12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

19. mál, verðtollur

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) þótti eg vera óákveðinn í þessu máli. Eg verð nú að segja það, að mér þótti hann ekki heldur sem ákveðnastur í sínum tillögum um það. Hann vildi fá að vita hvað eg hefði átt við, er eg sagði að eg teldi aðrar leiðir heppilegri til þess að bæta úr fjárþrönginni, heldur en þær, sem nefndarklofningarnir stinga upp á. Því er auðsvarað, og er mér engin launung á því, að eg álít langheppilegast að nema burtu orsökina til fjárskorts landssjóðs, sem allir vita að er aðflutningsbannið. Vínfangatollur með núgildandi tollgjöldum mundi gefa landssjóði um 750 þúsund krónur á fjárhagstímabili, meir en að hálfu frá útlendingum tekið. En tíminn er ekki kominn enn, til þess að nema bannlögin úr gildi og er ekki til þess hugsandi nú, hvað sem síðar kann að verða. Næst þeim gjaldstofni, áfengistollinum, tel eg árgjöld af einkasölu á kolum og steinolíu, sem heldur ekki hefir komist til atkvæða á þessu þingi, hið fyrnefnda af því að háttv. fráfarandi ráðherra tók til greina mótmæli sendiherra frá öðrum löndum, sem töldu sér og sínum fiskveiðum óhag búinn með þessu, hið síðara af því að hv. skattanefnd hefir setið á frv. til þessa.

Mér skildist á hv. þm. að hann vildi láta mig standa og falla með öðruhvoru þessara frumvarpa. En í svipinn tel eg mig eiga annað, sérstakt erindi að reka, sem eg fremur vil standa og falla með, svo að eg nenni ekki að gera það fyrir hann, að gera þetta mál að „cabinets-spursmáli“, og það því fremur, sem eg á ekki neinn þátt í þessum frumvörpum sem nú liggja fyrir. Mér þykir ekki frágangssök að ráða H. hátign konunginum til að samþykkja hvort þeirra sem væri, án þess að eg telji þau neitt afbragð að neinu leyti.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) var að herma eftir mér nokkur orð, sem eg hefði sagt á fundi norður á Sveinsstöðum um árið. Hann hafði þar skakt eftir mér að eg hefði líkt hreppunum hér í fornöld við ríki. Það voru goðorðin fornu, sem eg talaði um, og hygg eg að það hafi rétt verið, að landið var þá fremur ríkjasamband en lýðveldi. En hrepparnir okkar nú eru engin ríki, er líkt verði við fylkin í Canada.