfinning Íslendinga heimtar það, að þeir séu allir jafnt settir í því, að njóta ellistyrks, því að alþjóð manna er enn ekki farin að kannast við það, að hér séu til neinir tveir mismunandi flokkar manna. Hér eru annaðhvort allir höfðingjar, eða enginn, og þessu fylgja þeir, sem á þingi berjast fyrir afnámi eftirlauna.

Þá var talað um að þetta mundi verða til þess, að ráðherrar mundu stritast við að sitja, og vinna þá tjón, ef þeir fengi eigi eftirlaunin, af því að einn ráðherra á að hafa gert mikið slíkt af sér á einni klukkustund. Til þessa liggur það svar, að það er ekki gott að vita hvar þessar dýru klukkustundir lenda á ráðherraæfinni, þær gætu eins vel orðið í byrjun hennar og endi. Hins er líka að geta, að vér eigum þess engi dæmi enn þá, að ráðherra hafi eigi hlýtt þingviljanum í því, að víkja úr völdum þegar þingið vildi, og eg vona að þess verði langt að bíða, að nokkur ráðherra þori það. Hina hliðina hefir hv. þm. ekki litið á, að meðan þessi eftirlaun haldast, þá gæti það verið ágætt gróðabragð að vera ráðherra, vera það svo sem hálfan mánuð og taka sér svo „frí“, og hafa þá dálítið til að bíta og brenna, og þessu er eg ekki meðmæltur. Ef t. d. háttv. þm. Sfjk. (V. Gr.) eða einhver annar færi á hausinn með stóra verzlun, þá gæti þetta verið notalegt fyrir hann. Annars má vel vera að það hafi vakað fyrir honum, að það væri leiðinlegt, ef jarlinn yrði eftirlaunalaus, þegar hann kemur.