02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Eg tek mér það ekki nærri, þótt háttv. þm. Sfjk. (V. G.) segi, að þetta sé fyrir kjósendur, það er mér blátt áfram sama um. Þetta frv. er ekki í þeim tilgangi gert, og — enda þótt svo væri, þá væri slíkt þó ekki dæmalaust. Það mætti meira að segja benda á dæmi úr lífssögu hins háttv. þm. sjálfs því til sönnunar. Enda er oft ekki verra að fylgja fram skoðunum umbjóðenda sinna, en öðru, sem fylgt er. Hann var að tala um að það væri rangt að afnema eftirlaun. Eg hefi aldrei sagt það rétt vera, en það er sitt hvað, að vilja afnema öll eftirlaun, eða vilja lækka óþarflega há eftirlaun bráðabyrgðaþjónustumanns eins og ráðherra er í þingfrjálsu landi. Svo hélt hann að embættislausir menn, sem verða ráðherrar, mundu verða eitthvað óútgengilegir, þegar þeir kæmu úr þeirri stöðu. Já, ef þeir hefðu reynst ónytjungar, en annars ættu það heldur að vera meðmæli með þeim, til hvers sem væri, að hafa haft þá stöðu, enda mætti vafalaust oft halda stöðunni opinni, meðan maðurinn væri ráðherra.

Enn var hann hræddur við að ráðherra mundi streitast við að hanga sem lengst í embættinu, ef það væri eftirlaunalaust. Eg held að sumir ráðherrar mundu streitast við að hanga, hvort sem þeir eiga von á háum eftirlaunum eða ekki. En annars er eg ekkert hræddur við þetta, því að ráðherra skortir hér til þess það áhald, þann bakhjall, sem sem til slíks þarf, sem sé vopnað vald. Og mér er sem eg sjái þann ráðherra, sem þorir að sitja hér eftir, þvert ofan í vilja meiri hluta þings. (Jón Ólafsson: Og svo ábyrgðarlögin). Ojá, til eru þau, þótt betur mundu þau hafa bitið ef landsdómslögin hefðu ekki verð- ið skemd frá því sem hið upprunalega frv. var. Önnur eins hneixli og silfurbergsmálið geta hent hátteftirlaunaðan ráðherra ekki síður en lágteftirlaunaðan eða óeftirlaunaðan, svo sem dæmin hafa sannað.

Þm. sagði, að ef vér vildum vera sjálfstæðir, þá yrðum vér líka að taka afleiðingunum af því. Já, rétt er það, en aðeins þeim nauðsynlegu, en afleiðingarnar, sem hér er um að ræða, fara fram yfir það. Ráðherraeftirlaunin eru nú þegar orðin um 21 þús. kr. á rúmum 3 árum. Lang mest af þeirri upp- hæð hefði mátt og átt að spara, og eftlaun hins ráðh. eru 960 kr. hærri árlega heldur en þau hefðu þurft að vera.

Hann átti tilkall til 2.040 kr., en skamtaði sér sjálfur 3.000 kr.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) vildi gefa í skyn að frv. færi að óþörfu betur með þá ráðherra, er hefðu verið embættismenn, heldur en með þá, er orðið hefðu ráðherrar upp úr embættisleysi. Þetta er að nokkru leyti rétt, en að sumu leyti rangt og villandi. Báðir fá eftirlaun samkvæmt frv. fyrir að hafa verið ráðherrar, en fyrverandi embættismaður fær meir, af þeirri sára einföldu ástæðu, að lögin gœtu ekki tekið af honum þann eftirlaunarétt sem hann kynni að hafa unnið sér áður, þó að svo væri beint áskilið í lögunum. Dómstólarnir mundu dæma honum þann rétt þrátt fyrir lögin. Hér er því ekki um misrétti að ræða, heldur um lagalega nauðsyn.