12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

19. mál, verðtollur

Framsm. minni hlutans (Björn Kristjánsson):

Eg er eiginlega ekki vel tilbúinn að tala nú, eg hafði búist við að háttv. flutningsmaður færi nákvæmar út í málið og færði rök fyrir br.till. Eins og háttv. deild hefir séð, þá er nefndin skift í 2 mjög svo misjafna parta, eg einn í minni hluta en 6 í meiri hl., en þar fyrir hefir als ekki verið vont samkomulag í nefndinni. Nefndin hefir rætt þessi mál í bróðerni og eru bæði frv. komin fram eftir samkomulagi til þess að háttv. deild geti skorið úr hvoru þeirra hún vill hafna.

Eins og eg gat um við 1. umr. þessa máls, þá er það aðallega þrent sem menn þurfa að hafa fyrir augum, þegar á að leggja á mikla tolla, eins og hér er gert ráð fyrir. Í fyrsta lagi að tollarnir komi áreiðanlega í landssjóð. Í öðru lagi að tollheimtumennirnir hafi sem minst fyrir að innheimta tollinn, af því að þar sem lagður er tollur á alla vöru, þá hlýtur fyrirhöfnin að vera misjöfn eftir því hvernig tollinum er fyrirkomið í lögunum. Í þriðja lagi, að þegar hér eru lagðir á tollar, að ekki séu eltar útlendar hugmyndir og ekki farið eftir útlendu tollfyrirkomulagi, því að landið er stórt og fáment og hér höfum vér enga tollgæzlu. Hér mætti raunar bæta við fjórða atriðinu, sem sé því, að taka tillit til þess hve auðvelt yrði að endurskoða tollreikningana; það finst mér eg hafa tekið nægilega vel fram áður og vil eg í því efni leyfa mér að vísa til nefndarálits míns á þgskj. 174. Báðir partar nefndarinnar hafa stefnt að sama marki, með það að búa til lög, sem miðuðu að því að taka þessi höfuðatriði til greina, en niðurstaðan hefir þó orðið ólík með því að annar hlutinn vill leggja tollinn á eftir þunga vörunnar, en hinn hlutinn vill leggja tollinn á eftir verðmæti vörunnar. Hefi eg bent á í nefnaráliti mínu hversu auðvelt yrði að fara í kring um þessa síðarnefndu aðferð, sem háttv. meiri hluti fer fram á í frv. sínu. Bæti eg því við það, sem stendur í þessu áliti mínu, að sé kaupmaður hygginn, sem gera má ráð fyrir, og sé hann vanur tolleftirliti annarstaðar, þá telur hann það enga óguðlega synd þó hann steli undan tolli, eins og alment tíðkast hjá erlendum kaupmönnum. Þeim þykir sumum hverjum jafnvel syndlaus leikur að fara í kringum tollgæzluna þar sem hún er. Og það eru þegar dæmi þess, að útlendir kaupmenn hér steli undan tolli. Þó að nú t. d. tollheimtumaður skoði faktúru hjá kaupmanni, þá er þó engin sönnun fyrir því að það sé sú rétta faktúra sem honum er sýnd, sakir þess, að kaupmaður getur auðveldlega fengið 2 innkaupareikninga, annan með dýru verði, en hinn með ódýru verði, síðan getur hann auðveldlega sýnt þann reikninginn sem minna verð er á og er ómögulegt að véfengja réttmæti hans þegar tollgæzlumanni er ekki ætlað að opna umbúðir varanna og bera þær saman við reikninginn. Nefndin tók það fram í áliti sínu, að það væri helzt á móti þungagjaldinu, að gjaldið kæmi mest á nauðsynjavörur, en þetta er als ekki rétt. Gjaldið, eða tollurinn, kæmi, eftir báðum frv., jafnt niður á nauðsynjavörur, það yrði, hvort frv. sem samþykt yrði her um bil 1/5 af öllum tollinum, sem legðist á kornvörurnar, ef 25 aura tollur er lagður á hver 50 kílo, en minna ef gjaldið á kornvörum yrði lækkað. Nefndarálit meiri hlutans segir, að falsa megi farmskrá, og véfengir að hún sé ábyggileg, þrátt fyrir þau rök í gagnstæða átt sem eg hefi komið fram með og þrátt fyrir það þótt kaupmannaráðið hér, hafi tvímælalaust sagt farmskrár ábyggilegar. En það getur að eins komið fyrir í Leith, þegar skip eru mjög full, að þar verði eitthvað lítilsháttar eftir sem á farmskrá hefir verið sett, en þetta kemur þó mjög sjaldan fyrir, en vilji það til, þá er tafarlaust símað hingað um það, og vita menn þá, áður en flutningsskipið kemur, hvaða mikið af vörum hefir orðið eftir; þetta er til að sanna það, hve ant mönnum er um það að farmskráin sé rétt og að afgreiðslumaðurinn telur það ekki ábyrgðarlaust að hún sé röng. Það hefir verið talið ástæðulaust af mér, að segja að tollsvik kæmu fyrir, en þess eru þó mörg dæmi, ef menn vilja renna augunum yfir fyrirfarandi ár.

Háttv. meiri hluti segir að keppinautar geti orðið hvor öðrum skeinuhættir með að koma upp tollsvikum hvor um annan. Þetta er langt frá því að vera rétt, því að allir vita að það er ekki vani kaupmanna að vera að bekkjast þannig til hver við annan og elta hvern annan þannig uppi.

Eg hefi líka tekið það fram í nefndaráliti mínu, að ef kaupmaður hefir náð í sambönd við útlönd og það oftast með mikilli fyrirhöfn, að þá er það mjög áriðandi fyrir hann að geta haldið sínum samböndum leyndum, en eftir fyrirkomulagi háttv. meiri hluta er kaupmaður skyldur að sýna reikninga sína lögreglustjóra, eða ef lögreglustjóri er ekki við, þá umboðsmanni hans eða skrifara. En þetta er þvert ofan í viðurkend réttindi einstaklinga að geta haldið samböndum sínum heimulegum. T.d. er það álitin helgasta skylda allra pósthúsa erlendis, að þegja um það hvaðan maður fær bréf og við hvern menn eiga bréfaskifti; eins er með banka, þeir þegja vandlega um öll viðskifti sem fram fara gegn um þá. Eg benti á í nefndarálitinu um farmtoll, að erfitt mundi verða að heimta inntollinn eftir verðmætisfyrirkomulaginu; til dæmis innheimta þetta gjald frá ca. 130 mönnum, sem fá vörur með einu og sama skipi, og allir eru búsettir í Reykjavík; það yrði afar mikil fyrirhöfn að þurfa að fara til hvers eins og heimta að sjá hjá honum reikninga hans, sem geta verið margir, því reikningarnir eru venjulega miklu fleiri en viðtakendurnir. Síðan á að fara að meta tollinn eftir þessum margbrotnu gögnum, sem ekki er þó einu sinni vist að séu áreiðanleg. En eftir þungavörufrv. er tollheimtumaður alveg laus við alt þetta vastur; þá er ekki annað en að skrifa þegar í stað reikninginn til kaupmannsins eftir farmskránni og er starfið þá þar með búið. Það hlýtur að vera öllum ljóst hve óbrotin og fljótleg síðarnefnd aðferð er. Háttv. meiri hluti nefndarinnar talar um að leggja verðtollinn á innkaupsverð vörunnar. Frá verzlunar sjónarmiði þá geta verðin verið tvö. Annað verð umboðsmanns, sem pantar vöruna fyrir kaupmann, hitt verðið kaupmannsins sem við vörunni tekur. Eftir hvoru innkaupsverðinu á að greiða verðtollinn ? Að br.till. við verðgjaldsfrv. séu til bóta vil eg ekki hafa á móti, en af því að grundvöllurinn er óábyggilegur þá verður frv. þó alt að einu óábyggilegt. Það er t. d. hvergi gert ráð fyrir því í frv. að vörur geti skemst. Oft kemur það líka fyrir að ákafir agentar senda vörur hingað óbeðið og sá sem við á að taka neitar að taka við. Á þá, eftir frv. hv. meiri hluta, að greiða toll af vörunni? Það kemur og fyrir að bankar endursenda vörur, þær sem þeim er falið að innheimta borgun fyrir, af því að viðtakandi getur ekki greitt þær. Þessu er hvergi gert ráð fyrir hjá háttvirtum meiri hluta, en minni hlutinn hefir aftur á móti gert ráð fyrir því.

Yfir höfuð verður innheimta mjög erfið eftir þessu frv. (verðtollsfrumv.). Það er altítt, að reikningar koma ekki með vörunum, koma ef til vill ekki fyr en fleiri mánuðum seinna en vörurnar; þá er ekki annars kostur fyrir innheimtumennina en meta vörurnar og láta setja veð fyrir, eins og hv. meiri hluti hefir hefir lagt til í brt. sínum. Þetta er töluvert ómak, sem hjá mætti komast, ef tekinn væri þungatollur.

Mig furðar á því að í 7. brt. á þgskj. 188 er kveðið svo á: „Nú þykir verð á vöru óeðlilega lágt, og skal þá meta vöruna á sama hátt sem segir í 3. gr.“ Hvernig á nú innheimtumaður að fá réttmæta ástæðu til að láta mat fram fara þegar hann hefir enga hugmynd um hvers virði varan er? Eg fæ ekki séð annað, en að þetta sé óhafandi ákvæði. Sama er að segja um síðara ákvæðið í sömu brt., „nú sýnist verð í kaupreikningi sett of lágt“. (Lárus H. Bjarnason: „Sýnist“ er prentvilla fyrir „reynist“). Ef það er prentvilla, þá fell eg frá að gera athugasemd um það.

Enn fremur er ætlast til þess eftir frv., að pósthúsið annist tollheimtuna; það gerir kostnaðinn margfalt meiri en farmgjaldsfrv. mundi gera hann, auk þess ómaks og kostnaðar, sem stafar af mati og tryggingu sem setja á.

Hv. framsögum. (P. J.) var með skýrslu sem átti að sýna, að tollur eftir vigt væri ranglátari en verðtollur. Eg verð að telja þær tölur mjög óábyggilegar. Hann fann að því, að of hátt gjald yrði á sápu og sóda eftir farmgjaldsfrv. En það er athugandi, að enginn verzlar eingöngu með þær vörur. Eg bið að athuga það, að aftan af áætlun minni hefir fallið áætlun um farfavörutollinn; af þeim mundi tollurinn nema um 2500 kr., sem mundi svara til ca. 31/2%.

Eftir mínu frv. er gjaldið yfirleitt heldur lægra en verðtollsfrv. á matvöru, kr. 2,50 100 kíló eftir þungatollinum, ef meðaltal er tekið, en kr. 2,88 eftir verðmætisleiðinni. Viðvíkjandi kartöflum er það að segja, að prentvilla er í áætluninni, 1 kr. fyrir 25 á hver 50 kíló, enda er auðséð á útkomunni, að svo er til ætlast, að þar standi 25 aurar.

Það er yfirleitt of mikið gert úr því, hvað mitt frv. komi verr niður heldur en hitt, og sagt, að einkum komi það ver niður á nauðsynjavörum. En halda menn þá, að kaupmaður, sem er að leggja verð á vörur sínar, fari eftir því, í hvaða flokki þær eru eftir lögunum og jafni tollálaginu niður eftir því? Ef menn halda það, er það alger misskilningur. Hver kaupmaður mundi jafna niður á vörurnar gjaldinu yfirleitt. Þannig fellur alt hjal í burtu um það, að frv. mitt komi verr niður en hitt.

Það hefir nú verið talað um bæði frv. samtímis. Eg vil taka það fram, að mér er mitt frv. ekki neitt kappsmál, en vegna þess að um það frv. hefir verið þráttað allmikið á undanförnum þingum, hefi eg viljað, að það kæmi fram fyrir þingið með nánari skýringu á því, hverning slíkt fyrirkomulag mundi reynast í framkvæmdinni.

Eg hefi komið með nokkrar br.till. á þgskj. 174. Fyrst og fremst, að fyrirsögninni sé breytt og því samhljóða alstaðar þar sem kemur fyrir „alment verzlunargjald“, komi „farmtollur“. Þar næst er við 1. gr. lagt til að hækka úr 50 a. upp í 1 kr. toll af öllum öðrum vörum en nauðsynjavörum: kornvörum o. s. frv. Járnvörur hefi eg lagt til að taka í 25 aura flokkinn, það er vegna járnsmiðanna; þeir kaupa svo lítið af öðrum vörum en járni, og kæmi því hið upphaflega gjald of þungt niður á þeim. Það var fundið að því í nefndinni, að of lágt gjald væri á vefnaðarvörum. Eg hefi ekki á móti, að það sé hækkað úr 1 kr. upp í 3 kr. hver 50 kíló, og mætti koma með br.till. um það. Eins væri rétt að létta á útgerðarmönnum, sem borga toll bæði af kolum og salti, svo að þeir t. d. losnuðu við toll af salti. Yfirleitt er eg fús til allra breytinga, sem eru til bóta.

Eg vona, að menn sjái að þungatollsfrv. er tryggara. Gjaldið kemur fremur til skila og endurskoðun er ábyggilegri. Eg skal að endingu geta þess, að þyngdin á vefnaðarvörunni er ekki rétt tilfærð í áætlun minni, á að vera rúm 400 þús. kíló, í stað 281020, og tollurinn af þeim því á níunda þúsund, ef miðað er við 1 kr. gjald.