23.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

19. mál, verðtollur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er svo með mig, að eg er tollafjandi mikill. En þegar svo sérstaklega stendur á, að það er ekki einungis þörf heldur brýn nauðsyn að fylla landssjóðinn, verður að gera fleira en gott þykir. Sjálfsagt er að vísa frv. til skattamálanefndar. Eg heyrði að hv. flutnm. (L. H. B.) gerði ráð fyrir að lög þessi giltu ekki lengur en þrjú ár — til ársloka 1915. Slíkt má setja á pappírinn, en eg tel engan vafa á því, að þeim verði lengra aldurs auðið, því að án gjalda í landssjóð getur maður ekki verið. Svo illa sem mér er við þetta frv. og önnur lík, sem leiða til þess að setja þarf fjölment tolllið um land alt, tel eg það þó betra en frv. skattamálanefndarinnar. Sú rekistefna er þó útilokuð, að skoða niður í töksur ferðamanna, hverja skrínu og hvern pinkil sem þeir hafa meðferðis.

Af því að eg býst við að lög þessi verði eldri en hér er gert ráð fyrir, hefi eg hugsað mér önnur ákvæði um gjaldið. Frv. tiltekur 3 af hundraði. Eg vildi að stjórninni væri heimilað að færa gjaldið til eftir þörfum landssjóðs.

Það sem verst er við þetta frv. er það, að mjög er hætt við því, að menn freistist til að svíkja reikningana, setja verðið lægra en það í raun og veru er, og yrði þá gjaldið nokkurs konar verðlaun handa þeim sem óráðvandastir eru að gera úr garði faktúruseðla. En vonandi er að takast megi að varna því að talsverðu leyti.

Allri 3. greininni verður að breyta. Það er óhæfilegt að kyrsetja vörur þó að faktúru vanti. Mér er vel kunnugt, þar sem eg hefi rekið verzlun um mörg ár, að það er alvanalegt, að vörur koma með einu skipi en faktúra með öðru. Komi það tvisvar fyrir sama manninn, að faktúra fylgi ekki vörum hans, á hann auk þess sem vörurnar eru kyrsettar, að sæta sektum, og hendi það þrisvar eru vörurnar auk þess gerðar upptækar. Með þessu er eignarréttinum herfilega misboðið. Setjum svo að eg fái kassa með eplum, perum eða öðrum ávöxtum og dregist hafi að senda mér reikninginn eða hann misborist í pósti, sem títt er. Þegar öll rekistefnan er um garð gengin, eru ávextirnir ónýtir. Margar aðrar vörur skemmast á stuttum tíma.

Þá er 4. greinin athugaverð. Vel getur staðið svo á að maður hafi komist að góðum kaupum á einhverri vöru erlendis t. d. á uppboði. Þegar reikningurinn kemur, þykir verðið ótrúlega lágt. Varan er kyrsett og fyrirspurn gerð um markaðsverð á þeim stað, sem varan var keypt. Það reynist talsvert hærra, og fyrir það verður manninum að blæða. Þá var betra ákvæði Frakka, meðan þeir höfðu þetta í lögum. Ef verð á einhverri vöru þótti ótrúlega lágt, hafði landssjóður heimild til að taka vöruna fyrir það verð, er á faktúrunni stóð, og selja hana fyrir landssjóðs reikning. Eg vildi sérstaklega benda á þessa aðferð.