14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

19. mál, verðtollur

Guðlaugur Guðmundsson:

Úr því að nefndin gengur að 1. brt. minni, þarf eg ekki að eyða orðum að henni. Eg skal taka það fram, að hún er alveg nauðsynleg, því annars gat tollheimtumaður átt á hættu að vörurnar væri komnar í hendur óreiðumönnum áður en hann vissi af.

Hvað hinar tvær seinni brt. mínar snertir, þá verð eg að halda þeim fast fram.

Hæstv. ráðh. (H. H.) hefir bent á út í hvaða ófæru 6. brt. nefndarinnar muni leiða gagnvart tollheimtumönnunum. Eg leyfi mér því að leggja til að 5. brt. nefndarinnar sé feld og skilst mér að þar með falli niðurlag 6. brt. En jafnvel þó 5. brt. verði samþykt, verður þó að fella aftan af þeirri 6. þessi orð: „enda gjaldi hann“ og til loka greinarinnar.

Eg vona, að menn séu ekki svo ófróðir, að þeir ekki sjái og skilji, að eftirlit og innheimta á þessum tolli yrði margfalt verri viðfangs og erfiðari heldur en eftir núgildandi lögum. Það munu flestir vita, að nú gera innheimtulaunin ekki betur en hrökkva fyrir þeim kostnaði og ábyrgð, er af innheimtunni leiðir. Fyrir ábyrgðinni má gera ½% — 3/4% og kostnaður verður 1½% þó innheimtumönnum sé ekkert borgað. Eg er þó ekki frá því að í minni umdæmum geti hlutfallið verið annað. Þá reynslu hafði eg í Skaftafellssýslu að þar borgaði minni upphæðin sig betur.

Hvað útflutningsgjaldið snertir, þá er það misjafnt í hinum ýmsu umdæmum, og það borgar sig yfirleitt betur heldur en tollarnir. Þetta er mín reynsla og eg vona, að menn trúi því sem eg segi í þessari grein; annars gæti eg fært skjallegar sannanir fyrir því. Eg verð að segja að þessir umtöluðu 3% eru miklu verri borgun fyrir innheimtu í þessum tolli heldur en þeir 2% sem nú eru greiddir.

Það er þó líklega ekki vísvitandi eða viljandi tilgangur þingsins, að níðast á þessari stétt embættismanna með því að taka af þeim laun og ætlast þó til að þessi störf séu samvizkusamlega unnin. Það er blátt áfram barnaskapur og vitleysa. Þessvegna álit eg rétt að láta orðalag 5. gr. halda sér, en bæta inn í 6. gr. 3% innheimtulaunum. Það var ekki eg sem upphaflega hreyfði þessu.

Það er eins og menn haldi að það sé léttir fyrir tollheimtumann að hafa umboðsmenn; að innheimtumenn hafi ekki annað að gera heldur en taka á móti peningum frá umboðsmönnum. Það sýnir hvað menn eru ófróðir í þessu efni. Innheimtumenn hafa sannarlega miklu meira að gera. Að vísu geta sumir umboðsmenn haft eftirlitið að miklu leyti sjálfir og gert glögga og góða skilagrein fyrir starfi sínu, svo að innheimtumaður þurfi ekki annað en að líta lauslega yfir það, til að sannfærast um að alt sé rétt. En þeir geta líka skilað öllu í molum og brotum, svo að innheimtumaður þurfi að fara sjálfur vandlega í gegnum alt saman og þverfóti ekki fyrir vitleysum. Og ef það er meiningin að leggja á innheimtumenn alla ábyrgð á því er umboðsmennirnir gera, þá er sú ábyrgð engu minni heldur en gagnvart gjaldendunum.

Mér finst það ekki rétt, að demba þessum störfum á embættismenn, sem eru öðrum störfum hlaðnir, þegar það verður þeim að fjárhagslegu tjóni. Eg get ekki séð að þingið hafi vald til að fara þannig ofan í vasa manna. Yfir höfuð er sú stefna ramvitlaus, að demba allri skrifstofulegri moldarvinnu á sýslumenn, í stað þess að það ætti að losa þau embætti við sem flest af því, sem truflað getur aðalstarfið, dómarastarfið. En þessi embætti eru nú brúkuð eins og nokkurskonar ruslakista fyrir allskonar sóðaverk, sem aðrir ekki nenna að vinna eða fást til að vinna, og svo eru þau launuð með eftirtölum, vanþakklæti og sleggjudómum.