08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Bjarni Jónsson:

Eg vil leyfa mér að taka það fram, að eg er alveg sömu skoðunar í þessu eftirlaunamáli og eg var á þinginu 1909, þegar eg ásamt öðrum hv. þm. bar fram frv. um afnám eftirlauna ráðherra og eg held fast við það, að það er ekkert stjórnarskrárbrot, þótt öll eftirlaun verði tekin af honum. Í stjórnarskránni stendur að eins að laun og eftirlaun ráðh. skuli goldin úr landssjóði og það, að eftirlaunalögin hafa alls ekki náð til ráðherra sést á því, að þingið sá sig knúð til þegar það vildi veita ráðherra eftirlaun, að setja inn í lögin frá 1903 um æðstu umboðsstjórn á Íslandi, sérstaka gr., sem ákvað að eftirlaun ráðh. skyldu vera reiknuð eftir hinum almennu eftirlaunalögum. Þess vegna þarf ekki annað en fella þessa gr. laganna frá 1903 burtu til þess að taka öll eftirlaun af ráðh. Það er því jafnhlægilegt að vera að tala hér um stjórnarskrárbrot og þegar hv. þm. Sfjk. (V- G.) var að tala um stjórnarskrárbrot á seinasta þingi. Hann nefndi það dæmi, að ákveðinn maður hefði af þinginu verið útnefndur viðskiftaráðunautur. Veit hv. þm., sem setið hefir á mörgum þingum, að það er mjög algengt að þingið bindi fjárveitingar við nöfn, bæði mentaskólakennurum o. fl. Eg efast alls ekki um það. En svona er það, þegar eitthvað er gert, sem þessum háu herrum mislíkar þá er hrópað upp um stjórnarskrárbrot og aðrar firrur. Þessi sundurliðun þessa útienda manns á löggjafarvaldi, umboðsvaldi og dómsvaldi var alveg rétt, en hún kemur þessu máli alls ekkert við.

Að lokum skal eg lýsa yfir því, að eg greiði þessu frv. atkvæði mitt og hverju öðru er í sömu átt fer. Réttast þykir mér að taka öll eftirlaun af embættismönnum og láta þá sjá um sig eins og aðra menn. Fáist enginn í embætti þá er ekki annað fyrir en að hækka launin. En fyrst held eg að sé bezt að sjá til. Eg býst við að margir mundu sækja þótt þeir ættu víst að fá engin eftirlaun og við þyrftum ekki að fara að leita út fyrir landsteinana að dönskum embættismönnum. Annars skal eg ekki lengja meir umræðurnar, en vænti þess að þetta frv. verði samþykt.