12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

19. mál, verðtollur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Þegar um þetta gjald er að ræða, þá er þrent að athuga.

Í fyrsta lagi, hvort gjaldið sé sanngjarnt.

Í öðru lagi, hvort gjaldið sé nægilegt.

Í þriðja lagi, hvort gjaldið sé framkvæmanlegt.

Hvað 1. atriðið snertir, þá tel eg enga ástæðu til þess að álita gjaldið ósann gjarnt; því er að eins um hin atriðin að ræða.

Mig kynjar á því að hæstv. ráðherra (H. H.) gerir svo mikið úr örðugleikunum á innheimtu gjaldsins, því innheimtuna tel eg fremur auðvelda.

Það verður heldur ekki með sanni sagt, að eftirlitið eftir þessu frumvarpi verði ekki jafn auðvelt og eftir hinu, því jafn-illmögulegt er að endurskoða farmskrár sem reikninga og jafn-erfitt að hafa eftirlit með því, hvort lögreglustjóri steli, eða ekki. Engin bein trygging er fyrir því í hvorugu tilfellinu, að tollheimtumenn skili öllum tollinum, því að þeir geta skilað því sem þeir vilja.

Þar sem farið er fram á að allur verðtollur sé bygður á faktúrunni, þá er hér ekki um neinn eðlismismun að ræða milli hans og farmtollsins. Hvað erfiðleikana á innheimtunni snertir, þá sé eg enga ástæðu til þess að álíta hana ógerning, því að sjálfsagt hefir vakað fyrir nefndinni, að tollheimtumennirnir hefðu eitthvað að gera.

Eg ætla að leyfa mér að víkja snöggvast að breytingartill. hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) á þgskj. 221, um það, að verðgjaldið yrði hækkað upp í 4—6% og 1/4—1/2% rynni í sveitar- og bæjarsjóði og 1/8—1/4% af verðhæð vörunnar rynni í sýslusjóði. Þó eg telji talsvert vit í þessari tillögu, þá álít eg samt enga nauðsyn bera til þess að samþykkja hana, vegna þess, að þetta frv. er ekki ætlað til frambúðar, heldur að eins tjaldað til einnar nætur, ef svo má segja, og því óþarfi að vera að gera frumv. flóknara, en það þarf að vera lög um lengri tíma.

Hæstv. ráðh. (H. H.) sagði, að það tíðkaðist hvergi í heiminum, að hreppar fengju hluta af tollum, sem rynnu í ríkissjóð. Eg vil leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á, að það tíðkast í Canada, að nokkur hluti af tolli, sem rennur í sambandssjóðinn, gengur til fylkjanna. (Ráðherrann: Eg leyfi mér að efast um það, hygg að hv. þm. blandi saman). Onei, og hæstv. ráðh. getur líka sjálfur gengið úr skugga um það, ef hann vill.

Háttv. frsm. minni hlutans (B. K.) talaði um meðaltal af vöruflokkunum í farmgjaldsfrv., sem reyndar er nú ekki til umræðu. Það er eg hræddur um að geti verið villandi. T. d. að taka meðaltal af kornmat, því að eins og kunnugt er, er rúgmjöl langmest notað, þar næst hveiti og svo koll af kolli. En mikill verðmunur er á pundi af ólíkum kornvörum, t. d. höfrum og sagógrjónum. Svo finst mér það undarlegt á þessari áætlun, að fyrst er talin kornvara, þá bygg, maís o. s. frv. út af fyrir sig, alveg eins og það séu ekki kornvörur. (Björn Kristjánsson: Það er tekið eftir landhagsskýrslunum.) Sé svo, þá eru þær mjög vitlausar. Litlu og engu betra er að taka meðaltal af vefnaðarvöru, því að til hennar teljast mjög svo ólíkar tegundir svo sem klæði, sirz, strigi, silki o. s. frv.

Því getur enginn neitað með sanngirni, að í sjálfu sér er verðtollurinn miklu sanngjarnari.

Það vita allir háttv. þingmenn að eg er enginn verndartollavinur. En eg geng þó ekki svo langt í öfuga átt, að eg vilji verðlauna útlenda vinnu með því að íþyngja innlendri vinnu. Því að eg kalla það að verðlauna útlenda vinnu þegar óunnin vara er tolluð en unnin vara ótolluð, t. d. þegar tollur er lagður á pappír, en bækur undanskildar. (Björn Kristjánsson: Þetta er svo í báðum frumvörpunum.) Það held eg ekki, en ef svo er, þá á að breyta því, því að þetta er augsýnilegt ranglæti. — Þá hefir verið gert lítið úr því ákvæði í verðtollafrv. að tollheimtumönnum er heimilað að skoða bækur kaupmanna. Minnir mig að einhver hafi tekið það fram, að eins mætti falsa verzlunarbækur og sölureikninga. En þá vil eg minna á það, að betrunarhúshegning liggur við að færa falskar bækur og munu fáir kaupmenn vilja eiga mannorð sitt undir því. Annars er eg ekki hræddur um undandrátt hjá stærri verzlunum. Það væri helzt hjá smákaupmönnum og einstökum mönnum er vanta vörur. Stærri verzlanir okkar hafa reynzt mjög heiðarlegar og ekki gert sig sekar um tollsvik.

Ef verðtollsfrv. yrði að lögum, ættum við kost á að reyna þau í 3 ár. Og reynslan hefir orðið sú, að tilhneigingin til að brjóta lög, vex eftir því sem lögin verða eldri. Því ætti okkur ekki að standa mikill háski af þessum lögum jafnstuttan tíma. En þegar þau hafa gilt í 3 ár, hafa þau náð tilgangi sínum, að afla landssjóði þeirra tekna er hann þarfnast í bráðina.

Meira ætla eg ekki að segja um þetta að sinni.