12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

19. mál, verðtollur

Skúli Thoroddsen:

Eg hefi leyft mér ásamt tveim öðrum þingmönnum, að koma með br.till. við frv. Það er aðallega þrent sem hún fer fram á. Í fyrsta lagi fer hún fram á, að verðtollurinn sé hækkaður upp í 4—6%, úr 3%. Við vitum hve örðugur fjárhagur landsins er, og hve þarfir landsins hljóta æ að vaxa, þ. e. þörfin á fjárframlögum úr landssjóði. Eg hefi því talið heppilegt, að heimild sé gefin til þess í lögunum að færa tollinn jafn vel upp í 6%, hafa hann hreifanlegan, 4—6%, eftir því hvað þarfir landssjóðs heimta, og er þá gert ráð fyrir því, að þingið ákveði í hvert skifti, eftir þörfum landssjóðs og gjaldþoli landsmanna, hversu hátt gjaldið skuli vera á næsta fjárhagstímabili. Gjaldið verður því svo kallað hreyfanlegt gjald.

Meiri hluti nefndarinnar gerir ráð fyrir því, að innfluttar vörur muni á næstu árum nema ca. 11 miljónum á ári og ættu þá árlegar tekjur af verðtollinum, að geta numið 444—666 þús. kr. á ári. En nú má búast við, að vöruinnflutningur vaxi fremur en minki, einkum ef botnvörpuútgerðin vex, eður og önnur meiri háttar fyrirtæki komast á fót og gæti gjaldið þá orðið en hærra. En auk þess fer breytingartillaga vor fram á það, að hækka verðtollinn, og hafa hann hreyfanlegan, þá fer hún og fram á það nýmæli, að sveitar-, bæjar- og sýslufélögum sé ætlaður nokkur hluti af tollinum, og vænti eg, að þeirri nýung verði vel tekið.

Eg er sannfærður um, að í hvaða sveitar- eða bæjafélagi sem er, fær maður sama svarið, spyrji maður einslega að því, hver gjöldin kreppi mest að, — það svarið, að það séu beinu gjöldin, sem lang tilfinnanlegust séu. Tel eg því víst, að því yrði vel tekið, ef beinu gjöldunum yrði að nokkru létt af almenningi á þann hátt, að ætla sveitabæja og sýslufélögum dálítinn hluta af tollgjöldunum. En vildu menn á sumum stöðum engu að síður leggja á sig sömu gjöldin, sem verið hefir yrðu auknar tekjur til þess að knýja fram framfarir í ýmsum greinum.

Sé miðað við það, að inn séu fluttar vörur fyrir 11 miljónir, þá er 1/2% af því 55.060 kr., sem — eftir tillögu vorri — ganga til hreppa- og bæjarsjóða, eða geta mest gengið til þeirra, en til sýslusjóðanna gengi þá ¼%, eða 27,500 kr. Samtals yrðu þetta þá 82½% þús. króna, sem geta vaxið, eftir því sem innflutningur fer vaxandi.

Eftir síðustu landhagsskýrslum hafa hér á landi alls gengið til fátækraframfæris 173.503 kr. og væri því fyr greindur léttir sízt um of.

Sumum kann að virðast of hátt farið, er gjaldið er ákveðið 4—6% af því, er útlenda varan kostar, er hún er komin hingað til landsins; en tæpast mun landssjóðnum af veita, og sízt veitir sveitar-, bæja- og sýslufélögum reyndar af því, að þeim væri ætlað enn meira, en gert er í tillögu vorri, og mætti þá hækka þann hlutann, ef svo sýnist.

Að því er það snertir, á hvaða vörutegundir tollurinn komi þyngst niður, þá er örðugt, að spá nokkru áreiðanlegu um það, en þó sennilegast, að verzlunarsamkepnin yrði þess valdandi, að tollurinn kæmi yfirleitt þyngra niður á aðrar vörur, en á nauðsynjavörurnar.

Þá skal eg að lokum víkja fám orðum, að tillögu vorri, að því er skiftingu gjaldsins milli sveita-, bæja- og sýslufélaga snertir. — Eins og menn sjá, þá ( er gert ráð fyrir skiftingu gjaldsins eftir íbúatölu, en þó svo, að fámennari sveita-, eða bæja- og sýslufélögin fái sinn hluta hluta reiknaðan á þann hátt, að miðað sé æ við þriðjungi fleiri íbúa en þar eru. — Þetta er bygt á því, að hjálparskyldan er æ ríkari, er í hlut eiga þeir, sem öðrum eru ver settir, og þarf eigi að rökstyðja það frekar.

Að svo mæltu vil eg mælast til, að deildin taki br.till. vorri vel, enda má þá og breyta henni við 3. umr. málsins, þyki þess þörf.