12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

19. mál, verðtollur

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg hefði getað sparað mér að taka til máls, því að mótbárur þær, sem fram hafa komið eru fremur veigalitlar og í raun og veru hefir nefndin orðið að kannast við, að athugasemdir mínar hafi allar verið á rökum bygðar.

Það sem háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sagði skárst í ræðu sinni, var það, að eg væri „hinn háværasti sleggjudómari“ hér í deildinni, en þó hefi eg aldrei neinn slíkan „sleggjudóm“ upp kveðið eins og í þessum orðum þm. felst, því nú hefir hann orðið að viðurkenna það, að eg hafi haft rétt fyrir mér í öllum þeim mótbárum, sem hann nefndi „sleggjudóma“ Annars skal eg ekki fara frekar út í ummæli hans, því að hann er nú dauður. (Lárus H. Bjarnason: Eg rís upp aftur).

Það, sem eg í fyrri ræðu minni benti á, var það, að það vantaði inn í 1. gr. frv. ákvæði sem væri í samræmi við 3. gr. núgildani tolllaga, að ekki mætti flytja vörur úr skipi fyr en allar skýrslur væru afhentar tollheimtumanni. Eg er þess fullviss, að þótt 5. gr. frv. vísi til tolllaganna, þá verður hún ekki skilin svo, að hún vísi til hinna sérstöku hegningarákvæða, sem beita skal, ef út af er brotið. Þetta er líka viðurkent af nefndinni, enda auðsætt að slíkt ákvæði í frv. sjálfu er mikið skýrara og tekur af allan vafa, sem kannske gæti orðið banamein þessa frv. Láka vil eg benda á, að nauðsynlegt er að orða skýrara 2. lið 5. br.till., svo að þar undir geti fallið þau tilfelli, að eigandi sjálfur flytur vöruna á sínu eigin skipi hingað til lands. Og í þriðja lagi þyrfti að breyta dálítið orðalagi 2. liðs í 8. br.till., svo að greinin verði skýrari. Eg vona að nefndin skilji það, þótt eg gefi þessar bendingar, að eg tel mér ekki skylt að koma fram með br.till. við frv., sem eg ætla mér að greiða atkv. á móti. Eg hefi slegið því föstu — og það verður ekki hrakið — að verðtollur er réttlæti, sem ekki er framkvæmanlegt, en farmtollur er ranglæti, sem hægt er að framkvæma. Og þá rekur að því, sem eg sagði, að bæði frv. hafa þá galla, sem gera það að verkum, að þau eru ekki frambærileg á þingi siðaðrar þjóðar. Ástæðan til þess, að ekki er rétt að samþykkja verðtoll, er skortur á nauðsynlegu eftirliti.

Háttv. framsögumaður sagði, að það væru hörð orð að segja að þetta frv., ef það yrði að lögum, æli upp svik í landinu. Eg staðhæfi að þetta er rétt og enginn hefir fært skýrari rök að því en háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) þegar hann var að tala um tíundarlögin. Þau hafa verið brotin fram á seinustu tíma og eru brotin enn í sumum héruðum. Það er varla til svo heiðarlegur bóndi, að hann hafi ekki verið vændur um tíundasvik. Og það er einkennilegt, en samt satt, að hér áður fyrri hafa menn, sem öllum er kunnugt um að ekki vildu vamm sitt vita, talið sér enga skömm að því að telja rangt fram. Og það brennur víst við víða enn þá, þó að það hafi mikla áhættu í för með sér. Verkahringur hreppstjóra er ekki stærri en svo að hann á hægt með að vita, hvort rétt eða rangt er framtalið. Og þetta er ekki stærri upphæð en 2—3 álnir, sem menn eru að svíkjast undan. Hv. þm. sagði, að það væri engin mótbára á móti lögum, að hægt væri að fara kring um þau Það þykir mér skrítin kenning.

En beri maður nú saman við tíundalögin, sem svo mikið eru svikin og þar sem um svo litla upphæð er að ræða, þessi verðtollslög, sem miklu hægra er að fara í kring um og þar sem veltur á svo geypiháum upphæðum, sem hægt er að draga sér með einföldum undanbrögðum, hvernig ætli raunin verði þá á? Og þegar það er auðsætt að lögin eru svo óframkvæmanleg, að lítil von er um að þau nái tilgangi sínum, því er Alþingi þá að samþykkja þau? Það er ljóst að þau ala upp svik og hagnaðurinn í aðra hönd verður miklu minni en til er ætlast.

Eg ætla mér ekki að fara út í neinn samanburð á ærlegum hugsunarhætti bænda og kaupmanna. Bændurnir eru náttúrlega breizkir líka — en mér finst eins og eg tók fram í fyrri ræðu minni, að „Handelsmoralen“ eigi ekki svo miklu fyrir að fara, að löggjafarvaldið ætti að gera tilraun til þess að gera hann ennþá verri.

Eg geri ekki mikið úr mótbáru hœstv. ráðh. (H. H.) að erfitt verði að hafa eftirlit með umboðsmönnum tollheimtumanna. Eg býst við að stjórnarráðið, eins og lagt er til í 8. brtill. meiri hl, gefi út reglugerð um starf umboðsmanna og innheimtuna, hvaða skjöl eigi að fylgja með og heimtaðar séu fulltryggar upplýsingar um skipsfarma. Alment held eg að verði ekki erfitt að hafa „Kontrol“ með umboðsmönnum. Það getur verið erfitt á einstaka stað, svo sem t. d. á Siglufirði, þar sem skipin koma beina leið frá útlöndum og fara beina leið út aftur, án þess að koma á nokkra aðra höfn. Þar geta heilir skipsfarmar horfið án þess að nokkur hafi hugmynd um.

Háttvirtum framsögumanni fanst það vera ofmælt hjá mér að segja að eftir þessum lögum væri ekki trygt neitt tolleftirlit, en eg staðhæfi það enn, að þau tryggja alls ekki tolleftirlit og að því er til manifesta kemur, þá eru þau allsendis ófullnægjandi. Það er ómögulegt að bera þessi lög saman við núgildandi tolllög, af því að hvergi er tvímælalaust tekið fram að skipstjóri sé skyldur að sýna manifest, og þar sem að tollur er nú að eins á örfáum vörutegundum. Tollstjórnin danska lætur tollskrásetja hjá sér allar tollskyldar vörur, en hér á landi er ekkert slíkt fyrirkomulag, sem hægt væri að byggja á tolleftirlitið. Það væri því ástæða til að setja hér sérstök ákvæði inn í lögin um tollskrár. Hér á landi hafa að eins örfáar vörutegundir verið tollaðar og verður naumast sagt að eftirlitið hafi verið nokkuð eða sé nokkuð. Þegar nú búið væri að setja þetta ákvæði um tollskrár inn í lögin, þá má heimta æru- og drengskapavottorð af þeim, sem inn hafa flutt, og bera svo vottorð þeirra saman við tollskrána og ættu þá flestöll kurl að koma til grafar, og ætti þetta eftirlit því ekki að þurfa að vera margbrotið. Vitaskuld fyrirbyggir það eigi falsaða kaupreikninga, en þau svikin hafa alstaðar reynst hættulegust. En þar sem nú lög þessi, eins og þau liggja nú fyrir deildinni, tryggja alls ekki eftirlitið, þá álit eg þau viðsjárverð og eftir þeim hætt við að tollarnir tapist meira en vera þarf. Í öllu falli þarf að koma inn tvímælalaust ákvæði um að skipstjóri sé skyldur að láta af hendi við lögreglustjóra skilríki fyrir því, hvað skip hans hafi að flytja og leggi drengskap sinn og æru við að allir innflytjendur séu þar tilgreindir.