13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

19. mál, verðtollur

Guðlaugur Guðmundsson:

Það er sannkallaður neyðarkostur að þurfa að tala og greiða atkvæði um svona löguð stórmál eins og þetta, þegar þeim er dembt inn á þingið undirbúningslaust. Og það liggur hneyxli næst að ætla þingi, sem situr einar sex vikur að starfi sínu að undirbúa, semja, ræða og afgreiða slík stórmál. Þetta er auðvitað afleiðing af því, að undanfarin ár hefir alt verið á ringulreið í fjármálum vorum, og þau eru enn óhugsuð og óundirbúin. Það er enginn efi á því — það er lýðum ljóst — að þessi botnlausu fjárhagsvandræði, sem við erum komnir í, eru að miklu leyti, — þótt ekki sé það að öllu leyti, — að kenna samþykt aðflutningsbannslaganna á þinginu 1909 og það er vafalaust að sú stjórn og sá flokkur, sem dembdi þessum lögum á þjóðina lítt undirbúna, var siðferðislega skyldugur til þess að sjá fjárhagnum einhvern farborða um leið. En það hefir ekki verið gert og því erum við komnir í þessar ógöngur. Þingið 1911 setti raunar nefnd til þess að athuga og koma með tillögu í skattamálum vorum en batt hendur þeirrar nefndar um leið. Tillögur þessarar nefndar hafa ekki fundið náð fyrir augum þingsins — eg skal ekkert dæma um það, hvort þær hafa átt það skilið eða ekki — en aðal sökin til þeirra fordóma, sem þessar tillögur hafa átt að sæta, er hjá þinginu. Eg vil enn þá einu sinni slá því föstu, að ástandið eins og það er, er glapræði, fljótfærni og úrræðaleysi undanfarinna þinga að kenna.

Þetta aukaþing, sem nú situr að störfum sínum, hefir sett nýja skattamálanefnd, „ílátið“, sem svo hefir verið kölluð, en sú nefnd virðist mér ekki hafa fundið neina verulega heppilegri leið, en „kolanefndin“, sem hefir sætt svo hörðum dómum.

Nú liggja fyrir 2 frv. Um annað þeirra er játað af flutningsmanni, að það sé ranglátt, og um hitt er það játað, að það ali upp svik í landinu. Þegar því er svo farið með bæði þessi frv., þá gerir hvert það þing, sem fer að burðast með þau, sig að viðundri og angurgapa.

Hvað verðtollinn snertir, sem allir geta svikið, skal eg taka það fram, að jafnvel þótt „principið“ sé í sjálfu sér ekki óheilbrigt, þá er allur umbúnaður þess svo vaxinn, að ekki er hægt að hafa neitt eftirlit með, að réttar skýrslur komi fram. Það er játað, að áreiðanlegt sé, að ekki komi öll kurl til grafar. Þeir, sem heiðarlegir eru borga, hinir svíkja. Undir þann leka er ekki sett, þrátt fyrir það, þótt þessi skattamálanefnd, „ílátið“, sem alt er látið í, en engu er skilað úr, hafi farið um það höndum og loksins borið það fram.

Annars lái eg ekki nefndinni, þótt verkið sé ekki betra en þetta, því að málið er alls ekki meðfæri þingnefndar, sem hefir mikið að gera á stuttum tíma. Um einstaka atriði þessa frv. skal eg geta þess, hvað verðtollinn snertir, að það hefir alls ekki verið nefndinni ljóst, að innheimtumaður verður að hafa vald til þess að fá öll skjöl og skýrslur um það, hverjir flytji inn og þau skjöl verður hann að fá áður en byrjað er að flytja vörur úr skipi. Það vantar í frv. grein, sem samsvari 4. gr. í farmgjaldsfrv. um skyldu skipstjóra til þess að afhenda strax öll skjöl, — þar á meðal manifest — og forboðið sé að opna lest áður en þau skjöl séu fengin. Nefndin virðist byggja þetta á því, að hún heldur að lögreglustjóri geti altaf heimtað „manifest“. Hvað viðvíkur skipum frá Danmörku, Englandi og Hamborg, þá hafa þau altaf sérstakar tollskrár, sem eru vottaðar af dönskum konsúlum og ekki rannsakaðar frekar. Þau skip afhenda aldrei „manifest“. Hafi þau afgreiðslu hér á landi, þá fá þær raunar „manifestin“, en afhenda þau ekki fyr en í hver árslok og þá sem fylgiskjöl með hagfræðisskýrslunum. Norsk skip hafa með sér „Toldpas“, vottuð af dönskum konsúl, en eru ekki skyldug til þess að afhenda þau. Það er því auðsætt, að þesskonar ákvæði vantar í verðtollsfrv., sem skyldi skipstjóra að afhenda strax á áhöfninni „manifest“ ásamt æru- og samvizkuvottorði um, að aðrir flytji ekki inn en þeir, sem til greindir eru. Með því einu er hægt að hafa einhvern hemil á því, að minna verði svikið og dregið undan. Þetta er í mínum augum höfuðgalli frv., sem eg vona að verði leiðréttur.

Annað atriði er það, að enginn frestur er ákveðinn um það, innan hve langs tíma innflytjandi sé skyldur að hafa afhent reikninga sína. í tollögunum er fresturinn bundinn við 4 daga frá því, að varan kemur til landsins. Slíkt ákvæði þarf í þetta frv. Annars mundi það kosta botnlausa rekistefnu fyrir innheimtumann að ná í þessar skýrslur, og svo er það jafnvel nú, enda þótt ákvæði tolllaganna sé svona skýrt.

Þá er það eitt atriði, sem nefndin getur alls ekki bætt úr, nfl. það, að hafður sé nokkur hemill á eða eftirlit með því, að „faktúrur“ séu ófalsaðar. Mér er kunnugt um það, að oft hefir það komið fyrir, að gefnar hafa verið út fleiri en ein faktúra, og eg hefi það fyrir satt, að sumir agentar séu þegar farnir að gylla sig og sinn avinnurekstur með því, að viðskiftamenn þeirra þurfi ekkert að óttast það, þótt vörugjaldið komist á — þá muni ekki mikið um að „typewrighta“ 2— 3 faktúrur. Það er hvergi í frumv. bent á, að nokkuð eftirlit sé haft með þessu. Innheimtumenn taka við faktúrunum án frekari eftirlits og svik geta þrifist óhindruð. Hvaða áhrif þetta hefir á hinn svonefnda „Handelsmoral“, getur hver maður séð og þar er þó ekki sérlega miklu fyrir að fara, þó að löggjafarvaldið fari ekki að gera sitt til að spilla honum.

En er það aðgætandi að vörur, sem nema hundruðum þúsunda króna, eru fluttar hingað til landsins, án þess að nokkrir sölureikningar fylgi með. Tugir þúsunda af salti og tómum tunnum, sem innflytjendur hafa sjálfir látið búa til, eru fluttar hingað til landsins, þannig að innflytjandi tekur það úr eigin geymsluhúsum og flytur á sínum eigin skipum hingað upp. Mér er kunnugt um, að þessir innflytjendur hafa keypt salt í Trapani, flutt til Noregs og Svíþjóðar, látið búa til tunnurnar og sent svo alt á eigin skipum, óverðsett, til Íslands. Þannig eru innfluttar hingað ca. 100— 120 þús. tómar tunnur og ca. 2000 tonn af salti. Hvaðan á að fá kaup- eða sölureikninga yfir slíkt! Auðvitað hafa skipin „Toldpas“ vottað af dönskum konsúl, en kaup- og sölureikninga vantar alveg, því að þeir hafa ekki farið að selja og kaupa við sjálfa sig. Hvernig vill nú nefndin leggja verðtoll á þessar vörur eftir kaupreikningi?

Eg hefi því miður að eins lauslega getað athugað frv., af því eg hefi haft mikið að gera og verið lasinn síðustu dagana og því haft lítið tækifæri til þess að athuga það vandlega, og þó hefi eg rekist á þessar stórvitleysur í frv. Ennfremur skal eg benda á, að 5. gr. brt. er bæði óljós og óheppileg.

Skilyrðið um það að umboðsmenn megi ekki vera verzlunarmenn er ótækt. Í smærri kauptúnum mun vera afarörðugt að fá aðra umboðsmenn en einmitt kaupmenn. Þá þykir mér einnig óljóst ákvæðið um þennan 1. p. c., hvort lögreglustjóri á að borga hann, eða hann á að dragast frá tollinum. Þætti mér nauðsynlegt að skýring kæmi fram á þessu frá nefndinni.