12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

19. mál, verðtollur

Lárus H. Bjarnason:

Hv. framsögum. (P. J.) og eg höfum leitt sennileg rök að því, að ekki muni vanta nema jafngildi áfengisteknanna 1912— 13 til þess að tekjurnar 1914—15 hrökkvi fyrir líkum gjöldum og nú, og er þó ótalið alt sem spara mætti og ætti. Og allir vita að alþingi verður háð fyrir næsta fjárhagstímabil. Sé þetta rétt, þá er ekki nauðsynlegt að vera að setja lög nú til þess að auka tekjurnar, enda er ekki ólíklegt, að lotteríið muni þegar á næsta ári gefa af sér 100 þús. kr. og komist það á, gefur það landssjóði a. m. k. 400.000 kr. fjárhagstímabilið 1914—15. Þar að auki er enn þá ónotuð lántökuheimild fyrir 500 þús. kr. Það er þannig engin ástæða til að neyða frv. upp á hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra hélt því mjög fram, svo sem hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) hafði gert, að endurskoðun yrði mjög erfið eftir frv. okkar, og væri endurskoðunin þó afarnauðsynleg, ekki að eins vegna gjaldendanna, heldur og vegna lögreglustjóranna, en eg get ekki lagt mikið upp úr henni, ef hún reynist ekki betri en hingað til hefir verið, enda getur engin endurskoðun tekið yfir alt og alla. Það er t. d. ekki hægt að girða fyrir það nú að lögreglustjóri steli undan tollseðli. Hvaða endurskoðun getur fyrirbygt það? „Quis custodiat custodes ipsos?“

Hver á að passa sjálfan endurskoðanda og stjórnarráðið ? Það getur engin endurskoðun hindrað svik, hversu góð sem væri, sízt jafn léleg og endurskoðunin hefir stundum verið hér. Endurskoðunin á útgjaldaliðum landsreikningsins 1910 var ekki betri en það, að flestir þeir liðir voru óendurskoðaðir í febrúarlokin 1912, og landsreikningurinn 1910 þó saminn í árslok 1911. Sumar athugasemdir líktust auk þess meira skáldskap en reikningsaðfinningum. Eg hefi meira að segja heyrt það sagt, að einn stór útgjaldapóstur í landsreikningunum hafi alls ekki verið endurskoðaður, og það með samþykki ráðandi manns í stjórnarráðinu, frá ársbyrjun 1907 og fram á þennan dag. Þetta held eg að sé sannanlegt. Og þegar reynsla okkar í þeirri grein er svona, þá held eg að ekki sé mikið leggjandi upp úr þessari margumtöluðu endurskoðun. Auk þess er það ekki annað en bábilja að endurskoðun verði þýðingarlaus eftir verðtollsfrv. Þar verður nægum blöðum að fletta fyrir endurskoðunina, er hvert styrkir annað: Manifest, skipstjóravottorð, vottorð viðtakanda, lögreglustjóra, matsskýrsla o. s. frv.

Eg skil það vel að hæstv. ráðherra, tekur því frv., sem verður ofan á. En fyrst hann álítur bæði slæm, þá hefði hann átt að finna hvöt hjá sér til þess að bera fram eitthvað betra sjálfur. Annars hefir hæstv. ráðherra, eins og kunnugt er, setið í nefnd, er átti að bæta fjárhag landsins, en sú nefnd var sannarlega ekki fundvísari á góð úrræði en Nd. nefndin sem flestir skamma, og hafði þó milliþinganefndin bæði betri tíma og tækifæri til þess að hugsa málið, því að það er alveg rétt hjá háttv. þm. Ak. (G. G.), að það er ekki hægt að ætlast til þess að ein þingnefnd, sem hefir mörgu að sinna, geti fengist við slík stórmál, svo í lagi fari. Eg skal fúslega kannast við, að frv. er ábótavant, það er nokkurskonar „neyðarúrræði“, enda hefir nefndin líka skapað því stuttan aldur. En eitthvað varð að gera, úr því að stjórnin þykist ekki geta lifað án nýrra tekna og kolafrv. sæla varð úti á svo eftirminnilegan hátt. Sé það rétt um verðtollinn, að hann komi hart niður á sjávarsíðumönnum, þá á það enn frekar við kolaeinokun, eða kolatoll, því að svo má nærri að orði komast, að ekki sé brúkaður moli af kolum til sveita.

Það er auðvitað, að hvert gjald á útlendum vörum, hlýtur að koma harðar niður á kaupstaðarbúum, því að þeir kaupa meira af þeim vörum en sveitamenn. En í hlutfalli við eyðsluna kemur verðtollurinn jafnt niður á sjávarmenn og sveitamenn. Og verðtollurinn hefir það fram yfir aðra tolla, að hann kemur harðar niður á efnamönnum en fátœklingum.

Annars hefi eg ekki alveg orðið við tilmælurn háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), þegar hann gaf ávísun á mig að tala, því að hann mun aðallega hafa ætlað mér að forsvara br.till. Skal eg nú fara um þær nokkrum orðum. Þær miða allar að því að sverfa af frv. þá hnífla sem menn höfðu sérstaklega rekið sig á, miða til þess að gera frv. aðgengilegra, án þess að stofna aðalinntaki þess í hættu.

T. d. hefir ákvæðinu um kyrsetningu, sem er áhrifamikið meðal til þess að knýja fram kaupreikning, verið breytt svo, að kyrsetning á sér ekki fortakslaust stað. Br.till. heimilar nfl. að setja veð fyrir greiðslunni. Þeir sem álíta, að sér verði tjón að kyrsetningu, geta sett veð — og landssjóður tapar engu, því að hann heldur veðinu. Sömuleiðis er það viðtakanda til hagnaðar, að honum er ekki fortaklaust gert það að skyldu að afhenda kaupreikning. Hann er sýkn saka þó að kaupareikningar komi ekki fram, honum verður ekki um það kent og skal þá tollheimtumaður, eða ef viðtakandi kýs það heldur, dómkvaddir menn meta vörur til verðs. Og þetta mat er alls ekki óframkvæmanlegt, svo sem háttv. þm. G.-K. (B. Kr.) hefir haldið fram, því að þótt ekki verði sagt, hvað viðtakandi hefir gefið fyrir vöruna, þá má alt af fá að vita alment gangverð hennar. Ef viðtakanda virðist matið of hátt og geti hann sýnt skilriki fyrir því að svo sé, þá fær hann mismuninn á tollinum endurgoldinn. Alt þetta horfir til bóta á frv. Sömuleiðis 8. br.till. Það getur oft verið erfitt aðstöðu fyrir tollheimtumenn og fyrirhafnar mikið verk þeirra og gefur tillagan því stjórnarráðinu heimild til þess, að fela póstmönnum að hafa á hendi tollheimtu og reikningsskil fyrir tolli af vörum þeim, sem sendar eru sem póstsendingar. Ennfremur heimilar tillagan stjórnarráðinu að setja reglugerð fyrir umboðsmenn tollheimumanna. Og svo mikið held eg að megi segja um allar br.till., að hættulaust sé að greiða þeim atkvæði til 3. umr. Komi fram aðrar br.till. til 3. umr., þá er sjálfsagt að nefndin athugi þær. Mér þykir það óheppilegt að br.till. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir komið svona óforvarandi inn í deildina og vil styðja þau tilmæli háttv þm. S.-Þing. (P. J.), að hann taki hana aftur við þessa umr. og beri hana fram til 3. umr., svo að nefndinni gefist kostur á að athuga hana. Verði hún borin upp nú, get eg ekki annað en greitt atkvæði á móti henni, en ekki er alveg víst að svo færi, ef nefndinni gæfist kostur á að athuga hana betur, þó að óneitanlega virðist talsvert nýjabragð að henni.

Eg vænti þess að hæstv. forseti láti ganga til atkvæða um hvort málið fyrir sig, enda þótt umræðunum um þau hafi verið slengt saman.